06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5989 í B-deild Alþingistíðinda. (5413)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hv. 2. þm. Norðurl. v. mælti fyrir á sér nokkuð sérkennilegan aðdraganda eins og kunnugt er. Hér er flutt tillaga um skattlagningu til húsnæðismála, tillaga sem hæstv. fjmrh. neitaði að flytja. Niðurstaðan varð því sú að fulltrúar stjórnarflokkanna í fjh.- og viðskn. hv. Nd. tóku að sér að flytja frv.

Skv. þeim upplýsingum sem liggja fyrir mun hæstv. fjmrh. beita sér gegn veigamiklu ákvæði í þessu frv. Hann ætlar hins vegar samt sem áður, að sögn, að sitja áfram sem fjmrh. þó að það virðist vera ætlun þingsins, ef marka má þær upplýsingar sem fyrir liggja, að taka fram fyrir hendurnar á honum með þessum hætti og knýja hann til þess að innheimta þá skatta sem hér er gert ráð fyrir.

Það er einnig athyglisvert, herra forseti, varðandi aðdraganda þessa máls að fyrir nokkrum mánuðum tók ríkisstj. ákvörðun um að efna til svokallaðrar ráðgjafarþjónustu fyrir húsbyggjendur og nokkrum mánuðum síðar varð það niðurstaðan eftir viðræður verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. að lagt yrði fram á Alþingi stjfrv. um greiðslujöfnun. Þegar það frv. lá fyrir kom það fram að ríkisstj. hafði ekki gert ráð fyrir neinum peningum til að kosta þau útgjöld sem þetta tvennt hafði í för með sér. Þess vegna var rætt um það á vettvangi stjórnarflokkanna að ef það ætti að standa við þessi fyrirheit yrði að taka til þeirra erlend lán auk þess sem það lá fyrir skv. upplýsingum í fjh.- og viðskn. Nd. frá húsnæðismálastjórn að það vantaði 700–800 millj. kr. í húsnæðislánakerfið.

Það lá einnig fyrir skv. upplýsingum talsmanna svokallaðrar húsnæðishreyfingar, sem héldu blaðamannafund núna fyrir nokkrum vikum, að ríkisstj. taldi sig vera komna á leiðarenda í húsnæðismálum, hún ætlaði ekkert að aðhafast í þeim frekar á yfirstandandi þingi. Í ljósi þeirra yfirlýsinga ákváðu stjórnarandstöðuflokkarnir að snúa sér til stjórnarflokkanna, til ríkisstj. með ósk um viðræður um vanda húsbyggjenda þannig að á þeim málum yrði tekið á þessu vori skarpar, eins og það var orðað af okkur í þessum ræðustól, en ríkisstj. hafði áformað.

Þannig hefur það gerst að allir þingflokkar hér á hv. Alþingi hafa sameinast um að taka á þessum málum án þess að sérstakar viðræður hafi átt sér stað við félmrh. sem fer með húsnæðismálin eða fjmrh. sem fer með skattheimtumálin. Þetta frv. er því eitt það sérkennilegasta að mörgu leyti sem sést hefur hér í þinginu og það er athyglisvert að þegar upplýsingar um samkomulag flokka í húsnæðismálum, þó takmarkað væri, lágu fyrir lýsti aðalmálgagn ríkisstj. því yfir að helsti vandi þingsins í ár væri skortur á ósamkomulagi í veigamiklum málum. Morgunblaðið kvartaði sérstaklega yfir skorti á ósamkomulagi í húsnæðismálum og utanríkismálum. Það væri sérkennilegt hvernig ríkisstj. mistækist að halda utan um mál, en í staðinn virtust hinir almennu þm. hafa tekið að sér að sjá ýmsum málum farborða.

