05.06.1985
Neðri deild: 83. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5929 í B-deild Alþingistíðinda. (5299)

351. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1062 frá fjh.- og viðskn. Nefndin hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess. Guðrún Agnarsdóttir stendur að afgreiðslu málsins með fyrirvara. Undir þetta rita Páll Pétursson, Guðmundur Einarsson, Friðrik Sophusson, Kjartan Jóhannsson, Þorsteinn Pálsson og Svavar Gestsson.

Þetta mál er þmfrv. og fjallar um það að ef félagi í lífeyrissjóði, sem á rétt á töku fæðingarorlofs, ákveði að hverfa úr fyrra starfi að hluta eða öllu leyti til heimilisstarfa geti hann haldið aðild sinni að lífeyrissjóði á óbreyttum grundvelli í allt að sjö ár, enda greiði hann til sjóðsins bæði launþegahluta og atvinnurekendahluta. Það er mjög mikilvægt að rétta hlut heimavinnandi húsmæðra og eðlilegt að veita þeim möguleika á að sinna börnum og heimili tímabundið án þess að glata lífeyrisrétti.

Ég tel að brtt. hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur og Kristínar Halldórsdóttur á þskj. 664 sé óraunhæf og, ef samþykkt yrði, til þess að hindra framgang málsins.