06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

78. mál, löggæsla á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsrh. svör hans og alveg sér í lagi það að allt er þetta frá hans ágæta rn. komið. Í því undarlega nál. sem hann las upp hér áðan kom m.a. fram að ein ástæðan fyrir þessu væri sú að það væri komin góð fangageymsla á Eskifirði og þar af leiðandi væri sjálfsagt að flytja lögregluþjóninn út á Eskifjörð eða þannig gat maður skilið það á þessu téða nál.

Ég hef ekkert á móti því að það sé það hagræði viðhaft í þessum efnum að þetta svæði sé sameinað. Það kann vel að vera skynsamlegt og ágætt. Búsetan er vitanlega alls óskyld þessu. En ég veit mætavel, þó að ég viti ekki hvort hæstv. dómsmrh. er kunnugt um það, að það hefur verið kappsmál embættisins á Eskifirði að lögregluþjónn yrði þarna búsettur og væri þess vegna betur, eins og hann kallar það, til taks. Engu að síður ætla þeir sérstaklega að gæta þess að það sé fullnægjandi vakt á Reyðarfirði yfir vetrarmánuðina. Þá sjá menn hagræðið af þeim akstri sem þar fylgir á milli stöðugt því að þessi skýrslugerð, sem oft hefur verið rætt um í sambandi við lögregluþjón á Reyðarfirði, skýrslugerð hans út á Eskifjörð, er að mínu viti alveg óskiljanleg nema í undantekningartilfellum vegna þess að það er til sími þarna eystra alveg eins og annars staðar á landinu. Það hlýtur að vera hægt fyrir viðkomandi lögregluþjón að gefa embættinu skýrslu í síma um það sem minna máli skiptir. Þá þarf ekki nema einhverja stóratburði til þess að hann þurfi að gegna skyldum sínum á Eskifirði vegna skýrslugerðar og mundi nægja einu sinni í viku, giska ég á í því efni, með hin meiri mál.

Ég minni á að nýlega hefur hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps mótmælt þessu harðlega, enda ómögulegt að sjá hvað veldur því að þessi tveggja áratuga hefð er nú rofin varðandi búsetu þessa lögregluþjóns.

Ég minni sér í lagi á það öryggi, ef öryggi skyldi kalla, sem óumdeilanlega verður minna. Það fer auðvitað eftir því hvort á að taka orð þess ágæta manns, látna manns Bjarna Þórðarsonar, bókstaflega að löggæslu sé yfir höfuð ekki þörf á Austfjörðum og sér í lagi ekki í Neskaupstað. Það er rétt og á það má benda að við erum orðnir það nægilega rauðir á Reyðarfirði að vel kann að vera að dómsmrn. þyki að löggæslu sé ekki mjög mikillar þörf þar.

En síðast en ekki síst er ég sannfærður um að það verður augljós kostnaðarauki ef sinna á starfinu á annað borð og lögregluþjónn að gegna svipuðum störfum og hann hefur gegnt á Reyðarfirði. Það er það sem skiptir auðvitað öllu máli í þessu, en ekki spurning um búsetuna til eða frá eða hvar maðurinn situr.

Ég hygg að það verði mín niðurstaða af þessum svörum og nál. sem dómsmrn. hefur tekið gott og gilt að óhætt sé að flytja við fjárlögin breytingu um lækkun á liðnum löggæsla á Reyðarfirði og Eskifirði — það er sér liður enn þá fyrir Reyðarfjörð — eða fella hann niður með öllu og fella þá um leið niður starf eins starfsmanns.