Ég ætla hér, herra forseti, ekki að fara að halda langa ræðu um þetta frv. Ég vildi nokkuð ítreka þennan aðdraganda og ég vildi einnig gera grein fyrir þeim viðræðum sem hafa átt sér stað milli stjórnar og stjórnarandstöðu eins og við lítum á það í stjórnarandstöðuflokkunum.

Það var 19. maí s. l. að stjórnarandstöðuflokkarnir lögðu fyrir Steingrím Hermannsson forsrh. og Þorstein Pálsson formann Sjálfstfl. umræðugrundvöll fyrir lausn á ríkjandi neyðarástandi í húsnæðismálum. Í þessum umræðugrundvelli stjórnarandstöðunnar segir svo, með leyfi forseta:

„Þingflokkar í stjórnarandstöðu á Alþingi vilja hér með vara hæstv. ríkisstj. og þingmeirihluta við því að slíta þingi án þess að leysa ríkjandi neyðarástand í húsnæðismálum.

Við viljum minna formenn stjórnarflokkanna á að orsakir þessa neyðarástands eru m. a.: skert greiðslugeta lántakenda vegna afnáms vísitölubindingar launa en ekki lána sem forsætisráðherra hefur kallað mistök, hækkun raunvaxta í kjölfar „vaxtafrelsins“ sem formaður Sjálfstfl. kallaði „tímamótaákvörðun.“

Við teljum að forustumönnum stjórnarflokkanna beri skylda til að beita sér fyrir því að fyrir þessi mistök verði bætt án frekari tafar. Afkoma þeirra fjölmörgu fjölskyldna, sem nú eiga eignir sínar undir uppboðshamrinum, er í húfi.

Þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafa náð samkomulagi um brtt. við frv. ríkisstj. um greiðslujöfnun húsnæðislána. Aðalatriði þeirra tillagna er að stjórnvöld viðurkenni undanbragðalaust þann umframreikning sem lántakendum hefur verið gert að greiða vegna misgengis launa og lánskjara og hækkunar raunvaxta umfram verðbólgu.

Í brtt. stjórnarandstöðunnar felst m. a. að auk byggingarsjóða ríkisins nái greiðslujöfnunin einnig til banka og lífeyrissjóða, að réttur lántakenda verði skilgreindur og viðurkenndur án tillits til vanskila eða mats embættismanna, að útreikningur „greiðslumarks“ miðist við kauptaxta vísitölu, að vextir verði lækkaðir, að veittur verði sérstakur skattafsláttur skv. nánari reglum (réttur til skattaafsláttar takmarkist við tiltekna skuldlausa eign lántakenda).

Þessar tillögur stjórnarandstöðunnar um lausn á ríkjandi neyðarástandi eru lagðar fram í von um að samkomulag geti tekist á Alþingi um þessar eða aðrar sambærilegar aðgerðir fyrir þinglausnir.

Um fjáröflun í þessu skyni vill stjórnarandstaðan taka það fram að hún er ekki til viðtals um nýjar erlendar lántökur. Þess í stað vísa stjórnarandstöðuflokkarnir til áður fram lagðra fjáröflunartillagna við afgreiðslu fjárlaga og með sérstökum frumvarpa- og tillöguflutningi á Alþingi. Auk þess lýsa stjórnarandstöðuflokkarnir sig reiðubúna til að leita samkomulags við stjórnarflokkana um aðrar innlendar fjáröflunarleiðir, hvort heldur er með skattlagningu og/eða tilfærslum innan ramma fjárlaga. Aðalatriðið að okkar mati er að Alþingi verði ekki slitið fyrr en lántakendur hafi fyrir því fullnægjandi tryggingu að lausn sé fundin á ríkjandi neyðarástandi.“

Undir þetta rita Svavar Gestsson f. h. Alþb., Jón Baldvin Hannibalsson f. h. Alþfl., Guðmundur Einarsson fyrir hönd BJ og Guðrún Agnarsdóttir f. h. SK.

