06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5986 í B-deild Alþingistíðinda. (5408)

429. mál, verslun ríkisins með áfengi

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það má segja að þetta mál sé tvíþætt. Annars vegar er hér verið að gera tillögur um breytingu á sölu á tóbaki þannig að í stað þess að einn aðili annist innflutning og dreifingu til smásölu sjái umboðsmenn tóbaksframleiðenda sjálfir um dreifingu innan ramma þeirra laga og reglna sem í gildi eru á hverjum tíma. Hins vegar hefur komið í ljós að fyrirætlun fjmrn. er að tekjur lækki ekki frá því sem er, heldur aukist jafnvel. Ég hygg að þeir sem fari einna lakast út úr þessari breytingu séu umboðsmenn tóbaksframleiðenda sem fram að þessu hafa fengið sín umboðslaun send án mikillar fyrirhafnar. Í stað þess verða þeir nú að sjá sjálfir um fjármögnun á dreifingunni þó að ég efist ekkert um að þeir koma ekki til með að sitja uppi með það að síðustu, heldur lendir það fyrst og fremst á þeim sem eru það ógæfusamir að neyta þessarar vöru.

Ég vil taka það fram að tóbak er nú og hefur verið selt í ríkum mæli og fjölmargar tegundir þannig að engum er meinaður aðgangur að því að kaupa tóbak. Á því verður engin breyting við þessa tilfærslu. En það sem ég hafði á móti þessari breytingu var að hún gekk á svig við þá löggjöf sem Alþingi var það myndarlegt að setja á s. l. ári um tóbaksvarnir og hefur vakið mikla athygli víða um heim. M. a. s. hefur maður fengið úrklippu úr blöðum bæði frá Japan og Kína og fleiri fjarlægum stöðum þar sem lokið er miklu lofsorði á þær breytingar sem hér hafa verið gerðar.

Það voru líka töluverð átök um þær merkingar sem koma eiga á tóbaksvörur. Umboðsmenn fjölmargra tóbaksframleiðenda reyndu að hafa áhrif á okkur. Í fyrsta lagi um það að hafa ekki myndir með á þessum merkingum. Í öðru lagi um að hafa þær ekki á eins áberandi stað og við höfum ákveðið. Við höfum ekki látið okkur í þeim efnum á nokkurn hátt. Ég lagði því ríka áherslu á að við þessa breytingu, ef hún yrði að lögum, mundi ekki verða dregið úr árlegum tekjum til tóbaksvarnastarfs skv. lögum um tóbaksvarnir. Því var sú breyting gerð að árlega á að verja 0.5% af tekjum ríkissjóðs af tóbaksgjaldi til tóbaksvarnastarfs. Tóbaksvarnanefnd á svo að gera eins og áður tillögur til ráðh. um ráðstöfun fjárins.

Í Ed. var gerð sú breyting á frv. um tóbaksvarnir að heilbrrh. setur með reglugerð ákvæði um innflutning tóbaks með hliðsjón af skaðsemi þess. Þetta tel ég mjög mikilvæga breytingu sem gerði mig ásáttan með að þessi breyting næði fram að ganga þar sem hvergi er gengið á svig við þá ákvörðun sem Alþingi tók í sambandi við setningu laganna um tóbaksvarnir. Því er það mikill misskilningur, sem fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að fjöldi þeirra sem mótmæltu breytingunni væri fyrst og fremst að mótmæla því að þessi breyting gengi á svig við lögin um tóbaksvarnir. Ég tel að núna sé búið að ná viðunandi samkomulagi og þó sérstaklega með síðustu brtt. sem samþykkt var í Ed. í gær ef ég man rétt og er nú komin inn í frv. Að þessu fengnu get ég staðið að samþykkt þessarar breytingar, en hefði ekki gert það ef dregið hefði verið úr áhrifum tóbaksvarnalaga. Ég er alveg staðráðinn í því að meðan ég skipa þetta embætti verður sett reglugerð um ákvæði um innflutning tóbaks með hliðsjón af skaðsemi þess. Ég hefði talið æskilegast að það hefði verið hægt að draga úr tóbaksnotkun, en með aukinni fræðslu og með samræmdu starfi tóbaksvarnanefndar í anda laga um tóbaksvarnir vonast ég til að hagnaður ríkis og annarra af tóbakssölu verði minni hér eftir en hingað til.