06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

81. mál, búseturéttaríbúðir

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að nota þessar fáu mínútur til þess að standa í endurteknum umr. um þessi mál. Ég virði að sjálfsögðu skoðanir hv. 5. þm. Reykv. í þessu máli. En ég vil aðeins benda honum á það að við höfum lög til að fara eftir og við höfum þingkjörna húsnæðismálastjórn. Og þessi þingkjörna húsnæðismálastjórn hefur verið sammála um þær útlánareglur sem hún hefur starfað eftir. Hins vegar get ég upplýst það hér að hún er að mínu frumkvæði að endurskoða þessar útlánareglur og sú endurskoðun miðar að því að reyna að stýra skynsamlegar þeim fjármunum sem þessi stjórn hefur til úthlutunar.

Það er hægt að tala endalaust um það hvort einhver sjóður er gjaldþrota eða ekki gjaldþrota. Ég vil aðeins endurtaka það sem ég hef sagt hér áður: það er búið að meira en tvöfalda útlánamöguleika sjóðanna, sérstaklega Byggingarsjóðs ríkisins, og hann mun hafa til útlána á þessu ári um 1400 millj. kr. en Byggingarsjóður verkamanna um 400 millj. kr. Hér er því ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Ef hv. þm. vill svo stimpla alla þá sem hafa fengið lán úr Byggingarsjóði á þessu ári, sem munu vera um 4000 lán, sem lúxusíbúðahafendur, þá er það hans einkamál.

Ég vil aðeins ítreka það að Húsnæðismálastofnunin er núna að endurskoða sínar útlánareglur sem verða kynntar í sambandi við útlán á næsta ári. Það ætti einmitt að sýna hv. 5. þm. Reykv. fram á það að það starf sem þessi ágæta nefnd er að vinna-og hefur ekki enn getað skilað sínum till. — er ekki svo lítið þegar grannt er skoðað. Eins og fram kom einmitt í gagnrýni hv. 5. þm. Reykv. þá rekum við okkur á það þegar farið er að skoða nánar þessi mál að það er brýn nauðsyn að taka til skoðunar um leið~að félagslega íbúðalánakerfi sem við höfum í landinu. Ég get vel tekið undir það með hv. þm. að það er visst áhyggjuefni hvernig komið er fyrir t.d. Byggingarsjóði verkamanna eða framkvæmd þeirra laga sem um hann fjalla, því að með hverju ári sem líður eykst hinn mikli fjöldi endursöluíbúða, sem þurfa að fá oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og oftar en þrisvar nýtt fjármagn, eftir því sem kerfið býður upp á. Þetta er nauðsynlegt að taka til athugunar. Og ég vonast til þess að í sambandi við tillögur þessarar ágætu nefndar komi tækifæri til að ræða þau mál sérstaklega.