05.06.1985
Efri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5939 í B-deild Alþingistíðinda. (5337)

526. mál, Seðlabanki Íslands

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til l. um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, tiltölulega einfalt mál og að nokkru leyti hv. dm. þegar kunnugt. Fyrr á þessu þingi var flutt frv. til l. sem gekk að nokkru í sömu átt, þ. e. að breyta lagareglum um bindingu sparifjár í Seðlabankanum. Þetta frv. gengur þó langtum skemmra en hið fyrra, er því frábrugðið, sem sagt, bindiprósentutalan er önnur en var í því. Skv. gildandi lagaheimildum hefur Seðlabankinn leyfi til að binda allt að 38% af sparifé landsmanna. Fram hefur komið að þessi binding er núna í raun 18% en í hinu fyrra frv. var talað um að lækka hana niður í 10%. Hér er aðeins gert ráð fyrir að bindiskyldan verði lækkuð úr 18% í 15%, þ. e. lækkuð um 3% í raun og síðan komi ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fjármagni því, sem losnar úr Seðlabanka með þessari lækkun bindiskyldunnar, skal, í samráði við viðskiptabankana og húsnæðismálastjórn, varið til þess að létta greiðslubyrði húsbyggjenda.“

Þetta er tiltölulega einfalt mál og það hefur komið fram opinberlega að í frv. til l. um Seðlabanka Íslands, sem bankamálaráðherra hefur boðað að flutt verði eða sýnt verði á þessu þingi, séu ákvæði um 15% bindiskyldu. Það er hins vegar óljóst hvort það frv. verður samþykkt og raunar ólíklegt að það verði samþykkt á þessu þingi. Því er þetta frv. flutt til að flýta því að þessi ákvæði, sem ríkisstj. virðist hafa náð samkomulagi um, nái fram að ganga. En með því einu að lækka bindiskylduna í Seðlabankanum um þessi 3% mundu losna tæplega 800 millj. kr., nánar tiltekið 780–790 millj. kr. sem bankarnir og innlánsstofnanir gætu þá notað til að lengja lán og létta greiðslubyrði húsbyggjenda. Það er um það sem umr. hér á Alþingi hefur snúist, ef ekki opinskátt þá a. m. k. bak við tjöldin en reyndar líka í hinum opnu umr.

Okkur flm. þessa frv. — en þeir eru ásamt þeim sem þetta mælir hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, Ragnar Arnalds og Stefán Benediktsson — þykir einsýnt að lækka þessa bindiskyldu nú þegar í stað og losa þannig fjármagn til að greiða úr erfiðleikum húsbyggjenda án þess að þurfi að koma til nýrrar skattheimtu. Ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð en legg til að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og ég á von á því að hún þurfi ekki mjög langan tíma til að taka afstöðu til málsins.