Þær viðræður sem hófust með þessari kröfugerð stjórnarandstöðunnar stóðu í liðlega eina viku og stjórnarandstöðuflokkarnir gerðu grein fyrir niðurstöðum sínum á þriðjudaginn var með greinargerð sem lögð var fyrir formenn stjórnarflokkanna og fjölmiðla þann hinn sama dag. Í þeirri greinargerð segir:

„Stjórnarflokkarnir höfðu fyrir nokkrum vikum lýst því yfir að ekkert yrði frekar aðhafst í húsnæðismálum umfram það sem fram kemur í lánsfjáráætlun. Þó lá fyrir að þúsundir fjölskyldna voru að missa eignir sínar vegna okurlánskjara og kauplækkunar, að mörg hundruð millj. kr. vantaði til óbreyttrar starfsemi húsnæðislánakerfisins, að ekki hafði verið gert ráð fyrir neinum fjármunum til ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar né heldur til þess að standa undir kostnaði við greiðslujöfnun húsnæðislána skv. fyrirliggjandi stjfrv. Eina úrræði stjórnarflokkanna virtist vera að taka erlend lán og að auka þannig vanda húsnæðislánakerfisins til frambúðar.

Í ljósi þess ákvað stjórnarandstaðan að krefjast viðræðna við ríkisstj. og talsmenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi lýstu yfir því að þeir væru ekki reiðubúnir til neinna samninga um þinghaldið nema tekið yrði sérstaklega á vanda húsbyggjenda. Enn fremur lá fyrir að verkalýðshreyfingin og hópur áhugamanna um úrbætur í húsnæðismálum gerðu kröfur um að tekið yrði á þessum málum áður en þing færi í sumarleyfi, auk þess sem verkalýðshreyfingin lagði áherslu á að húsnæðismálunum yrði ekki blandað í gerð kjarasamninga þeirra sem nú standa yfir.

Í upphafi þeirra viðræðna stjórnar og stjórnarandstöðu sem nú hafa staðið yfir í tíu daga lagði stjórnarandstaða áherslu á að vandi almennings stafaði einkum af því að kaupgjaldsvísitalan hefur verið tekin úr sambandi á sama tíma og lánskjaravísitalan hefur hækkað hrikalega; þetta jafngildir stórfelldri eignaupptöku hjá þeim sem hafa verið að byggja íbúðir eða kaupa á liðnum árum, að vextir hafa hækkað verulega, einkum eftir að ríkisstj. hleypti vöxtum lausum á s. l. ári, og eru raunvextir nú hærri hér á landi en nokkru sinni fyrr.

Í ljósi þessa lagði stjórnarandstaðan fram tillögur um stórfellda fjáröflun til húsnæðismála og um breytta útlánastefnu. Tillögur stjórnarandstöðunnar um fjáröflun voru þessar:

1. Eignarskattsviðauki á fyrirtæki og stóreignir.

2. Hagnaður Seðlabankans verði gerður upptækur í byggingarsjóðina.

3. Húsnæðisgjald verði lagt á veltu fyrirtækja í verslun og þjónustu.

4. Áfengi og tóbak verði hækkað sérstaklega vegna húsnæðislánakerfisins.

5. Stofnun sérstakra skattfrjálsra sparnaðarreikninga.

Þá gerðu stjórnarandstöðuflokkarnir eftirfarandi tillögur um breytta útlánastefnu og aðgerðir í húsnæðismálum:

1. Vextir verði lækkaðir og verði aldrei hærri en 3% af húsnæðislánum.

2. Greiðslujöfnun nái ekki aðeins til Húsnæðisstofnunar, heldur og til lífeyrissjóða og banka.

3. Greiðslumark húsnæðislána verði miðað við kaupgjaldsvísitölu, en ekki vísitölu atvinnutekna og kaupgjaldsvísitölu að jöfnu eins og frv. ríkisstj. byggist á.

4. Misgengi vísitalna frá undanförnum árum verði endurgreitt í formi skattaafsláttar sem komi til framkvæmda þegar á þessu ári.

5. Lánshlutfall til þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn verði hækkað. Hækkun lána vegna eldra húsnæðis verði bundin skilyrði um útborgunarhlutfall.

6. Skammtímalán vegna húsnæðiskaupa verði lengd í tíu ára lán. Seðlabankinn endurkaupi lánalenginguna af viðskiptabönkunum.

7. Lög um húsnæðissamvinnufélög verði afgreidd á þessu þingi.

8. Skipuð verði milliþinganefnd allra þingflokka sem hafi það hlutverk að endurskoða allt húsnæðislánakerfið, þ. e. lánakerfi opinberra aðila, banka og lífeyrissjóða. Nefndin geri tillögur um nýja húsnæðisstefnu og um húsnæðisáætlun til aldamóta. Áætlunin byggist á þeirri meginforsendu að húsnæði er mannréttindakrafa, en á ekki að vera efni pólitískra átaka á fárra ára fresti.

Tillögur stjórnarandstöðuflokkanna um tekjuöflun náðu til ársins 1985 og út árið 1986. Þeir gerðu ráð fyrir um 1.7 milljörðum kr. til húsnæðislánakerfisins og stjórnarandstaðan byggði á því að hér væri um að ræða viðbótarfjármagn í húsnæðislánakerfið. Gerði stjórnarandstaðan tillögu um að þeim fjármunum yrði varið sem hér segir:

1. 840 millj. kr. til að létta greiðslubyrði húsbyggjenda og íbúðarkaupenda, þar af 440 millj. kr. til greiðslujöfnunar hjá bönkum, Húsnæðisstofnun og lífeyrissjóðum og 400 millj. kr. til skattalækkunar sem kæmi til framkvæmda þegar á þessu ári.

2. 550 millj. kr. yrði varið til þess að hækka lánshlutfall þeirra sem byggja og kaupa í fyrsta sinn.

3. 350 millj. kr. yrði varið til félagslegra íbúðabygginga, þ. e. 250 millj. kr. til verkamannabústaða og 100 millj. kr. til húsnæðissamvinnufélaga.

Nú liggur fyrir afstaða ríkisstj. og er niðurstaða þessi:

1. Ríkisstj. fellur frá þeim hugmyndum að taka aukin erlend lán til húsnæðislánakerfisins.

2. Ríkisstj. fellst á tillögur um eignarskattsviðauka, en hafnar hugmyndum um frekari skattlagningu á eignir og fyrirtæki.

3. Ríkisstj. fellst á að skipa milliþinganefnd.

4. Ríkisstj. gefur fyrirheit um sérstakan skattafslátt til húsbyggjenda og íbúðarkaupenda á næsta ári.

5. Ríkisstj. lýsir því yfir að tekjuöflunin til húsnæðiskerfisins 1985 og 1986 komi til viðbótar þeirri fjáröflun sem þegar er um að ræða til húsnæðislánakerfisins.

6. Þá liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir munu taka upp greiðslujöfnun til samræmis við húsnæðislánin.

Milli stjórnar og stjórnarandstöðu tókst hins vegar ekki heildarsamkomulag í húsnæðismálum. Ástæðurnar eru þessar:

1. Stjórnarflokkarnir kusu að gera söluskattshækkun að meginuppistöðu í tekjuöflun til húsnæðismála. Stjórnarandstöðuflokkarnir eru því andvígir og munu greiða atkv. gegn söluskattshækkuninni.

2. Stjórnarflokkarnir höfnuðu tillögum um vaxtalækkun og að greiðslumark húsnæðislána tæki einungis mið af kaupgjaldsvísitölu.

3. Stjórnarflokkarnir voru ekki tilbúnir til þess að tryggja framgang frv. um húsnæðissamvinnufélög, en þar virtist stranda á ágreiningi milli stjórnarflokkanna. Munu stjórnarandstöðuflokkarnir því leggja frv. fram á Alþingi næstu daga.

