05.06.1985
Efri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5923 í B-deild Alþingistíðinda. (5282)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Helgi Seljan:

Herra forseti. Mér þykir ekkert óeðlilegt við það að hv. 5. þm. Vesturl. komi með spurningar varðandi þetta mál og vilji fá á því nánari skýringar því að við höfum heyrt þá lýsingu frá hæstv. forsrh. hér í dag að mál séu alleinkennilega rædd í stjórnarflokkunum, ýmislegt fari fram hjá mönnum þar og menn viti ekki hvað þeir geri. Þess vegna eigum við í stjórnarandstöðunni að fyrirgefa þeim nánar tiltekið. Ég þekki það vel samviskusemi hv. 5. þm. Vesturl. af nefndastörfum með honum að ég veit að hann er allra manna óhressastur með flaustur og eftirrekstur sumra ráðh., þó að hann hafi unnið vel að sínum málum þar, þegar þeir hafa verið að óska eftir því að menn afgreiddu helst málin án þess að svo mikið sem lesin væru yfir einstök mál.

En það sem vekur athygli mína er að hér kemur einn hv. stjórnarliði upp og biður um skýringar á veigamiklum atriðum í málinu og honum er ekki ansað. Ég skora þess vegna á aðalhöfundinn, hæstv. fjmrh., að skýra það mál og svara hv. 5. þm. Vesturl., sýna þá kurteisi að svara honum varðandi þau atriði sem hann kom inn á, bara honum til sáluhjálpar svo að hann geti verið sáttari við frv. en hann annars er greinilega.