07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6032 í B-deild Alþingistíðinda. (5472)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Herra forseti. Olíumálin og verðlag á olíu hafa verið mjög til umræðu og ýmis spjót verið þar á lofti. Það frv. sem við fjöllum hér um var lagt fram í þessari hv. deild síðast í janúar í vetur og fjallað um það í byrjun febrúar. Síðan hefur það verið til skoðunar í fjh.- og viðskn. og reynt að leita þar leiða til að gera bót á þessum málum. Einkum hafa verðjöfnunargjaldið og svokallaður innkaupajöfnunarreikningur legið undir harðri gagnrýni.

S. l. ár má ætla að um 250 millj. hafi verið teknar í verðjöfnunargjald af bensíni og tveimur helstu olíutegundunum, sem sagt gasolíu og svartolíu þannig að það voru teknir 52 aurar af hverjum gasolíulítra sem runnu í þennan sjóð. Þarna er um verulega upphæð að ræða og er eðlilegt að farið verði ítarlega yfir þá þætti sem þetta gjald mynda. Frv. gerir einmitt ráð fyrir því að leggja þennan verðjöfnunarsjóð niður og mynda svokallaðan flutningsjöfnunarsjóð og úr þeim sjóði skal greiða þeim aðilum sem flytja olíuvörur frá næstu innflutningshöfn til dreifingaraðila. Vonir verður að binda við að þarna verði gætt sem mestrar hagsýni. Slíka flutningataxta verður að samþykkja í Verðlagsráði. Nefndin er sammála þeirri breytingu að breyta í svokallaðan flutningsjöfnunarsjóð. Þó að ekki sé um stóra breytingu að ræða telur nefndin það til bóta samt eða eitt lítið skref.

Svokallaður innkaupareikningur er myndaður þannig, að ákveðið gjald er lagt á hvert innflutt tonn af helstu olíutegundunum miðað við cif-verð vörunnar og var það t. d. á síðasta ári sama greiðsla og í Verðjöfnunarsjóðinn eða 52 aurar af hverjum gasolíulítra sem rann í þennan sjóð, heldur minna af bensíni og heldur meira af svartolíu. Þessi sjóður er myndaður vegna þess að oft getur orðið verulegur verðmunur á milli farma sem fluttir eru til landsins og því nauðsynlegt að hafa slíkt í hendi til þess að geta jafnað út á milli þeirra verðsveiflna sem myndast.

Í dag ríkir engin samkeppni á milli olíufélaganna um útsöluverð á helstu olíutegundunum, eins og ég hef áður sagt. Þau vinna eftir 32 ára gömlum lögum um hámarksverð þessarar vöru á hverjum tíma. Þau eru orðin vön þessari aðferð og ætla má að þau láti sér vel líka eftir atvikum. En óeðlilegt er að ekki skuli þarna vera losað að nokkru um og olíufélögin látin spreyta sig og hafa uppi nokkra samkeppni eins og annar verslunarrekstur í landinu. Þau hafa skákað í því skjóli þegar þessi mál eru rædd og sagt: Við getum ekkert gert í þessum efnum. Við erum njörvaðir niður í innkaupum á olíuvörum til landsins og fyrirskipað af ríkisvaldinu að taka olíu, það voru um það bil 60–70% á s. l. ári, frá einu af okkar viðskiptalöndum, Rússlandi, á ákveðnu verði sem við ráðum engu eða litlu um því það er bundið í viðskiptasamningum milli landanna. Það sem út af stendur getum við keypt á frjálsum olíumarkaði. Ef einhverju félaganna tekst að gera hagkvæm innkaup á slíkum förmum fá þau þess í litlu notið vegna þess að sá mismunur er lagður inn á sérstakan innkaupareikning, eins og ég gat um áður, sem er sameign félaganna, og reynslan er sú, að það félagið sem hagkvæm innkaup gerir fær þess í litlu eða engu notið og getur því ekki boðið þessa vöru sína á lægra verði þrátt fyrir hagstæð innkaup.

Fjh.- og viðskn. velti þessu máli mjög fyrir sér og varð sammála um að leggja til að gerð verði breyting á svokölluðum innkaupajöfnunarreikningi þannig að frá næstu áramótum verði þessi reikningur sérstakur fyrir hvern olíuinnflytjanda. Þetta mát er flutt á sérstöku þskj., 1149. Ætla má að olíuviðskiptin verði þannig á næstunni að um helmingur þeirra verði við Rússland, en hinn helmingurinn á frjálsum markaði. Olíuinnflytjendum gefst því tækifæri til að spreyta sig á sem hagstæðustum olíuinnkaupum á frjálsum markaði að þessum hluta. Þá hafa þeir sína innkaupareikninga sem hvata sem ekki eru eingöngu fyrir félögin heldur gæti viðkomandi félag lækkað verð til neytenda að einhverju leyti og það gilti þá fyrir landið allt, eins og segir í frv. Þarna er aðeins um lítið skref að ræða og ég tek það fram að nefndin er öll sammála um að þarna er aðeins um lítið skref að ræða til að losa um þær hömlur sem verið hafa í þessum efnum.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um nál. og þær brtt. sem hér verður rætt um.

