07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6026 í B-deild Alþingistíðinda. (5463)

526. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breyt. á lögum um Seðlabanka Íslands. Álit nefndarinnar er sem hér segir, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur athugað frv. og mælir meiri hl. hennar með samþykkt þess eins og það liggur fyrir. Nefndin hefur áður fjallað um frv. svipaðs efnis, en þó með öðrum talnamörkum varðandi bindiskyldu. Meiri hl. n. hefur ekki skipt um skoðun frá því að sú umfjöllun átti sér stað og telur raunar enn þá brýnna nú en þá að breyta þessum ákvæðum þannig að losa megi fé til að létta greiðslubyrði húsbyggjenda án þess að grípa þurfi til nýrrar skattheimtu.

Stefán Benediktsson sat fund nefndarinnar og er samþykkur þessu áliti meiri hl., enda einn af flm. frv.“ Undir þetta nál. rita nöfn sín eftirgreindir hv. þm.:

Eyjólfur Konráð Jónsson, formaður nefndarinnar, Eiður Guðnason fundaskrifari, Kristín Ástgeirsdóttir, Ragnar Arnalds og Valdimar Indriðason.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta endilega mikið fleiri orð. Það er öllum ljóst hvern vanda þessu frv. er ætlað að leysa. Það er líka ljóst að frá því hefur verið greint í blöðum, í málgagni hæstv. viðskrh. Morgunblaðinu, að það sé ætlunin að færa bindiskylduna í 15%. Hér er því aðeins um að ræða að flýta þessu. Það var frétt um þetta í Morgunblaðinu fyrir fáeinum dögum. Hér er aðeins um að ræða að flýta því að þessi ákvæði komist í framkvæmd.

Ég vil gjarnan gera það að mínum síðustu orðum að þetta er mjög brýnt mál. Það hefur þegar beðið meira en hálfan sólarhring, eins og hæstv. viðskrh. tók til orða, og ég sé enga ástæðu til þess að það bíði hér fleiri sólarhringa heldur gangi fram eftir eðlilegum þingskapaleiðum og fái afgreiðslu með þinglegum hætti. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt.