06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

72. mál, forræðislausir foreldrar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst næstum því sorglegt að fsp. af þessu tagi skuli þurfa að koma fram og hér skuli þurfa að tala um dagsektir til foreldra sem umgangast ekki börn sín lögum samkvæmt. Vitaskuld á hvort tveggja rétt á sér vegna stöðu mála eins og þau eru í dag. Þó vil ég minna hæstv. ráðh. á að þessi leiðinlegu hugtök „skilgetin“ og „óskilgetin“ börn hélt ég að hefðu horfið með barnalögum vegna þess að þá féllu úr gildi lög um afstöðu foreldra til skilgetinna barna annars vegar og lög um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna hins vegar. Ég held að það sé okkur öllum farsælast að gera ekki greinarmun á því hvernig samband foreldrar hafa haft þegar barnið varð til. Það er ekki spurt að því síðar, þegar þau koma út í þjóðfélagið til þess að vinna sínu landi og þjóð.

Mín skoðun er sú í stuttu máli að hér þurfi gjörbreytingu á hugarfari og því miður er ekki hægt að gera hana með lögum. En auðvitað ættu foreldrar, hvernig sem þau kjósa annars að búa, að bera bæði forsjá barna sinna. Og þess vegna ætti allt sem heitir forræði að hverfa úr málinu og úr lögunum. Það er auðvitað fráleitt að tvær manneskjur, sem hafa eignast barn saman, skuli ekki bæði hafa forræði barnsins, hvort sem þau kjósa að vera gift eða ógift, í sambúð eða ekki sambúð. Þetta er ábyrgð sem engin siðmenntuð manneskja getur afsalað sér. Og það er beinlínis skelfilegt að nokkur manneskja þurfi að afsala sér forræði yfir sínu eigin barni.

Í Danmörku hefur mál af þessu tagi verið lagt fyrir þingið, þar sem kom fram frv. til l. um að forræðishugtakið skyldi afnumið og báðir foreldrar sjálfkrafa hafa forræði barna sinna, hvernig sem þeirra sambúð væri annars háttað. Ég vildi aðeins segja frá þessu vegna þess að ég hef um nokkurt skeið verið dálítið að vinna í þessu, og vel má vera að það takist að leggja fram mál af þessu tagi hér fyrir hið háa Alþingi. Ég tel að þm. hljóti að geta verið sammála um það að annað foreldri eigi aldrei að hafa forræði yfir barni sínu eitt saman, heldur foreldrarnir báðir.