05.06.1985
Efri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5934 í B-deild Alþingistíðinda. (5322)

528. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á jarðræktarlögum nr. 79 29. maí 1972. Árið 1979 var þeim lögum breytt með bráðabirgðaákvæði sem miðaði að því að sniða ákvæði laganna að þeirri breytingu á framleiðslustefnu sem þá var mörkuð og skyldu bráðabirgðaákvæðin taka til framkvæmda sem unnar yrðu á árunum 1979–1984 og féllu því úr gildi nú um síðustu áramót. Nokkur undirbúningur hefur farið fram að endurskoðun á jarðræktarlögum. Ég skipaði nefnd á síðasta ári til þess að fjalla um það en einnig tók Búnaðarþing málið til meðferðar og vann að því á s. l. ári. Það var tekið til umr. þar í vetur og komu fram till. að umfangsmiklum breytingum á lögunum. Ekki náðist að afgreiða það á Búnaðarþingi áður en því var slitið. Hefur það átt sinn þátt í því að um heildarendurskoðun laganna hefur ekki enn orðið að ræða. Þegar það var séð var horfið að því ráði að flytja hér frv. um bráðabirgðaákvæði sem gilda á þessu og næsta ári og ganga í sömu átt og bráðabirgðaákvæðin frá 1979–1984, þ. e. að takmarka stuðning við þær búgreinar þar sem getur verið um að ræða aukningu á búvöruframleiðslu í hefðbundnum búgreinum, svo sem framræslu og grænfóðurrækt, en beina því heldur að því að efla stuðning við heimaafla, svo sem endurræktun, bætta heyverkun og geymslu garðávaxta. Í þriðja lagi er efldur stuðningur við nýjar og vænlegar búgreinar, svo sem loðdýrarækt, en til hennar rann stór hluti af því fjármagni sem dregið var af skv. bráðabirgðaákvæðunum frá 1979 en greiddist til Framleiðnisjóðs.

Hér er sem sagt um bráðabirgðaákvæði að ræða sem gilda í þessi tvö ár. Í sambandi við það takmark sem sett er á framlög til jarðræktar hefur verið bent á að það gæti verið æskilegra að hafa það sameiginlegt hámark þessi tvö ár sem gæti þá færst á milli ára. Þessi takmörk eru miðuð við það að þar verði hægt að standa við eðlilega hreinsun og viðhald sem verður að leggja áherslu á til þess að halda túnum í góðri rækt svo að afrakstur þeirra verði sem bestur. Hins vegar er staðan orðin þannig að heyfengur ætti að vera undantekningarlítið nægjanlegur af þeim túnum sem þegar eru til í eðlilegu árferði og er þess vegna horfið að því að beina fjármagninu fremur til þeirra greina þar sem möguleikarnir eru meiri og þörfin meiri fyrir uppbyggingu.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.