06.06.1985
Neðri deild: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6000 í B-deild Alþingistíðinda. (5415)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Það er rétt að það komi fram við þessa umr. að það mál sem hér er fjallað um er í raun og veru sprottið upp úr tveimur málum sem verið hafa til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar, þ. e. frv. til lánsfjárlaga fyrir þetta ár og frv. um greiðslujöfnun húsnæðislána. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt og rökrétt að meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. flytji frv. af þessu tagi með hliðsjón af því hvernig það er til komið.

Þegar í ljós kom um mánaðamótin apríl-maí við meðferð lánsfjárlaga í hv. fjh.- og viðskn. að fjármagn skorti til nýrra útlána á þessu ári og enn fremur til þess að standa við ákvarðanir um greiðslujöfnun og fyrirgreiðslu í sambandi við þá ráðgjafarþjónustu sem tekin hafði verið upp var strax hafist handa við að finna lausn á þessum vanda. Ég ætla að taka það fram vegna þeirra ummæla sem fallið hafa í þessari umr. að í fyrsta lagi var alltaf ljóst, a. m. k. af hálfu þingflokks sjálfstæðismanna og ég hygg reyndar beggja stjórnarflokkanna, að þessi þrjú verkefni yrðu leyst og við gefin fyrirheit í þeim efnum yrði staðið. Í annan stað var líka ljóst og kom aldrei til álita af hálfu þingflokks sjálfstæðismanna að erlendar lántökur yrðu auknar í þessu skyni. Það má ljóst vera að í því efni hafa menn gengið feti framar en skynsamlegt og æskilegt er og lengra varð ekki gengið á þeirri braut og því var óhjákvæmilegt að afla tekna í þessu skyni með öðrum hætti. Þetta var frá upphafi ljóst að því er varðar þingflokk sjálfstæðismanna. Það er þess vegna ekki rétt að það hafi komið fram af hálfu stjórnarflokkanna að meira yrði ekki gert eða þessi tilteknu verkefni yrðu ekki leyst á þessu þingi. Hitt er annað mál að það hefur legið fyrir að útilokað væri með öllu að leysa ýtrustu kröfur sem fram hafa komið frá ýmsum aðilum varðandi úrbætur og lausn á þeim viðfangsefnum og vandamálum sem uppi hafa verið í húsnæðismálum.

Þegar stjórnarandstaðan bauðst til viðræðna um húsnæðismálin og tekjuöflun í því skyni urðu stjórnarflokkarnir sammála um að ganga til þeirra viðræðna og freista þess að finna sameiginlega lausn á því verkefni sem við blasti. Að mínu mati voru þær umræður mjög gagnlegar og hafa án nokkurs vafa leitt til þess að meiri friður verður um þessi mál en ella hefði orðið. Þessi umræða á milli stjórnmálaflokkanna styrkir þá niðurstöðu sem hér verður þó að samkomulag hafi ekki orðið í öllum greinum. Aðalágreiningsefnið var í raun og veru að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna vildu ganga lengra í skattheimtu og útgjaldaáformum en fulltrúar stjórnarflokkanna töldu skynsamlegt. Það má segja að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafi lagt fram tillögur um nálægt tvisvar sinnum meiri skattheimtu en fulltrúar stjórnarflokkanna lögðu til og hér eru áform um. Þetta var meginágreiningurinn sem uppi var. Það er auðvitað við þessar aðstæður á margan hátt erfitt að standa að aukinni tekjuöflun og hækkun skatta. Hitt er ljóst að hér er um svo brýnt viðfangsefni að ræða að óhjákvæmilegt var að taka á því og leysa það. Það er ljóst að það varð ekki gert með lántökum og því var nauðugur einn kostur að afla nýrra tekna. Með öllu hefði verið útilokað að láta mál ganga á þann veg fram að ekki væri nægjanlegt fjármagn til greiðslujöfnunar í samræmi við það frv. sem flutt hefur verið um það efni, til þess að standa undir lánum til ráðgjafarþjónustunnar og til þess að lágmarksfjármagn væri til nýrra útlána á þessu ári.

