06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5974 í B-deild Alþingistíðinda. (5386)

Um þingsköp

Forseti (Karvel Pálmason):

Vegna ummæla hæstv. menntmrh. gagnvart forseta vil ég taka fram að ég hygg nú að ekkert fari á milli mála að forseti hefur margítrekað að hér er um að ræða umræður um þingsköp en ekki efnislegar umræður eða utan dagskrár. Og enn er það ítrekað að hér er um að ræða umræður um þingsköp en ekki efnislegar umræður um mál. Og ég ítreka enn þá beiðni að þeir hv. þm. sem enn eru á mælendaskrá, og mér heyrist enn bætast við þann lista, taki tillit til þessara óska og verði stuttorðir og gagnorðir og tali einvörðungu um það sem hér er um að ræða, um þingsköp.