06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5977 í B-deild Alþingistíðinda. (5393)

Um þingsköp

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Mér finnst náttúrlega alveg ljóst núna að það hlýtur að vera hægt að ganga að tilboði hæstv. menntmrh. og hafa hér utandagskrárumræður um þetta mál á morgun, þegar tími hefur gefist til fyrir hæstv. ráðh. að undirbúa sig og afla gagna og upplýsinga í þessu máli. Það þarf ekki að tíunda það meira hér hvers vegna ég taldi fulla þörf á því að hefja hér utandagskrárumræður í dag. Það er allt að komast á heljarþröm hvað þessi mál varðar og það hefur lítið sem ekkert verið aðhafst á vegum rn. til þess að koma í veg fyrir að það neyðarástand sem nú er ríkjandi fari sífellt versnandi. Þess vegna fer ég þess á leit hér úr ræðustól að mér verði svarað um það, þar sem forseti virðist eiga að ráða þessu og hann hefur í höndunum eða réttara sagt hefur væntanlega heyrt það sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að hún þyrfti aðeins að afla gagna og þá væri hún að sjálfsögðu reiðubúin til þess að hefja utandagskrárumræður og svara, þess vegna fer ég þess á leit að ákveðið verði hér og nú að eigi síðar en á morgun verði hafin utandagskrárumræða um þessi mál.