4. Stjórnarflokkarnir voru ekki tilbúnir til að tryggja endurgreiðslu vegna misgengis vísitalna í formi skattaafsláttar þegar á þessu ári.

5. Stjórnarflokkarnir höfnuðu því að taka hagnað Seðlabankans í byggingarsjóðina. Með þessari afstöðu komu stjórnarflokkarnir í veg fyrir að heildarsamkomulag tækist í húsnæðismálum. Stjórnarandstöðuflokkarnir munu áfram beita sér fyrir þeim breytingum sem áður voru skýrðar í þessari grg. Varðandi afstöðu til einstakra mála á næstu dögum vilja stjórnarandstöðuflokkarnir að lokum árétta:

1. Þeir munu greiða atkv. á Alþingi gegn hækkun söluskatts.

2. Þeir munu styðja eignarskattsviðaukann og sérstaka hækkun á áfengi og tóbaki.

3. Þeir leggja áherslu á þátttöku í störfum milliþinganefndarinnar.

Stjórnarandstöðuflokkarnir telja að miðað við aðgerðarleysi ríkisstj. í þessum málum og áform hennar um erlendar lántökur hafi nokkur árangur náðst. Það má reyndar teljast verulegur ávinningur að tekist hefur að knýja fram 1 milljarð kr. til húsnæðismála umfram það sem áður var gert ráð fyrir. Þeim megintekjuöflunarleiðum, sem stjórnarandstöðuflokkarnir lögðu til, var þó hafnað, en þess í stað valin tekjuöflunarleið sem stjórnarandstaðan getur ekki sætt sig við. Þrátt fyrir talsverðan árangur er niðurstaðan því engu að síður ófullnægjandi. Er það ekki síst vegna þess að ríkisstj. ætlar í litlu að bæta það fjárhagstjón sem húsnæðiskaupendur hafa beðið vegna misgengis vísitalna og enn fremur að ekki er komið til móts við þarfir húsnæðissamvinnufélaga. Þetta eru veigamiklir þættir þess vanda sem við blasir og verður að leysa. Til þess eru stjórnarandstöðuflokkarnir reiðubúnir.“

Þetta var greinargerð stjórnarandstöðuflokkanna eftir viðræður stjórnar og stjórnarandstöðu um húsnæðismál.

Ég vík þessu næst, herra forseti, fáeinum orðum að þskj. 1108, sem er það frv. sem hér er á dagskrá. Eins og ég tók fram er afstaða stjórnarandstöðuflokkanna til 1. gr. frv. ljós. Ég vil hins vegar vekja athygli, herra forseti, á lokaorðum 1. gr. og beina varðandi hana spurningum til hæstv. félmrh. Í síðasta málslið segir:

„Gjaldið rennur óskipt í ríkissjóð og skal því ráðstafað til útlána á vegum Byggingarsjóðs ríkisins.“

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því: Lítur hann svo á að með þessari ákvörðun verði ekki hægt að verja þeim tekjum, sem 1. gr. gefur af sér, til Byggingarsjóðs verkamanna eða til verkefna á vegum Byggingarsjóðs verkamanna?

Ég fagna því að það skuli hins vegar vera tekið alveg af skarið um að þessi skattheimta eigi öll að renna til húsnæðismála með ótvíræðum hætti, eins og þetta er sett upp hér, og ég minni á að þó að söluskattshækkun sé ógeðfelld hefur söluskattur að mörgu leyti breytt um eðli frá því sem áður var vegna þess að 1% hækkun á söluskatti þýðir 0.4% hækkun á framfærsluvísitölu eftir að matvaran var tekin út úr söluskattinum.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan um 2. og 3. gr. frv. Stjórnarandstöðuflokkarnir munu styðja þær greinar.

