07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6018 í B-deild Alþingistíðinda. (5443)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur farið yfir frv. til l. um húsnæðissparnaðarreikninga og tekið til athugunar þær ábendingar sem fram komu við 2. umr. málsins og m. a. kallað til viðtals Jón Ögmund Þormóðsson deildarstjóra í viðskrn. sem vann að undirbúningi frv.

Við 2. umr. komu fram aths. við ákvæði í 3. málsl. 2. gr., en sú mgr. hljóðar svo með leyfi forseta:

„Samið skal fyrir fram til a. m. k. eins árs í senn um jöfn mánaðarleg eða ársfjórðungsleg innlegg, en umsaminni fjárhæð má breyta árlega miðað við upphaf almanaksárs innan þeirra marka er getur í 2. gr. Þó er heimilt að semja fyrir fram um lækkun á umsömdum sparnaði miðað við ársfjórðunga.“

Hér var spurt hvers vegna aðeins væri heimilt að semja um lækkun en ekki hækkun umsamins sparnaðar. Ástæðurnar fyrir því eru þær að þarna er reynt að koma í veg fyrir að samið sé um lágmarksgreiðslur fyrri hluta árs, en hækkaðar greiðslur síðari hluta ársins sem mundu e. t. v. koma til innborgunar rétt fyrir áramót. Þannig gæfist mönnum tækifæri til að spila á, ef svo má að orði komast, þær skattalækkanir sem af þessu leiðir.

Fjh.- og viðskn. tók þessar skýringar gildar og gerir ekki brtt. við þennan lið og um það varð fullt samkomulag.

Í 5. gr. var ákvæði sem varðar það ef kaup á húsnæði ganga til baka, en 3. málsl. 5. gr. hljóðar svo með leyfi forseta:

„Verði ekki af kaupum, þrátt fyrir gerð kaupsamnings skv. 2. mgr. 3. gr., skal leggja úttekið fé aftur inn á reikning innan mánaðar frá því að ljóst er að ekki varð af kaupunum. Ella skal endurgreiða allan nýttan skattafslátt að viðbættu 25% álagi, sbr. þó 1. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.“

Nefndin var sammála um, eftir að hafa rætt nánar um þennan lið, að þessi frestur væri óþarflega knappur og væri ástæða til að flytja hér brtt. Brtt. er flutt á þskj. 1175 og hljóðar þannig:

„Við 5. mgr. Í stað orðanna „innan mánaðar“ í 3. mgr. komi: innan þriggja mánaða.“

Það varð alger samstaða í nefndinni um þessa afgreiðslu málsins og við leggjum til að það verði samþykkt með eftirfarandi brtt.