05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5922 í B-deild Alþingistíðinda. (5280)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Svo sem sagt var þegar ég gekk í ræðustól hljóta skýringar á því sem hér er um að tefla að vera nærtækar hjá ráðh.

Ég vil vekja athygli á þeirri sérkennilegu stöðu sem komin er upp í þinginu og raunar var vikið að og ýjað að í umr. áðan. Hér er verið að ræða stjfrv. sem er búið að þrautræða í báðum þingflokkum stjórnarinnar. Stjórnarandstæðingar í hv. fjh.- og viðskn. hafa lagst á árina í þessu máli og lagt til að þessi tilraun verði gerð. Er ljóst að vel má vera að ýmis ákvæði þurfi endurskoðunar við í ljósi reynslunnar. En þegar þetta frv. kemur hér til 2. umr. er það hv. 5. þm. Vesturl. sem kveður sér hljóðs til að gera ýmsar aths. við þetta frv. ríkisstj. Ég lét svo ummælt í þessum ræðustól fyrr í dag að þetta stjórnarsamstarf væri búið. Það staðfestist í umr. um hvert málið á fætur öðru hvað hefur gerst innan ríkisstj. Þetta er mál sem hefur verið þrautrætt í báðum þingflokkum stjórnarflokkanna og svo veldur það ágreiningi þegar það kemur hér til umr. Það er ekkert um það að segja. En í þessu tilvikinu kemur ágreiningurinn ekki frá stjórnarandstöðunni. Ég er í rauninni hálfmiður mín yfir því sem hæstv. forsrh. sagði í dag þegar hann hrósaði stjórnarandstöðunni svona óskaplega fyrir sanngirni og lipurð í meðferð mála. Ég fer að óttast um, og endurskoða hug minn, að við höfum ekki staðið okkur sem skyldi í stjórnarandstöðunni. En það er alveg greinilegt að hluti stjórnarliðsins er kominn í stjórnarandstöðu. Og ég held að það fari ekkert endilega eftir flokkum. Það fer eftir málum. Það er engin samstaða um eitt eða neitt í þessari ráðleysisstjórn sem nú gerir ekkert annað en að rembast við að sitja.