07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6022 í B-deild Alþingistíðinda. (5457)

Um þingsköp

Viðskrh. (Matthías Á:

Mathiesen): Herra forseti. S. l. miðvikudag eftir kl. 6 síðdegis var tekið á dagskrá í þessari hv. deild frv. til l. um breyt. á lögum nr. 10 29. mars 1961, um Seðlabanka Íslands, 526. mál á þskj. 110. Þetta mál var tekið á dagskrá með afbrigðum á fundartíma, sem að vísu kemur fyrir að deildin notar, en dagskránni ekki útbýtt eins og venja er til. Þetta mál fjallar um Seðlabanka Íslands sem viðskrn. fer með. Ég óskaði því eftir því við forseta deildarinnar að eftir að 1. flm. og e. t. v. aðrir hv. dm. hefðu tjáð sig yrði umr. frestað þar sem ég hefði ekki aðstöðu til að vera á fundinum vegna persónulegra ástæðna, en ég vildi mjög gjarnan koma fram sjónarmiðum við 1. umr. málsins til að gera þar grein fyrir þeim. Forseti lét þannig eða sagði mér að við því gæti hann orðið og ég gerði þess vegna ráð fyrir að svo yrði. Mér var hins vegar tjáð daginn eftir að þegar forseti gerði grein fyrir því að hann hygðist fresta umr. hefðu hv. þdm. ekki talið ástæðu til þess. Ég hef ekki skoðað það sem þeir þar sögðu og tel ekki neina ástæðu til þess að gera það einfaldlega vegna þess að ég tel að hér sé farið að með eindæmum. Málið er komið á dagskrá með afbrigðum. Ráðh. sá sem fjallar um málefni viðkomandi stofnunar óskar eftir því að því sé frestað um einn sólarhring til þess að hann geti komið að sjónarmiðum áður en sú hv. nefnd sem fær málið til umfjöllunar, fjalli um það.

Ég ætla aðeins að vekja athygli á þessu. Ég kannast ekki við að svo hratt sé unnið að löggjöf hér á Alþingi að það sé ekki orðið við slíku. Ég hef sjálfur hér á Alþingi gegnt störfum forseta, störfum formanns fjh.og viðskn. og ráðherrastörfum og ég minnist ekki þess að við slíkri beiðni hafi ekki verið orðið.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram. Ég er ekki út af fyrir sig að áfellast forseta. Ég met það sem þarna gerðist svo að hann sem varaforseti óvanur forsetastörfum hafi ekki áttað sig á því hvað hér var um að ræða og mætti segja mér að þeir hinir reyndari í forsetastörfum á Alþingi hafi ekki verið til staðar til þess að benda honum á með hvaða hætti eðlilegt er að slíkar beiðnir fái afgreiðslu.

Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram ef það mætti verða til þess að menn áttuðu sig á því að slík vinnubrögð eru ekki til þess fallin að við búum við betri eða traustari löggjöf. Mér er hins vegar fullkomlega ljóst að hér skyldi hafa mikinn hraða á eins og fram hefur komið því að það var vart liðinn sólarhringur frá umr. þar til nál. hafði verið gefið út. Ég skil hins vegar mjög vel að formaður fjh.- og viðskn., eftir þær umr. sem hér fóru fram, vildi ekki láta upp á sig standa og ganga til afgreiðslu á málinu. Ég vek athygli á þessu einfaldlega vegna þess að beiðni kom fram um frestun og ég hef ekki áður vitað til þess að við slíkri beiðni hefði ekki verið orðið.