05.06.1985
Neðri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5927 í B-deild Alþingistíðinda. (5292)

250. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Örfá orð skulu verða grg. fyrir atkv. mínu.

Þessi till. fjallar efnislega um það að 11000 manns, sem í fiskverkun starfa, fiskiðnaði, fái sömu réttindi og almennt verkafólk í landinu. Ég neita að samþykkja þá svívirðu að Alþingi skjóti sér undan því að tryggja þessu fólki þessi mannréttindi. Samúðin ein dugar þar skammt. Ég lýsi því þess vegna yfir að ég hef ekkert heyrt frá ríkisstj. nema það gagnstæða við að styðja þessa tillögu eða koma henni í framkvæmd. — Og vegna tilvitnaðra orða Eðvarðs heitins Sigurðssonar. Það eru átta ár síðan þau voru mælt og síðan hefur þetta mál sífellt verið til umræðu án árangurs. Ég harma ef það verður hlutskipti Alþingis að neita enn þessu fólki í grunnatvinnuvegi þjóðarinnar um almennustu mannréttindi og segi nei.