06.06.1985
Neðri deild: 87. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6017 í B-deild Alþingistíðinda. (5438)

146. mál, sjómannalög

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 1086 er nál. frá samgn. um þetta mál sem er svohljóðandi:

„Nefndin hefur á fundum sínum fjallað um frv. þetta sem er komið frá Ed. Dr. Páll Sigurðsson dósent, formaður nefndar þeirrar sem samdi frv., sat fundi nefndarinnar. Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt.“

Það skal hér tekið fram að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir kom fram með brtt. sem hún hefur svo flutt ásamt hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur á þskj. 1122 þess efnis að 17. gr. orðist svo:

„Ef kona, sem er skipverji, verður barnshafandi, getur hún krafist lausnar úr skiprúmi ef hagsmunir hennar eða barnsins krefjast þess og á hún þá aðeins rétt á kaupi fyrir þann tíma sem hún var í skiprúmi.

Ef kona fær lausn úr skiprúmi eftir ákvæðum 1. mgr. skal útgerðarmaður, sé þess nokkur kostur, veita henni annars konar starf á sínum vegum óski konan þess.“

Þetta mál reifaði hún á fundinum en það var svolítið öðruvísi texti og ég sem formaður nefndarinnar tók það að mér að athuga hvort það væri líklegt, ef þessi till. væri samþykkt hér í deildinni, að hún næði fram að ganga aftur í Ed., þar sem svipuð till. frá hv. þm. Sigríði Dúnu hefði verið felld þar. Ég fékk leyfi til þess að taka þessa till. inn ef sá flötur væri fyrir hendi að þessi till. yrði samþykkt og ég verð að segja að í samgn. Nd. var mikil samúð með þessu máli. En það kom í ljós að frv. yrði sett í hættu ef þetta væri tekið inn.

Með fyrirvara í sambandi við þetta mál skrifuðu undir nál. hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, Karvel Pálmason og Steingrímur J. Sigfússon.