15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. 2. þm. Austurl. þegar hann sagði að s álfsagt væri að vísa málinu til nefndar og skoða það. Ég get tekið undir að æskilegt er að þarna séu mönnum allar staðreyndir ljósar. Ég held að ekki sé vilji neins, sem þarna kemur að, að dylja neitt. Þess vegna er æskilegt að eftir sem flestum upplýsingum sé leitað varðandi þessi mál.

Hins vegar vil ég, vegna þeirra umr. sem hér hafa farið fram um til hvorrar nefndar málinu skuli vísað, leggja til að frv. sé vísað til landbn. eins og framleiðsluráðsfrv. ævinlega hingað til. Ég veit ekki hvernig vinnubrögð yrðu hér á Alþingi ef við færum að tína einstakar greinar út úr lögum og vísa til sitt hvorrar nefndarinnar. Hvernig í ósköpunum mundi það enda? Deildanefndirnar eru tíu. Ef við værum að búta lög þannig sundur og vísa þeim bútum til sitt hverrar nefndarinnar, eftir því sem okkur dytti í hug að væri æskilegast út frá einhverjum sjónarmiðum, þá held ég að við færum út á algerar villigötur. Ég held að við verðum að halda okkur við það eins og við getum að þeir málaflokkar sem tilheyra ákveðnum nefndum gangi til þeirra. Þess vegna vil ég eindregið leggja til að þessu frv. verði vísað til landbn.

Um efni frv. skal ég ekki ræða mikið að öðru leyti. Hér er því slegið föstu að umboðslaunin skuli vera 2% af söluverðmæti útfluttrar vöru. Hvað er söluverðmæti? Er það það verðmæti vörunnar sem ríkið viðurkennir eða er það verðið sem er greitt af kaupanda erlendis — sem ég efast ekki um að sé þarna meint? Hins vegar vitum við að með ákvörðun ríkisstj. og Alþingis árið 1960 um útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir var því slegið föstu að ríkið greiddi hluta af framleiðslukostnaði vörunnar. En það er óþarfi að fara út í neina hártogun um það.

Hins vegar vil ég benda á að engum er skylt að flytja út landbúnaðarvörur. Það er ekki hægt að lögskylda neinn til þess ef þóknun fyrir það er langt undir þeim kostnaði sem því fylgir. Ég vildi benda þeirri nefnd á, sem um málið kemur til með að fjalla, að ekki má setja svo þröngar skorður í lögum um þá þóknun, sem heimilt er að taka fyrir sölu erlendis, að engir fáist til þess að líta við slíkri vinnu. Það er einmitt lögð áhersla á það núna að okkur sé mikilvægt að leita hinna allra bestu markaða og þær raddir heyrast oft að ekki sé lögð nægileg vinna í markaðsleit. Þess vegna má ekki með einhverjum fljótfærnislegum lagasetningum setja lagaákvæði sem koma kannske algerlega í veg fyrir að nokkur fáist til að líta við þeirri starfsemi.

Hér hefur svo verið borin fram spurning um endurskoðun framleiðsluráðslaganna og hvað því verki miðar. Viðræður voru hafnar fyrir um ári um það mál og síðan hefur verið aflað margvíslegra upplýsinga. Stærsti áfanginn í þessari undirbúningsvinnu er tvímælalaust nál. frá nefnd sem ég skipaði á s.l. vetri til þess að gera tillögur um framleiðslustefnu í landbúnaði. Sú nefnd skilaði tillögum sínum í byrjun síðasta mánaðar og þær voru til umfjöllunar á aðalfundi Stéttarsambands bænda, þar sem tekið var undir meginniðurstöðu nefndarinnar. Þetta verður grundvallarplagg, getum við sagt, um þann þátt þeirrar endurskoðunar á framleiðsluráðslögunum. Að því er nú verið að vinna að reyna að móta þá stefnu í lagafrv. þannig að hægt sé að leggja frv. fyrir Alþingi. Hins vegar er augljóst að hér er um mjög mikið vandaverk að ræða, enda þótt samkomulag sé orðið um heildarstefnumörkun í þessum málum.

Niðurstaða nefndarinnar er í samræmi við það sem hv. 5. landsk. þm. vitnaði til og las upp úr þjóðhagsáætlun þannig að þar er ekki um neinar andstæður að ræða. Hins vegar er augljóst að allmikil vinna er að koma þessu máli í það horf að hægt sé að leggja það fyrir Alþingi, en ég óska eindregið eftir því að hægt sé að hraða þeirri vinnu og leggja frv. fram hér sem allra fyrst.