06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5981 í B-deild Alþingistíðinda. (5403)

499. mál, ríkisbókhald

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Ég harma það að frv. það sem ég hef kynnt hér um ríkisfjármál o. fl. skuli ekki hafa verið lagt fram í þingflokki Framsfl. Þetta er stjfrv. og að loknum undirbúningi í rn. var það lagt fram í ríkisstj. eins og öll önnur stjfrv. og síðan ganga þau venjulega til þingflokkanna eins og í þessu tilfelli gerðist í Sjálfstfl., öðrum stjórnarflokknum. Mér er ómögulegt að skilja hvernig á því stendur að sambandið á milli — ja, má segja framsóknarmanna í ríkisstj. og framsóknarmanna í þingflokknum hafi rofnað eða einhver misskilningur hafi orðið þarna á ferðinni. En frv. er lagt fram af fjmrh. á hefðbundinn hátt eftir undirbúning í fjmrn. fyrir ríkisstj. og gekk síðan — eða átti að ganga þaðan til þingflokkanna. Það gerði það, gekk inn í Sjálfstfl. og fékk þar blessun flokksins og þar af leiðandi var það lagt fram sem þskj. og liggur nú hér frammi til afgreiðslu. Ég vona að þrátt fyrir þau mistök sem kunna að hafa orðið á í meðferð á milli ríkisstj. og þingflokks Framsfl. þurfi það ekki að tefja afgreiðslu málsins í hv. fjh.- og viðskn.