06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

81. mál, búseturéttaríbúðir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Svar við fsp. frá hv. 5. þm. Reykv. á þskj. 83 þykir mér rétt að gefa á þessa leið:

Hann spyr í fyrsta lagi: Hvenær er að vænta frv. til l. um „stefnumörkun um byggingu leiguíbúða ... búseturéttaríbúðir og kaupleigusamninga“ sem boðað var á Alþingi 14. maí s.l. að yrði lagt fram í byrjun næsta þings?

Með bréfi dags. 27. júní s.l. skipaði ég fimm manna nefnd í samráði við ríkisstj. sem skyldi hafa það hlutverk að semja frv. til l. um búseturéttaríbúðir og kaupleiguíbúðir. Jafnframt skyldi nefndin gera till. um með hvaða hætti leiguíbúðum og framangreindum íbúðaformum verði best fyrir komið í húsnæðiskerfinu. Þess var óskað að nefndin hraðaði störfum svo sem kostur væri og skilaði tillögum sínum og frv. til l. um framangreint efni fyrir samkomudag Alþingis á hausti komanda. Í nefndina voru skipaðir Jóhann Einvarðsson, aðstoðarmaður ráðh., sem var skipaður formaður nefndarinnar, Friðrik Friðriksson hagfræðingur, Magnús L. Sveinsson borgarfulltrúi, Stefán Guðmundsson alþm. og Páll R. Magnússon húsasmíðameistari.

Þessi nefnd hefur haldið marga fundi um málið ásamt því að safna sér gögnum bæði innanlands og erlendis frá og síðan átt viðræður við ýmsa hagsmunaaðila sem tengjast þessum málum. skv. upplýsingum frá nefndarmönnum er ekki ástæða til að ætla annað en að nefndin nái saman um tillögur sínar, hverjar sem þær kunna að verða. Hér er um allviðamikið verkefni að ræða og því mun eitthvað dragast enn að nefndin ljúki störfum. En ég hef óskað sérstaklega eftir því að nefndin hraði þessu starfi sínu svo sem nokkur kostur er. Ég hef fulla ástæðu til að ætla að það muni ekki dragast mjög lengi úr þessu að niðurstöður komi frá nefndinni.

Því miður hefur ekki tekist að hraða þessu verkefni meira en hér kemur fram, en til þess liggja að sjálfsögðu ýmsar ástæður. Ein ástæðan er sú að einn nefndarmaðurinn var upptekinn í samningagerð í kjaramálum og töfðust störf nefndarinnar nokkuð af því tilefni. En aðalatriðið er að sjálfsögðu að hér komi fram heilsteyptar tillögur sem ríkisstj. getur tekið afstöðu til áður en þær verða lagðar hér fram á Alþingi.

Önnur spurning hv. fyrirspyrjanda er: „Hefur náðst samkomulag milli stjórnarflokkanna um tilverurétt búseturéttaríbúða og hlut húsnæðissamvinnufélaga í hinu opinbera húsnæðislánakerfi? Ef svo er, hvaða tillögur hafa verið mótaðar um fjármögnun slíkra lána og lánskjör?“

Að sjálfsögðu standa stjórnarflokkarnir einhuga að starfi þessarar nefndar og hlutverki hennar og mótaðar tillögur um fjármögnun lána og lánskjara varðandi hlut húsnæðissamvinnufélaga sérstaklega bíða því tillagna umræddrar nefndar. En vegna þeirra aths. sem hv. fyrirspyrjandi bar fram hér í fsp. sinni, þá vil ég aðeins svara því. Það er náttúrlega alveg útilokað og raunar ósæmilegt af hv. þm. að halda því fram að einhvers konar hrossakaup hafi átt sér stað í sambandi við meðferð þessa máls á hv. Alþingi þegar lögin um Húsnæðismálastofnun voru til meðferðar og samþykktar. Slíkt er alger fjarstæða. Það kom aldrei til neinnar slíkrar umr. milli stjórnarflokkanna um þetta mál. Það er algerlega úr lausu lofti gripið. Hins vegar lá alveg opið fyrir um hvaða ágreining var hér að ræða og það fór ekkert leynt hvernig á því máli var tekið. Niðurstaðan varð sú að gerð var breyting á c-lið 33. gr. laganna, en það gerir m.a. að verkum að eftir stendur það nýmæli í lögunum varðandi Byggingarsjóð verkamanna að aðilar sem hyggjast byggja leiguíbúðir fyrir námsmenn, öryrkja og aldraða eiga rétt til lána úr sjóðnum.

Mér er vel kunnugt um að þau samtök sem hv. fyrirspyrjandi nefndi hér, Búseti, hafa sent inn umsóknir um slík lán til Húsnæðisstofnunar ríkisins til bygginga á næsta ári. Húsnæðismálastjórn hefur ekki enn tekið afstöðu til þessara umsókna, enda ekki eðlilegt, þar sem ekki er enn búið að samþykkja fjárlög né lánsfjárlög fyrir árið 1985, svo að vitað sé hvað miklu fjármagni Húsnæðisstofnun kann að hafa yfir að ráða til útlána á árinu 1985. Ég geri mér hins vegar miklar vonir um það, eins og kom fram í svörum mínum hér fyrr á þinginu, sem hv. þm. var að reyna að gera lítið úr, að það verði einmitt frekar um aukningu að ræða til byggingar á félagslegum grundvelli á næsta ári og þar af leiðandi séu vonir til þess að hægt verði að sinna að hluta til þessu verkefni. Það er a.m.k. mín von og stefna í þessu máli. Ég vænti þess að þau mál skýrist þegar Alþingi er búið að ganga frá samþykkt fjárlaga og lánsfjárlaga.

En Húsnæðismálastofnun hefur ekki enn tekið afstöðu til þessara umsagna og það þarf í raun og veru ekki að blandast saman við það sem þessi nefnd er að vinna að. Hún á að marka þarna ákveðna stefnu til langframa og taka sérstaklega fyrir þessi mál og ég veit ekki annað en að það sé samstaða um það í nefndinni að skila mótuðum tillögum um þessi efni.