05.06.1985
Efri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5940 í B-deild Alþingistíðinda. (5340)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til l. um Þroskaþjálfaskóla Íslands. Í Nd. voru gerðar smávægilegar breytingar á þessu frv. sem varða 5. gr. frv. Þegar málið var til umfjöllunar hér fyrr á þinginu í Ed. voru gerðar breytingar á 5. gr., þ. e. b-lið þeirrar greinar, en þessi grein varðar inntökuskilyrði í Þroskaþjálfaskólann.

Eins og frv. var lagt fram hljóðaði b-liðurinn þannig að inntökuskilyrði í skólann væru stúdentspróf eða hliðstætt nám. Sú breyting var gerð við umfjöllun málsins hér í Ed. að þar var gert ráð fyrir stúdentsprófi eða tveggja ára námi í framhaldsskóla. Þessi breyting var gerð ekki síst með vísan til grg. eða umsagnar um 5. gr. frv., en þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Inntökuskilyrði í skólann skv. reglugerð frá 1977 eru þau að viðkomandi sé orðinn 18 ára og hafi lokið a. m. k. tveggja ára námi í framhaldsskóla í þeim námsgreinum sem skólinn gerir kröfu til eða hliðstæðu námi. Ekki er í reynd lögð til nein efnisbreyting varðandi það sem þegar hefur verið í gildi.“

Ég vek athygli á því að hér er vikið að tveggja ára námi í framhaldsskóla og því aðeins og einmitt þess vegna töldum við eðlilegt að taka það orðfæri beint inn í 5. gr. laganna.

En við umfjöllun málsins í Nd. voru enn gerðar breytingar eins og ég gat um áðan. Gerð var till. um að b-liðurinn orðaðist þannig: „Stúdentspróf eða hliðstætt nám; þó skal annað nám viðurkennt ef skólastjórn metur það gilt.“ Þ. e. inntökuskilyrðin eru ekki eingöngu bundin stúdentsprófi. Það er augljóst að það verður á hverjum tíma, eins og verið hefur, um að ræða mat skólastjórnarinnar hvort einstaklingar verða teknir til náms í Þroskaþjálfaskólanum hafandi annað nám að baki en stúdentspróf.

Í Nd. var jafnframt samþykkt breyting á c-liðnum í frv. Eins og það var lagt fram er eitt af inntökuskilyrðum í skólann að aðill hafi starfað a. m. k. fjóra mánuði á stofnun með föttuðum. Breyting Nd. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„C-liður orðist svo: störf í a. m. k. sex mánuði með fötluðum.“

Efnisbreytingin er raunar tvíþætt. Annars vegar það að mánuðirnir verða sex í stað fjögurra og í hinn stað er numið brott orðið „stofnun“. Það er m. a. gert vegna þess að það er einsýnt að fatlaðir eru víðar en á stofnunum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Þegar þessar brtt. voru til meðferðar á vegum heilbr.- og trn. Nd. voru þær kynntar fyrir a. m. k. sumum hv. nm. í heilbr.- og trn. Ed. Hef ég sem formaður gætt að því að við þessar brtt. er fyrir hendi stuðningur nefndarinnar og fyrir hennar hönd legg ég til að þær verði samþykktar.