06.06.1985
Neðri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6013 í B-deild Alþingistíðinda. (5428)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eiginlega þvert um hug mér ætla ég að halda hérna stutta ræðu. Það er komið hér að ákveðnum kaflaskilum í umr. þessa Alþingis hæstv., sem nú situr, um húsnæðismál. Fá mál hafa tekið meira af tíma þingsins en umr. um þennan málaflokk og þetta er orðin nokkuð löng og á sinn hátt lærdómsrík saga sem hér hefur átt sér stað.

Því verður ekki á móti mælt að tillöguflutningur og málafylgja stjórnarandstöðunnar í þessu máli hér á Alþingi í vetur hefur borið árangur og er að skila í höfn verulegum árangri þótt auðvitað megi deila um það hversu langt hann nái og hversu mikið hafi þurft til að sú lausn teldist viðunandi. En um leið og þessi frv. eru hér afgreidd felst í því ákveðin viðurkenning. Það felst í því viðurkenning á því að þetta fólk, sem varð fyrir stjórnarstefnunni, var rangindum beitt og á heimtingu á leiðréttingu. Í þessu felst viðurkenning á mistökum ríkisstj. og það má eiginlega segja, herra forseti, að manni líði ekki ósvipað hér nú í lokakaflanum eins og við minningarguðsþjónustu, það er verið að jarðsyngja stjórnarstefnuna. Það er verið að jarðsyngja þann grunn sem þessi ríkisstj. byggði á með mjög afgerandi hætti, sem sé þeim að rjúfa með lagaboði samhengi kaupgjalds og annarra verðþátta í þjóðfélaginu. Nú hefur ríkisstj. viðurkennt það og hún leggur það fram hér í frumvarpsformi. Þm. hennar segja í grg. að þetta hafi verið mistök og þetta verði að leiðrétta. Þetta er nokkuð söguleg stund, herra forseti, og mér fannst rétt hér í lokunum að vekja athygli á þessu.

Það er hins vegar fróðlegt að skoða síðan bæði hversu stór þessi vandi er og hversu stór hann varð á stuttum tíma, hvar hann liggur og hvers eðlis hann er. Því að hér er í raun og veru einungis tekið á hluta vandans eins og fram hefur komið hjá mörgum ræðumönnum. Verulegur hluti af vanda húsbyggjenda liggur utan húsnæðislánakerfisins sem slíks.

Ég hef undir höndum merkilega úttekt, sem einn af starfsmönnum Húsnæðisstofnunar gerði og við stjórnarmenn og varamenn þar í stjórn fengum í hendur fyrir skömmu, um úttekt á vanda þeirra umsækjenda sem í starfi ráðgjafarþjónustunnar við Húsnæðisstofnun hefur verið unnið úr. Þar eru ýmsar athyglisverðar upplýsingar. Án þess að ég sé að leggja dóm á það hversu marktækt það úrtak er, þá er þar um verulegan fjölda umsækjenda að ræða. Ég hygg að um 1200 umsóknir hafi legið fyrir þegar þetta úrtak var unnið, 12–1400 umsóknir, og að um 700 manns hafi verið búin að fá þar umfjöllun og þetta úrtak sé verulegur hluti þess hóps. Það kemur t. a. m. í ljós að aldursdreifing umsækjenda er í grófum dráttum sú að 3/4 þeirra eru á aldrinum 26–40 ára. Og þarf svo sem enginn að láta sér koma það á óvart. Það kemur einnig í ljós að mikill hluti þessa hóps eru stórar fjölskyldur, 4–5 manna fjölskyldur að meira en helmingi til. Enn fremur kemur í ljós að þetta fólk á yfirleitt ekki mjög stórar íbúðir. Það hefur ekki af þeim sökum reist sér gáleysislega hurðarás um öxl, eins og einhvern tíma hafði verið haft við orð í umr. um þessi mál. Um eða yfir helmingur af þessu fólki býr í íbúðum af stærðinni 80–140 fermetrar. Þegar það er haft í huga að hér eru 4–5 manna fjölskyldur að verulegu leyti á ferðinni er ekki hægt að segja að mínu mati að þar sé um mjög gáleysislega íbúðarstærð miðað við aðstæður að ræða.

Það kemur í ljós, sem enginn þarf að vera hissa á, að tekjur þessa fólks eru ekki miklar. Þær eru alla vega ekki miklar miðað við það hvað það kostar að lifa og afla sér húsnæðis á Íslandi í dag. Meðaltekjur í þessum hópi eru rúmar 500 þús. kr. og mín sannfæring er sú að bak við þær tekjur liggur gífurleg vinna og gífurlegt vinnuframlag iðulega af hálfu beggja aðila, tveggja fyrirvinna þeirra fjölskyldna. Skuldabagginn er hins vegar verulegur, ekki síst með tilliti til þessara tekna. Þannig dreifast skuldir þessara aðila jafnt á bilið frá því um 600 þúsund til 1800 þúsund kr. og meðalskuldabyrði er um 1250 þúsund kr. Beri maður það saman við þau laun sem ég áðan nefndi sér maður að hér er borinn ærinn baggi af þessu fólki.