Í grg. frv. og í verkefnaáætlun ríkisstj. í húsnæðismálum koma fram ýmis atriði sem ég hlýt að spyrja stjórnarflokkana og hæstv. félmrh. um þegar við þessa umr.:

Í grg. segir svo á bls. 2, með leyfi forseta:

„Þó að stjórnarflokkarnir hafi þannig beitt sér fyrir ýmsum ráðstöfunum í þágu húsbyggjenda og húskaupenda eru mörg viðfangsefni óleyst í húsnæðismálum, ekki síst vegna þess vanda sem skapast hefur vegna misgengis milli launa og lánskjara.“

Ég tel að með þessari setningu í grg.ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþingi og í fjh.- og viðskn. Nd. að viðurkenna að þarna er um að ræða stóran vanda sem taka verður á sérstaklega.

Í verkefnaskrá ríkisstj. í húsnæðismálum, sem birt er sem fskj. IV með frv. þessu, segir að stjórnarflokkarnir telji þrjú verkefni brýnust í húsnæðismálum. Þau eru talin upp. Fyrsta verkefnið sem hér er nefnt er þetta:

Að enn frekar verði komið til móts við þá húsbyggjendur og íbúðakaupendur sem hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna efnahagsáfalla síðustu ára.

Ég tel að í þessari áhersluröð, sem hér birtist í verkefnaskránni, sé enn frekar viðurkenndur sá gífurlegi vandi sem fólk á við að etja vegna misgengis launa og lána á síðustu misserum.

Þá vek ég í þessu sambandi athygli á því, herra forseti, að í síðustu mgr. á bls. 5 í fskj. IV segja stjórnarflokkarnir á þessa leið:

„Stjórnarflokkarnir minna á að það er yfirlýst stefna ríkisstj. að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum. Ákveðið hefur verið að til 600 millj. kr. lækkunar komi á tekjuskattinum á næsta ári í því skyni. Í því sambandi verður að huga að því hvernig skattamálum húsbyggjenda og íbúðarkaupenda verður háttað. Hvað áhrærir skattamál húsbyggjenda og íbúðarkaupenda sérstaklega eru stjórnarflokkarnir sammála um að ekki komi til álita að draga úr því hagræði sem ákvæði gildandi skattalaga veita, hvort heldur verður um áframhaldandi vaxtafrádrátt að ræða og/eða sérstakan skattaafslátt.“

Ég er að draga þessi þrjú atriði fram, herra forseti, vegna þess að mér finnst að þau séu skyld. Hér er í fyrsta lagi viðurkenndur sá vandi sem skapast hefur vegna misgengis launa og lánskjara. Hér er í öðru lagi lögð á það áhersla sem höfuðverkefni ríkisstj. í húsnæðismálum að koma til móts við það fólk sem hefur orðið að þola þetta misgengi. Og í þriðja lagi er bent á að leið til þess að koma til móts við þetta fólk gæti verið fólgin í sérstökum skattaafslætti.

Það er á þessum forsendum, herra forseti, sem stjórnarandstaðan byggir niðurstöðu sína í grg. þeirri sem hún dreifði til fjölmiðla og formanna stjórnarflokkanna í fyrradag, en þar segir:

Ríkisstj. gefur fyrirheit um sérstakan skattaafslátt til húsbyggjenda og íbúðakaupenda á næsta ári.“

Ég vil í framhaldi af þessari upprifjun spyrja hæstv. félmrh. nánar út í þessi atriði og sömu spurningu vil ég beina til hv. 1. þm. Suðurl. sem hefur tekið þátt í þessum viðræðum af hálfu Sjálfstfl.