Þeir skattstofnar sem eru grundvöllur tekjuöflunar í þessu frv. eru að mínu mati þess eðlis að með nokkuð sanngjörnum hætti er verið að leggja byrðar á skattgreiðendur í landinu. Eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv. felur 1% hækkun á söluskattsstofni í sér 0.4% hækkun framfærsluvísitölunnar. Þetta sýnir okkur að söluskatturinn leggst með minni þunga á þær fjölskyldur sem eyða stærri hluta tekna sinna til matvælainnkaupa, þ. e. það fólk sem hefur lægri tekjur í þjóðfélaginu. M. ö. o.: með þessum hætti er verið að afla tekna þannig að þeir sem meiri efni hafa greiða stærri hluta til þessa verkefnis en hinir. Enn fremur er hér lagt til að lagt verði 0.25% gjald á eignarskattsstofn lögaðila og einstaklinga sem eiga skuldlausar eignir yfir ákveðnu marki sem tiltekið er í lögum. Hér er enn fremur verið að jafna byrðunum, að mínu mati, réttlátlega niður. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að fara mjög varlega í eignarskattsinnheimtu og gild rök séu til þess að takmarka hana verulega. Á það er að líta í þessu sambandi að eignarskattshlutfallið hafði verið lækkað vegna minnkandi verðbólgu í því skyni að greiðslubyrði skattgreiðenda héldist óbreytt. Nú hefur verðbólga hækkað nokkuð á nýjan leik og þá er hlutfall eignarskatts hækkað í sama form og það var í áður en verðbólgan lækkaði gagnvart þeim sem eiga eignir yfir því marki sem tilgreint er í lögum. M. ö. o.: það fer aftur upp í 1.2% eins og það var fyrir verðbólgulækkunina. Í heild held ég þess vegna að fullyrða megi að um nokkuð réttláta skattheimtu sé að ræða til fjáröflunar í þessu skyni.

Það kom fram hjá hv. 4. landsk. þm. að hann taldi að það hefði átt að spara fyrir þessum fjármunum sem hér er varið til útgjalda í þágu húsnæðismála. Það hefði sjálfsagt verið á margan hátt æskilegt. Ég hef þó ekki heyrt einn einasta þm. benda á raunhæfar leiðir í þeim efnum. Hv. 4. landsk. þm. var enn fremur tillögumaður að nánast tvöfalt meiri skattheimtu en þetta frv. gerir ráð fyrir til þess að standa undir útgjöldum í þessu skyni.

Það er ráðgert að aukið fjármagn, sem fæst með þessu frv., renni til Byggingarsjóðs ríkisins, eins og fram er tekið í frv., og að því er varðar leigusamvinnufélög eiga þau að sjálfsögðu sama aðgang og aðrir að hinu almenna fjármagni sem Byggingarsjóður ríkisins hefur til útlána og eru þar á sama báti og önnur byggingarsamvinnufélög.

Ég vil, herra forseti, leggja áherslu á það, sem fram hefur komið í þessum umr., að máli þessu verði hraðað sem mest. Hér er um að ræða brýn úrlausnarefni og nauðsynlegt að málið fái sem skjótastan framgang. Vegna fsp. sem fram hafa komið um skattalækkanir og skattafslátt til húsbyggjenda er tekið fram í fskj. IV með frv. í verkefnaskrá ríkisstj. í húsnæðismálum að stjórnarflokkarnir eru sammála um að ekki komi til álita að draga úr því hagræði sem ákvæði gildandi skattalaga veita, hvort heldur verður um áframhald vaxtafrádráttar að ræða og/eða sérstakan skattafslátt. Á þessu stigi máls er ekki annað að segja um þetta efni en að það er til frekari athugunar varðandi framkvæmd á áframhaldandi lækkun tekjuskatts sem ákvarðanir hafa verið teknar um og til framkvæmda eiga að koma á næsta ári.