Í nál. segir að „nefndin hefur fjallað ítarlega um frv. og kallað á sinn fund forstjóra allra olíufélaganna, fulltrúa viðskrn. Svein Björnsson og Gunnar Þorsteinsson fulltrúa verðlagsstjóra.

Frv. fjallar um að leggja niður svokallað verðjöfnunargjald á olíuvörum, sem verið hefur í gildi frá árinu 1953, og taka upp flutningsjöfnunarsjóð.

Nefndin telur að þessi breyting sé til bóta því að svokallað verðjöfnunargjald hefur verið mjög gagnrýnt og erfitt að koma þar við æskilegu eftirliti.

Nefndin leggur til að gerð verði sú breyting, eða viðbót, á frv. að það taki einnig til annars þáttar í olíuverðmynduninni hér innanlands, en það er svokallaður innkaupajöfnunarreikningur. Í hann er fært gjald sem tekið er af hverjum olíufarmi sem fluttur er til landsins og reikningurinn látinn jafna sveiflur sem eru á verði bensíns og brennsluolíu.

Nefndin leggur til að stofnaður verði sérstakur innkaupajöfnunarreikningur sem hvert olíufélag eða olíuinnflytjandi skal halda. Nefndin telur slíka breytingu geta orðið hvata til þess að olíufélögin leggi megináherslu á að ná sem hagstæðustum innkaupum á þeim olíuvörum (bensíni og brennsluolíu) sem eru fluttar inn utan sérstakra viðskiptasamninga, en það er helmingur þessara vara.“

Brtt., sem við gerum við þetta frv., eru á þskj. 1149. Þar segir að á eftir 5. gr. komi fimm nýjar greinar. Það er þá fyrst a-liður (6. gr.):

„Sérstakur innkaupajöfnunarreikningur skal haldinn af sérhverjum innflytjanda sem starfar við endursölu á bifreiðabensíni, gasolíu, svartolíu eða öðrum olíutegundum eftir nánari ákvörðun Verðlagsstofnunar. Undanþegið innkaupajöfnun er flugbensín og flugsteinolía, sem ætluð er til nota í utanlandsflugi, ásamt öðrum olíutegundum sem eru seldar úr landi til erlendra aðila.“

Um þessa grein segir í nál.:

„Nú er haldinn sameiginlegur innkaupajöfnunarreikningur olíufélaganna þriggja hjá Verðlagsstofnun yfir bensín, gasolíu og svartolíu. Með sérstökum innkaupajöfnunarreikningi hvers olíuinnflytjanda í hverri olíutegund skapast möguleiki á aukinni samkeppni milli olíuinnflytjenda um hagstæð innkaup og söluverð þó að sama verð gildi um allt land hjá hverjum innflytjanda og útsölumönnum hans.

Með þessu ættu millifærslur milli innflytjenda að falla niður.

Undanþága frá innkaupajöfnun nær til millilandaflugs og sölu á öðrum olíum til erlendra aðila.“

Í b-lið, sem yrði 7. gr. þessa frv., stendur: „Innflytjandi olíu skal halda aðskilinn reikning yfir innkaupajöfnun hverrar olíutegundar. Hann skal tilkynna Verðlagsstofnun breytingar á jöfnunarverði og gildistöku þess með nánar tilteknum fyrirvara sem stofnunin setur. Verðlagsstofnun skal setja innflytjendum samræmdar reglur um framkvæmd innkaupajöfnunar á hverjum tíma.“

Með innkaupajöfnun er nauðsynlegt að halda hverri olíutegund aðskilinni svo að notendur bensíns greiði ekki niður t. d. gasolíu fyrir notendur hennar eða öfugt.

Tilkynningarskylda Verðlagsstofnunar um breytingu á jöfnunarverði er sett til þess að stofnunin hafi betri möguleika á að fylgjast með verðþróun og grípa inn í verðlagningu olíuvara reynist það nauðsynlegt.

Verðlagsstofnun skal setja innflytjendum samræmdar reglur um innkaupajöfnun svo að ekki verði mismunur milli einstakra innflytjenda varðandi t. d. jákvæða eða neikvæða stöðu reikninga eða eftir því hvort jöfnunarverðið tekur mið af meðalverði birgða eða öðru eftir aðstæðum hverju sinni.

