06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5973 í B-deild Alþingistíðinda. (5382)

Um þingsköp

Forseti (Karvel Pálmason):

Enn vill forseti ítreka þá beiðni til hv. þdm., af því að hér er verið að ræða um þingsköp, að halda ekki uppi efnislegum umræðum um mál. Og það er rétt að geta þess vegna þess sem fram hefur komið að það er rétt að hv. 1. landsk. þm. hafði samband við mig í morgun og óskaði eftir því að umræður yrðu hér utan dagskrár. sú hefð hefur skapast hér í þinginu að ég best veit að slíkar umræður fara ekki fram nema því aðeins að samkomulag sé um málið við viðkomandi ráðh. sem ræða á málið við. Að vísu er ég nýgræðingur í þessu en ég hygg að engin ákvæði séu í þingsköpum þeim sem nú gilda um utandagskrárumræður. Vissulega stendur það til bóta eftir það sem gerst hefur nú en enn ítreka ég bón mína til hv. þdm. að taka tillit til þessa. Ég hefði nú talið að eftir að þessir tveir hv. þm. hefðu lokið máli sínu gæti lokið þessum umræðum um þingsköp. En enn eru þrír hv. þm. á mælendaskrá og ég bið enn um það, vegna þess að næg málefni liggja fyrir á dagskrám þingsins, að hv. þdm. stytti mál sitt og hafi hliðsjón af því að hér er um að ræða umræður um þingsköp.