07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6028 í B-deild Alþingistíðinda. (5466)

526. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm:

meiri hl. (Eiður Guðnason): Herra forseti. Sjálfsagt hefðum við hæstv. viðskrh. báðir gott af því að fara í læri til prófessors Gylfa Þ. Gíslasonar. Við gætum margt af honum lært. (Viðskrh.: Ég var þar.) Ég hef nú raunar verið það líka, hæstv. ráðh. En ætlar hæstv. ráðh. að segja okkur að ef rýmkuð er bindiskyldan og úr henni dregið verði ekki hægara fyrir banka og sparisjóði að veita lánalengingu og endursemja um lán sem húsbyggjendur hafa tekið í bankakerfinu? Er hann að segja okkur að það breyti engu hver bindiskyldan er varðandi þessar peningastofnanir? Auðvitað dettur engum manni í hug að seðlabúnt séu geymd inni í skáp. Ég er satt að segja hissa á hæstv. ráðh. að láta sér svona ummæli um munn fara. En ég vona að hæstv. ráðh. viðurkenni að eftir því sem bindiskyldan er minni eiga þessar fjármálastofnanir hægara um vik. Hann hefur sjálfur komið við sögu í stjórn býsna stórs sparisjóðs og ætti þess vegna að þekkja þessi mál, geri ég ráð fyrir, og hefur vonandi öðlast mikinn lærdóm og reynslu þar í peningamálum. Sjálfur hefur hann reyndar verið fjmrh. auk þess að vera nú bankamálaráðh. En ég held að það gefi auga leið og almenn heilbrigð skynsemi geti sagt manni það að eftir því sem bindiskylda banka og sparisjóða er minni, þeim mun hægara eiga þeir um vik að greiða fyrir lánalengingu og öðrum hliðstæðum ráðstöfunum til að létta greiðslubyrði húsbyggjenda og þeirra sem keypt hafa sér íbúðarhúsnæði það sem umræðan snýst um núna í íslensku þjóðfélagi.