Þá vil ég, herra forseti, víkja að öðru atriði í niðurstöðum stjórnarandstöðunnar í sambandi við húsnæðismálin. Það var aðallega tvennt sem stjórnarandstaðan lýsti óánægju með. Annað voru ráðstafanir vegna þeirra sem höfðu orðið að þola misgengi launa og lána og hins vegar að ekki hefur verið komið til móts við þarfir eða sjónarmið forustumanna húsnæðissamvinnufélaga. Af þeim ástæðum segir stjórnarandstaðan hér:

„Munu stjórnarandstöðuflokkarnir því leggja frv. fram á Alþingi næstu daga.“

Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Eru nokkrar líkur til þess úr því sem komið er að frv. um húsnæðissamvinnufélög verði lagt fram sem stjfrv. næstu daga? Og í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðh. hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að húsnæðissamvinnufélögin fái fjármuni til sinnar starfsemi á grundvelli þegar gildandi laga. Það er ljóst að með þessum tillögum er verið að tryggja húsnæðislánakerfinu stóraukna fjármuni og þess vegna á að vera mögulegt fyrir hæstv. félmrh. í framhaldi af þessum ákvörðunum að koma til móts við húsnæðissamvinnufélögin, jafnvel á grundvelli gildandi laga. Ég vil inna hæstv. félmrh. eftir því hvernig stendur með frv. og hvort hann hyggst á grundvelli gildandi laga beita sér fyrir því að eitthvað af þeirri aukningu fjármuna, sem hér er gert ráð fyrir í húsnæðiskerfið, komi til húsnæðissamvinnufélaganna.

Í þriðja lagi vil ég benda á það varðandi efnisatriði frv. og grg. sem kemur fram undir kaflafyrirsögninni Lán vegna greiðsluerfiðleika, greiðslujöfnun og skattamál. Þar segir:

„Áfram verður haldið því samstarfi sem tekist hefur við banka og sparisjóði um lengingu lánstíma og aðra fyrirgreiðslu.“

Ég vil inna eftir því hvenær viðræður hefjast við bankana um lengingu lánstíma og aðra fyrirgreiðslu. Hvenær er þess að vænta að niðurstaða fáist í þeim efnum?

Ég vil einnig minna á það, herra forseti, að í þessari grg. ríkisstj. um verkefni í húsnæðismálum er því slegið föstu að ráðgjafarþjónusta í húsnæðismálum starfi áfram, þ. e. hún verði ekki aðeins fram á mitt þetta ár eða rúmlega það heldur muni hún starfa áfram á þessu og jafnvel næsta ári. Í framhaldi af því vil ég spyrja hæstv. félmrh.: Hversu miklir fjármunir eru nú þegar áætlaðir til þessarar ráðgjafarþjónustu í Húsnæðisstofnuninni skv. þeim umsóknum og útreikningum sem þegar liggja fyrir? Hve margir eru það sem njóta munu þessarar þjónustu? Er gert ráð fyrir því að 200 millj. kr. vegna ráðgjafarþjónustunnar fari allar út á þessu ári eða er við því að búast að þar standi eitthvað út af og þá verði hluta af þeirri upphæð ráðstafað á árinu 1986, en í frv. ríkisstj. og grg. er byggt á því að hér sé fyrst og fremst verið að afla fjár til húsnæðislánakerfisins til eins og hálfs árs?

Þá vil ég spyrja hæstv. félmrh. um lið 4.3. í grg. ríkisstj. varðandi lækkun útborgunar í fasteignaviðskiptum. Alþb. hefur flutt tillögu í húsnæðismálastjórn um þetta efni. Ég vil inna hæstv. ráðh. eftir því hvernig ríkisstj. hyggist standa að framkvæmd þessa lagaákvæðis umfram þær upplýsingar sem koma fram í grg.

Herra forseti. Þar sem þetta frv. hefur í rauninni þegar fengið allítarlega meðferð í viðræðum stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka get ég fyrir mitt leyti og fyrir hönd stjórnarandstöðunnar fallist á það að frv. fari ekki til nefndar, heldur fari þegar að lokinni þessari umr. til 2. umr. Ég legg á það áherslu fyrir mitt leyti að ég tel eðlilegt að þetta mál fái sem skjótastan framgang hér í þinginu.