06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5987 í B-deild Alþingistíðinda. (5412)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um sérstaka fjáröflun vegna húsnæðismála á árunum 1985 og 1986. Flm. mynda meiri hl. í fjh.- og viðskn. Nd. og eru auk mín Friðrik Sophusson, Halldór Blöndal og Þorsteinn Pálsson. Frv. hljóðar þannig:

„1. gr. Á tímabilinu 1. júlí 1985 til 31. des. 1986 skal leggja 1% húsnæðisgjald á söluskattsstofn allra þeirra aðila sem lög nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum, taka til. Gilda ákvæði þeirra laga og reglugerða settra skv. þeim að fullu um álagningu og innheimtu þessa gjalds, svo og um aðra framkvæmd. Gjaldið rennur óskipt til ríkissjóðs og skal því ráðstafað til útlána á vegum Byggingarsjóðs ríkisins.“

2. gr. fjallar um það að eignarskattsauki skuli verða lagður á eignarskattsstofn, sbr. lög nr. 75 frá 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, gjaldárin 1985 og 1986 og skal hann vera þannig:

a. 0.25% á eignarskattsstofn manna, sbr. 80.–82. gr. laga nr. 75 frá 1981, umfram 1600 þús. kr. gjaldárið 1985. Gjaldárið 1986 skal skattskylt mark til eignarskattsauka breytast með skattvísitölu, sbr. 121. gr. framangreindra laga. Þó skal ekki leggja eignarskattsauka á eignir manna sem eru 67 ára eða eldri.

b. 0.25% skal leggja á eignarskattsstofn lögaðila, sbr.

2. gr. laga nr. 75 frá 1981, og þeirra aðila sem takmarkaða skattskyldu bera, sbr. 3. gr. sömu laga.

Eignarskattsauki hefur engin áhrif á eignarskattsútreikning skv. 83. og 84. gr. laga nr. 75 frá 1981. Eignarskattsaukinn rennur í ríkissjóð. Skal honum ráðstafað til húsnæðismála.

3. gr. hljóðar þannig að af tekjuafgangi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skulu 30 millj. kr. renna til húsnæðismála árið 1985 og 60 millj. kr. árið 1986.

Síðan er gildistökuákvæði.

Ríkisstj. hefur sem kunnugt er varið miklum fjármunum til að efla húsnæðislánakerfið. Ráðstafanir þessar verða ekki raktar hér í smáatriðum. Ég leyfi mér að benda á fskj. I.–III. með þessu frv. sem sýna útlán byggingarsjóðanna og framlag ríkissjóðs til þeirra. Þar kemur m. a. fram að útlán byggingarsjóðanna í hlutfalli við þjóðarframleiðslu hafa aukist stórlega að undanförnu. Á árunum 1980–1982 var þetta hlutfall á bilinu 1.7 til 2%, en 1984 hafði það hækkað í 2.9%. Í ár er áætlað að þetta hlutfall verði 3.6% þannig að útlán opinberu íbúðalánasjóðanna hafa hartnær tvöfaldast í tíð núverandi ríkisstj. Enn fremur hafa margvíslegar ráðstafanir verið gerðar varðandi útlánareglur o. fl. til þess að nýta betur fjármuni sem ráðstafað er til þessa málaflokks.

Þó að stjórnarflokkarnir hafi þannig beitt sér fyrir ýmsum ráðstöfunum í þágu húsbyggjenda og húskaupenda eru mörg viðfangsefni óleyst í húsnæðismálum, ekki síst vegna þess vanda sem skapast hefur vegna misgengis milli launa og lánskjara. Það er hins vegar ógjörningur að auka fjárframlög hins opinbera til þessa málaflokks nema sérstök fjáröflun komi til, bæði vegna halla á ríkissjóði og eins vegna þess að aukinni lántöku erlendis hefur verið hafnað. Til þess að unnt sé að taka á brýnasta vanda húsbyggjenda og húskaupenda er með þessu lagafrv. gerð tillaga um sérstaka fjáröflun til þeirra viðbótarráðstafana sem stjórnarflokkarnir hafa gert og munu beita sér fyrir á þessu ári. Í því efni er einkum um þrennt að ræða:

1. Ráðgjafarþjónustu hjá Húsnæðisstofnun ríkisins sem hefur það hlutverk að leiðbeina og aðstoða og lána þeim sem komnir eru í greiðsluerfiðleika. Útlán í tengslum við ráðgjafarþjónustuna eru áætluð um 200 millj.

2. Greiðslujöfnun vegna fasteignaveðlána einstaklinga sem talin eru fela í sér um 100 millj. kr. minni endurgreiðslur lána til byggingarsjóða ríkisins í ár.

3. Aukin áhersla á lán þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn. Tekin hefur verið ákvörðun um að hækka hámark svonefndra G-lána þannig að það verði komið í 50% af nýbyggingarláni (F-láni) á 1. ársfjórðungi 1986. Í þessu skyni er gert ráð fyrir 70 millj. kr.

Þessi þrjú atriði hafa í för með sér 370 millj. kr. fjárvöntun og til þess að mæta þessari fjárvöntun er lagt til að tekna verði aflað með svofelldum hætti:

Húsnæðisgjaldi sem gefur 250 millj., eignarskattsauka á einstaklinga sem gæfi 20 millj., eignarskattsauka á félög sem gæfi 70 millj. og sérstakri hækkun á áfengis- og tóbaksverði 30 millj. Samtals gerir þetta 370 millj.

Ég vil leggja áherslu á að með þessari auknu fjáröflun verði í ár fyrst og fremst sinnt fjárþörf þeirra sem byggja sína fyrstu íbúð eða gera fokhelt fyrir 1. október. Jafnframt verði flýtt afgreiðslu lána til þeirra sem keyptu sína fyrstu íbúð á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

Í sambandi við þessa tekjuáætlun er minnt á að ávallt er erfitt að gera slíkar áætlanir af nákvæmni. Ef eitthvað kann á að skorta að tekjurnar nægi í ár verður sá greiðsluvandi sem af því hlýst leystur með tilfærslu á milli ára.

Í frv. er gert ráð fyrir að þessi gjaldtaka eigi sér einnig stað á næsta ári, enda mörg verkefni fram undan í húsnæðismálum. Áætlaðar tekjur af gjaldtökunni á næsta ári eru 600–700 millj. kr. á verðlagi ársins 1985. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um ráðstöfun fjárins á því ári. Það verður ekki gert fyrr en að höfðu samráði við þá milliþinganefnd í húsnæðismálum sem stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að koma á fót eftir viðræður við stjórnarandstöðuflokkana.

Ég vil minna á að þessu frv. fylgja ítarleg fskj. Í fyrsta lagi um útlán byggingarsjóða ríkisins 1980–1985. Greiðsluyfirlit Byggingarsjóðs ríkisins er á fskj. II frá 1980–1985. Og í þriðja lagi er áætluð staða verðtryggðra lána fasteignakaupenda í lok hvers árs. Í fjórða lagi fylgir þessu verkefnaskrá ríkisstj. í húsnæðismálum.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er þetta frv. flutt af meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. Það er samkomulag um það í fjh.- og viðskn., þar sem málið hefur verið ítarlega til umr., að málið þurfi ekki að ganga til nefndarinnar og því geri ég ekki tillögu um að því verði vísað þangað, heldur að 2. umr. geti farið fram þegar að lokinni þessari.