Síðan er það athyglisvert að vandinn dreifist í grófum dráttum þannig að um 25% er skuldabyrði af húsnæðismálastjórnarlánum, önnur 25% eru af lífeyrissjóðslánum og það sem eftir er, eða helmingurinn, liggur annars staðar, fyrir utan þessa tvo höfuðsjóði eða tvo höfuðaðila sem fjármagna húsnæðiskerfið, sem sagt í bönkum, hjá okurlánurum, hjá hverjum þeim öðrum þar sem fé er að hafa í þjóðfélaginu í dag. Þetta eru allathyglisverðar upplýsingar, herra forseti, að mínu mati, m. a. með tilliti til þess að í þessu frv. er einungis tekið á þeim hluta vandans sem með formlegum hætti er innan húsnæðislánakerfisins.

Það er stórlega gagnrýnisvert að þegar það liggur fyrir hvernig þessi vandi dreifist skuli ekki tekið á honum með raunsærri hætti. Það er einnig athyglisvert að stór hluti þessa vanda liggur í skammtímalánum og lengri lán eru ekki nema 1/3 hærri en skammtímalánin sem þessi hópur ber. Segir það sitt um það hvernig ástandið er.

Ég hef einnig undir höndum lauslega útreikninga á því hvað það muni kosta að beita fullri greiðslujöfnun á öll lán sem flokkuð eru og færð undir lán til öflunar íbúðarhúsnæðis. Þar kemur í ljós, m. a. vegna þeirra kjara sem eru á þessum lánum, að langminnstur hluti vandans liggur innan byggingarsjóðanna, eðlilega þar sem vextir eru þar lægri en á lánum annars staðar. Vegna þess misgengis sem orðið hefur milli lánskjara og kaupgjaldsvísitölu er sú upphæð af stærðargráðunni 115 millj. kr. innan byggingarsjóðanna. Þar hefur ekki orðið um hækkun vaxta að ræða umfram það sem samið er um í lánssamningum. Hjá lífeyrissjóðum er þetta misgengi um 180 milljónir, en vegna hækkunar á vöxtum um 150 milljónir. Í bankakerfinu er þetta misgengi eitt um 285 milljónir og vegna hækkunar vaxta á þeim lánum sem þar eru um 70 milljónir. Þetta gerir samtals um 580 millj. kr. vegna misgengisins á lánum til íbúðarhúsnæðis — og ég er hér að tala um árið 1985 — en 220 millj. vegna hærri vaxta, samtals yfir 800 millj. kr. á árinu 1985 einu saman. Það má ljóst vera af þessum tölum og þeirri úttekt sem ég vitnaði til áðan að einungis lítill hluti þessa vanda liggur innan byggingarsjóðanna og húsnæðislánakerfisins þar sem þó er verið að reyna að taka á með þessu frv.

Herra forseti. Ég lofaði því víst að halda ekki mjög langa ræðu og ég ætla að reyna að standa við það eftir því sem hægt er úr þessu. En ég vil benda hæstv. félmrh. á það, hafi hann ekki áttað sig á því nú þegar, að það er kominn 6. júní og það er ekki víst að það fari að gefast til þess mjög margir heilir þingdagar að ræða þingmál. Ætli hann að koma fram frv. um húsnæðissamvinnufélög og hafa einhverja minnstu von til þess að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi held ég að hann ætti að fara að slá svolítið í drógina. Það er ekki seinna vænna, hæstv. félmrh., ég verð að segja það sem mína skoðun.

Fyrir liggja yfirlýsingar, svardagar og loforð stjórnarliða, alla vega aftan frá síðasta Alþingi, því sem sat næst á undan þessu, um það að þessum málum yrði nú snarlega kippt í liðinn á þessu þingi. Það var gert upp við húsnæðismálin hér á síðasta vori með svardögum um það að á þessum málum yrði nú myndarlega tekið strax í upphafi þessa þings. En nú er kominn 6. júní og enn höfum við ekki séð frv. hæstv. félmrh. Hvað dvelur?

Ég held að hæstv. ráðh. ætti að fara að slá í drógina ef minnsta von á að vera um það að þetta frv. verði hér að lögum. Ég tel það ótækt og ekki fært að fara þannig með ein samtök fólks í landinu, eins og hér ber raun vitni um, að láta þau standa frammi fyrir slíkum endemis vanefndum og það af hálfu ríkisstjórnarmeirihluta og hæstv. ráðh. Þvílík endemi, segi ég nú bara. Þetta fólk er búið að safna félögum, það er búið að leggja á félagsgjöld, það er búið að sækja um lóðir og það er búið að leggja sínar áætlanir fram í tímann. Það hefði getað orðið - ég fullyrði það — myndarlegt afl til þess að leysa þessi húsnæðisvandamál til frambúðar. En hvernig er hæstv. ríkisstj., hvernig er stjórnarmeirihlutinn að leika þetta fólk sem batt miklar vonir við það að þessi nýja hreyfing gæti orðið burðugur aðili til lausnar á húsnæðisvandamálum þjóðarinnar og það á skynsamlegri hátt en margt er hjá okkur í dag?

Það er illa farið með þetta fólk. Það er búið að svíkja þetta fólk illa. Ég vil lýsa því hér yfir úr þessum ræðustóli, herra forseti. Þessar vanefndir eru með endemum. Ég skora á hæstv. félmrh. að sýna nú rögg og myndugleika, það er ekki seinna vænna, drífa þetta frv. fram og láta á það reyna hvort ekki eru hér á Alþingi það margir hv. þm. að það geti orðið að lögum áður en þingi lýkur.