06.06.1985
Efri deild: 90. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5965 í B-deild Alþingistíðinda. (5374)

527. mál, skráning skipa

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er lagt fram er um breytingu á lögum um skráningu skipa. Á undanförnum árum hefur mjög færst í vöxt að skipastóll íslensku skipafélaganna hafi verið endurnýjaðar með leigu á skipum, svokallaðri þurrleigu og kaupleigu.

Með svokölluðum þurrleigusamningi er átt við leigu á skipi þar sem leigutaki leigir skip til ákveðins tíma, mannar skipið, greiðir síðan allan rekstrarkostnað og ber ábyrgð á skipinu að öðru leyti, bæði hvað snertir tryggingar, viðhald og annan rekstur. Þessi skip hafa verið leigð með kauprétti en fjárhagsleg skuldbinding leigutaka takmarkast við leiguna á leigutímabilinu.

Skv. lögum um skráningu skipa er óheimilt að skrá skip hér á landi nema það sé í eigu innlends aðila þar sem a. m. k. 3/5 hlutafjár eru í eign íslenskra aðila. Skip sem er í eigu erlendra aðila en í leigu hjá íslenskum útgerðarfélögum skv. samningi eru því skráð erlendis.

Við framlagningu þessa frv. er höfð hliðsjón af ákvæðum laga um loftferðir og skráningu loftfara. Skv. þeim lögum er unnt að skrá hér á landi flugvélar. sem ekki eru í eigu íslenskra aðila, með sérstöku leyfi samgrh.

Skiparekstur er á sama hátt og flugrekstur fjármagnsfrekur og nauðsynlegt að skapa skipafélögunum meiri möguleika varðandi fjármögnun og leigu skipa. Því taldi rn. rétt að leggja þetta frv. fram. Í því felst einnig aukinn réttur fyrir íslenska farmenn. Hins vegar legg cg ekkert kapp á það að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi nema hv. þd. vilji það, því það er svo seint fram komið. En þó svo fari að það verði ekki afgreitt þá hefur það verið lagt fram til þess að sýna það hér og jafnframt hvað að baki því liggur að þetta frv. er flutt.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.