15.10.1984
Efri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

10. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þær undirtektir sem þetta litla frv. hefur fengið.

Ég vil gera að umræðuefni tvö atriði sem fram hafa komið í þessari umræðu.

Það er annars vegar spurningin um það til hverrar nefndar þetta mál á að fara. Ég veit að vinnuhættir Alþingis hafa mótast á löngum tíma. Sá vilji sem fram kemur í ýmsum nefndarstörfum, þ.e. þeirra nefnda sem fjalla um þingsköp eða breytingar á Stjórnarráði og annað slíkt, sýnir að ákveðinn áhugi er þegar á ferðinni og búinn að vera nokkuð lengi til að breyta að einhverju leyti annars vegar starfsháttum Alþingis og hins vegar bæði samskiptum og starfsháttum Stjórnarráðs.

Í stjórnarskránni eru tvær greinar, 40. og 41. gr., þar sem talað er um að engan skatt megi á leggja né breyta nema með lögum og ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða í fjáraukalögum. Minn skilningur á þessum greinum og samhengi þeirra við störf Alþingis felst einfaldlega í því að á Alþingi starfi annars vegar fjvn. og hins vegar fjh.- og viðskn. og þessar n. taki fyrir öll þau mál sem lúta annaðhvort að álögum eða greiðslum á gjöldum. Þess vegna vil ég vísa þessu máli til fjh.- og viðskn.

Hæstv. landbrh. taldi það mundu torvelda og rugla störf Alþingis mjög ef einstaka greinum úr lagabálkum væri vísað þvers og kruss milli n. Nú er það einu sinni svo, þó að einhvern tíma hafi verið sagt að lög skuli ráða en ekki menn, að okkar hlutverk er að móta lögin, en ekki laganna að stjórna því hvernig við vinnum. Þau mál sem heyra til fjármála finnst mér að eigi gagngert og yfirleitt að fara til fjh.- og viðskn. eða fjvn. nema þá að Alþingi samþykki endanlega eitthvað annað og komist að einhverri annarri niðurstöðu um verksvið nefndanna. Ég hef litið þannig á hvað varðar aðrar nefndir en fjh.- og viðskn. og fjvn. að hin upphaflega hugsun um störf þeirra hafi verið sú að þær ættu að fjalla um stefnumótun í viðkomandi málaflokkum en ekki um gjaldtöku eða greiðslu fjármuna úr ríkissjóði. Nú veit ég að téð lög, lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins, hafa inni að halda ýmislegt sem bæði ég og aðrir hv. þm. hafa gagnrýnt á undanförnum árum, bæði um greiðslur og álögur. Ég lagði þetta hér til vegna þess að ég vil láta reyna nokkuð á hvern hug menn bera til þessara mála og held þess vegna fast við minn keip að fara fram á að þessu máli verið vísað til fjh.- og viðskn. Það hefur ekkert með persónur hv. 11. landsk. þm. eða 4. þm. Norðurl. v. að gera. Þetta hefur eingöngu með það, sem á ljótu máli kallast „prinsippafstaða“, að gera.

Hvað máli hæstv. landbrh. viðkemur verð ég að segja að ég áttaði mig ekki alveg á því hvað hann var að fara þegar hann fór að hugleiða hvað væri söluverðmæti. Samkv. mínum skilningi er söluverðmæti það verð sem ég fæ fyrir vöruna þegar ég sel hana, þ.e. það verð sem kaupandinn greiðir. Hins vegar fór hann að tala um að enginn væri neyddur til að flytja út og menn skyldu hugsa sig mjög rækilega um áður en þeir færu að setja einhverjar skorður. Ég viðurkenni að í því lagafrv. sem ég legg hér fram er talað um skorður, þ.e. að ekki skuli heimilt að taka meira en 2% af söluverðmæti útfluttra landbúnaðarafurða í sölulaun. Það hlýtur hverjum og einum að vera það ljóst, sem fjallað hefur um þessi mál, hvað mér gengur hér til. Ég er að hafna þeirri hugsun að sölulaun séu tekin af útflutningsbótum. Að kalla það óeðlilegar skorður er skoðun sem hver og einn getur haft sem vill, en í þessu tilviki tel ég það nauðsynlegar skorður til þess að menn geri ekki út á tekjumöguleika sem svona skorðuleysi getur verið.