06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

78. mál, löggæsla á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 80 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. dómsmrh.:

„Hvað veldur þeirri breytingu á löggæslu á Reyðarfirði sem á er orðin og hver tók ákvörðun um þá breytingu?“

Þetta kallast víst ekki stórmál hér, en skiptir nokkru fyrir heimaaðila. Og ástæða fsp. er alleinkennileg.

Nú í haust flutti lögregluþjónn sá sem á Reyðarfirði var út á Eskifjörð og hefur nú búsetu þar. Tveir áratugir eru síðan sérstakur lögregluþjónn var ráðinn til starfa á Reyðarfirði og að sjálfsögðu hefur hann verið búsettur þar alla tíð. Í dómsmálaráðherratíð Friðjóns Þórðarsonar var uppi hugmynd um breytingu, en rn. hans snérist öndvert við — ég hygg að mestu hafi ráðið afstaða ráðh. sjálfs — enda fá rök fyrir þessari breytingu.

Að þessari skipan er vægast sagt lítið hagræði og enn minni sparnaður. Það skal ekkert úr því dregið að vísu hversu löghlýðnir sveitungar mínir eru, en ýmis verkefni eru þó alltaf í 750 manna þorpi þar sem er t.d. mikill gegnumakstur, tíðar skipakomur, umsvif á síldarvertíð o.s.frv. og hafi þörf verið fyrir lögregluþjón að störfum fyrir 20 árum hlýtur svo að vera enn. Og nágrannar mínir, Eskfirðingar, hafa ekki sótt hér á og ekki veit ég til þess að viðbótarlöggæslu sé þörf á Eskifirði, enda sjálfur sýslumaðurinn búsettur þar og yfirlögregluþjónn embættisins einnig. Vegalengdin er alls ekki löng þarna á milli, 15 kílómetrar. en oft ærið seinfarin á vetrum ef eitthvað gerist. Eftirlit það er lögreglan annast verður ærið kostnaðarsamt, fullyrði ég, ef sí og æ þarf að aka þarna á milli.

Ég spyr einnig að því hver tók ákvörðun um þá breytingu sem á er orðin því að ég hef heyrt að sýslumaður fullyrði að rn. hafi ákvarðað, svo sem er vafalaust eðlilegt, og svo aftur öfugt. Fróðlegt væri því að fá úr því skorið í svari hæstv. ráðh. og einnig um ástæður þessarar skipunar, sem mér þykir alveg ógerlegt að sjá hverjar eru og einnig eru þær óskiljanlegar frá sjónarmiði íbúanna að maður tali nú ekki um hver sparnaður eigi af að verða, nema traust ráðamanna á Reyðfirðingum sé svona ótakmarkað og trú þeirra á að þar gerist yfirleitt ekkert sem lögreglu varðar um. Þá hafa lögregluþjónar undangenginna tveggja ára hins vegar verið heldur þýðingarlitlir og spurning um það vaknar hvort ekki megi fækka um einn lögregluþjón hjá sýslumannsembættinu á Eskifirði.