05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5923 í B-deild Alþingistíðinda. (5281)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég get ekki sagt annað en hv. 5. landsk. þm. hafi haft nokkuð stór orð um það að ég skyldi standa upp við þessa umr. Við skulum athuga að enda þótt frv. séu þrautrædd innan stjórnarflokkanna er ekki óalgengt að spurningar vakni um ýmis einstök atriði og sem betur fer koma fram við nefndastörf skýringar á ýmsu því sem í þeim frv. stendur sem nefndirnar fjalla um og eru það iðulega sönnur á því að nauðsynlegt er að vanda mjög til verka. Ég segi þetta ekki af því að ég líti svo á að fjh.- og viðskn. hafi unnið sitt verk illa. Þvert á móti á nefndin hrós skilið.

En erindi mitt í ræðustól var alls ekki það að ég fagnaði ekki þessu frv. Það er mesti misskilningur hjá hv. 5. landsk. þm. Ég tel þetta frv. af hinu góða, einmitt vegna þess að hér er stigið eitt skrefið í þá átt að lækka tekjuskattinn. Að vísu eru þeir fjármunir mjög óvissir sem hugsanlega verða í tengslum við þetta frv. Það er alveg ljóst. Það er útilokað að menn hafi á takteinum í hve ríkum mæli einstaklingar muni nýta sér sparnaðarreikninga sem mynda skattahagræði. Ég taldi blásaklaust að leitast við að fá það fram hvort þessi atriði sem ég nefndi — þau eru bara tvö — hefðu verið rædd í fjh.- og viðskn., en um ágreining eða andstöðu af minni hálfu við þetta frv. er ekki að ræða, síður en svo.