06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5971 í B-deild Alþingistíðinda. (5379)

Um þingsköp

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs um þingsköp er að ég hafði leyft mér að fara þess á leit við hæstv. ráðh. menntamála nú í morgun að hér færi fram umræða utan dagskrár um það alvarlega ástand sem skapast hefur í dagvistarmálum. Hæstv. ráðh. sá sér ekki fært að verða við þessari beiðni minni vegna þess m. a. að þessi mál heyrðu undir sveitarstjórnir og bæjarfélög og að ekki mætti taka tíma þingsins undir þetta mál. Það voru rökin.

Ég vil hins vegar upplýsa ráðh. um það mikilsverða atriði að bygging og rekstur dagvistarheimila er alfarið á ábyrgð menntmrn. og þar með menntmrh. Þetta er mjög svo alvarlegt mál á allan hátt þannig að full ástæða er til þess að taka mikinn tíma þingsins undir umræður um það og þó fyrr hefði verið og þá helst að forgöngu valdhafa.

Í frétt NT í dag, sem er í rauninni upphafið að þessari beiðni minni um utandagskrárumræðu, er svohljóðandi yfirskrift:

„Viljum ekki fleiri dagvistarheimili við óbreytt ástand.“ Hverjir skyldu það nú vera sem ekki vilja fleiri dagvistarheimili? Skyldu það vera einhverjir sem vilja reka konur burtu af vinnumarkaðinum og hætta rekstri dagvistarheimila alfarið? Nei, það eru nefnilega samtök foreldra barna sem dvelja á dagvistarheimilunum og fóstrur sem gefa út þessa yfirlýsingu. Og þá er málið orðið töluvert alvarlegt. Þessi niðurstaða er fengin þegar ljóst er að útilokað er að manna þær dagvistarstofnanir sem fyrir hendi eru, hvað þá heldur ef nýjum er bætt við. Hvað veldur? Jú, það er mikill flótti fóstra úr dagvistarkerfinu, svo vitnað sé áfram í NT, með leyfi hæstv. forseta: „vegna lágra launa og gífurlegs vinnuálags.“

Þetta kom fram, að því er í frétt NT segir, á blaðamannafundi sem Fóstrufélag Íslands og Samtök foreldra á dagvistarheimilum héldu í fyrradag. Afleiðing allra þeirra aðstæðna sem raktar eru í fréttinni eru stórfelld hreyfing á starfsfólki dagvistarheimilanna, eða 62.8% á síðasta ári. Frá áramótum hafa 20% forstöðumanna sagt upp störfum og 50 fóstrur vantar nú til starfa hjá Reykjavíkurborg ef einungis er verið að tala um að halda því lágmarki að hafa aðeins eina fóstru á deild. Ef hins vegar ætti að framfylgja þeim lagaákvæðum sem eru í núgildandi lögum um að það séu fóstrumenntaðir starfsmenn almennt á deildum, þá vantar 250 fóstrur til starfa hjá Reykjavíkurborg. (Forseti: Ég vildi nú gjarnan biðja hv. þm., af því að þetta eru umræður um þingsköp, að stytta mál sitt, því þá er ekki um efnislegar umræður að ræða.)

Ég stytti mál mitt mjög mikið, herra forseti. Það sem ég er að gera hér er að ég er að skýra út hvers vegna ég bað um þessa utandagskrárumræðu og verð að fá að skýra þau rök sem liggja þar að baki og því að ég hafði fengið neitun. Það sem er einna alvarlegast í þessu máli er það sem að börnunum snýr. Þetta snýst óneitanlega allt saman fyrst og síðast um þau. Nú er svo komið að á þessu mikilvæga mótunarskeiði sem börnin eru á á þessum aldri, þegar þau eru á dagvistarheimilunum, þurfa þau að gangast undir það að hafa allt að tíu til tólf uppalendur á ári vegna þess að hreyfingin er svo mikil á starfsfólki. Það er auðvitað fáránlegt að nokkrum sé boðið upp á slíkt og allra síst börnum sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þess vegna verðum við að taka það að okkur og vera minnug máltækisins: Lengi býr að fyrstu gerð. En það er eitt atriði sem hæstv. ráðh. ætti alls ekki að vera ókunnugt um og það er það að í fyrsta skipti í sögu hins merka skóla, Fósturskóla Íslands, sem er nú 40 ára, ber nú svo við að það er skortur á umsóknum um skólavist. Venjulega hefur það verið þannig að það hefur þurft að neita fólki um skólavist við þennan skóla. En nú ber svo við að það er skortur á umsækjendum og það segir kannske meira en nokkuð annað.