07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6020 í B-deild Alþingistíðinda. (5449)

351. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Kristín Ástgeirsdóttir:

Herra forseti. Á þskj. 1154 leyfi ég mér að bera fram brtt. við 351. mál, um lífeyrissjóð húsmæðra. Till. er svohljóðandi:

„Í stað orðanna „enda taki félagsmaður þá að sér að greiða iðgjaldahlut atvinnurekanda ásamt sínum eigin“ í niðurlagi fyrri málsl. 1. gr. komi: enda taki ríkissjóður þá að sér að greiða iðgjaldahlut atvinnurekanda en félagsmaður greiði sinn eigin hlut.“

Eins og þm. er sjálfsagt kunnugt skiptast lífeyrisgreiðslur þannig að launþegi greiðir 4% en atvinnurekandi 6%, en með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er verið að bæta hlut hóps sem að öllu jöfnu missir sín lífeyrisréttindi. Þar er um að ræða þær konur sem hafa verið úti á vinnumarkaðinum, en kjósa af einhverjum ástæðum að vera heima um skeið, einkum vegna uppeldis barna og heimilisstarfa. Þá missa þær þau lífeyrisréttindi sem þær hafa öðlast eftir ákveðinn tíma. Með þessum breytingum er verið að sjá til þess að þær geti áfram greitt í lífeyrissjóð þannig að þær haldi sínum réttindum ef þær fara út á vinnumarkaðinn aftur. Hins vegar er sá galli á gjöf Njarðar að heimilisstörf eru ólaunuð eins og menn vita og þar af leiðandi er erfitt að sjá hvaðan viðkomandi kona á að fá þá upphæð sem hún á að greiða í lífeyrissjóð, þessi 10%. Hún þarf væntanlega að ganga á fund elskulegs eiginmanns og biðja hann um að leggja fram þessa fjárhæð.

Nú er það svo að yfir 80% giftra kvenna vinna utan heimilis og því er um lítinn hóp að ræða sem verið hefur úti á vinnumarkaðinum en fer heim um lengri eða skemmri tíma. M. a. þess vegna höfum við Kvennalistakonur leyft okkur að bera fram þá brtt. að ríkissjóður komi til móts við þessar konur og greiði þau 6% sem atvinnurekendur greiða að öllu jöfnu. Við teljum að þar með sé tryggara að konum takist að reiða fram þessa upphæð og þar með tryggja að þær haldi þeim réttindum sem hér er verið að tryggja þeim.