Þarna er sem sagt stórhert það eftirlit sem Verðlagsstofnun hefur haft með þessum málum og hún hefur vald til að grípa þarna inn í og gera breytingar ef hún telur ástæðu til.

8. gr. yrði svona:

„Innkaupajöfnun nær til kostnaðarverðs olíu sem komin er í geyma í innflutningshöfn hjá innflytjanda. Jöfnunarverð hverrar olíutegundar er kostnaðarverð olíunnar að viðbættum jákvæðum eða neikvæðum mismun sem jafna skal kostnaðarverð milli einstakra farma eða hluta úr förmum. Staða innkaupajöfnunarreiknings er því uppsöfnun á jákvæðum eða neikvæðum mismun á kostnaðarverði og jöfnunarverði olíu á hverjum tíma.“

Um þetta má segja að til kostnaðarverðs í greininni, 8. gr., telst cif-verðið, rýrnun við flutning til landsins, tollar og önnur aðflutningsgjöld innheimt við tollmeðferð, vörugjald til innflutningshafna, uppskipunarkostnaður og sérstakur innkaupahvati. Greinin fjallar að öðru leyti um skilgreiningu á jöfnunarverði olíu og innkaupajöfnunarreikningi.

Talað er um rýrnun við flutninga til landsins. Það hefur verið kallað áður „leki í hafi“, því fallega nafni. Það er alltaf um einhverja uppgufun að ræða t. d. í bensíni og eitthvað verður eftir í skipum. Um þetta er samið sérstaklega við hverja verðlagningu. Þarna er þetta tekið inn í, en verður þó farið mjög varlega í þá þætti og fylgst mjög vel með.

9. gr.: „Verðlagsráð eða Verðlagsstofnun skal samþykkja sérstakan innkaupahvata í kostnaðarverði hjá þeim innflytjanda sem hagstæð olíuinnkaup gerir á hverjum tíma. Ákveðinn hluti hagstæðra olíuinnkaupa skal þó ávallt renna til neytenda í formi lægra kostnaðarverðs skv. ákvörðun Verðlagsráðs eða Verðlagsstofnunar hverju sinni.“

Það hefur verið deilt á verðlagsyfirvöld undanfarið fyrir það að þau skapi ekki nægan hvata til hagstæðra olíuinnkaupa, eins og ég sagði áðan, með ákvörðun um hámarksverð og hámarksálagningu. Hér er gerð tilraun til að hvetja olíuinnflytjendur til hagstæðra innkaupa meðan hámarksverð eða hámarksálagning eru í gildi gegn ákveðinni umbun, með það í huga að bæði innflytjendur og neytendur fái notið góðs af.

Það sem felst í þessu er að ef olíufélagi tekst að gera hagstæð innkaup fær það sérstaka umbun fyrir það í þessum reikningum. Auk þess kemur það strax fram í þeirra innkaupajöfnunarreikningi þannig að þeim gefst tækifæri til að selja sína vöru ódýrar á landinu en hinum aðilanum. Með þessu er fylgst af Verðlagsráði. Þeir eru bókstaflega knúnir til verðlækkunar, eftir mínum skilningi, ef þeir eru komnir með það hagstæð innkaup og þá er samkeppni komin upp, þó að þetta félag selji sína vöru á sama verði um allt land, því að hin olíufélögin verða að sjá til hvað þeim tekst að ná sínum hlut niður. Þannig yrði þó kominn vottur af samkeppni í þessa grein sem ekki hefur verið til áður.

10. gr.: „Verðlagning á olíuvörum skal að öðru leyti vera skv. lögum nr. 56 frá 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sbr. lög nr. 13/1979, lög nr. 52/1982 og lög nr. 33/1984.“

Það eru sem sagt áfram á þessu höft, við skulum gera okkur það ljóst, og það veruleg höft, og það verður fylgst með í þessum efnum, en þarna er þó liðkað töluvert mikið til og mun stuðla, að ég vil meina, að hagkvæmni í þessum rekstri, einkum í sambandi við verðjöfnunargjaldið. Dreifingarkostnaðurinn vegur þar hvað þyngst. Spurning er hvort þarf ekki af hendi Verðlagsráðsins að setja þar um nýja taxta eða heimild til þess og fylgjast með á hvaða hátt olíufélögin taka sig til við þá dreifingu. Það verð ættum við að geta séð lægra. Einnig á þessi innkaupajöfnunarreikningur að geta skapað þann hvata að olíufélögin, eins og annar rekstur, fari að spreyta sig á því að selja sína vöru í samkeppni við hvert annað en ekki séu allir með nákvæmlega sama verð á vörunni.

Ég ítreka að nefndin telur þetta vera lítið skref í þá átt sem við viljum öll stefna í þessum efnum.