07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6036 í B-deild Alþingistíðinda. (5473)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mig langar til að fá tækifæri til þess að árétta örlítið af því sem hv. frsm. hér sagði um þetta mál og raunar að andmæla honum að nokkru leyti því að hann taldi að þetta væri örlítið skref. Ég tel svo ekki vera. Ég tel að það sé allstórt skref sem þarna er stigið. Það getur varla öðruvísi farið en olíufélögin byrji einhverja samkeppni þegar þetta frv. hefur verið samþykkt sem ég á von á að hljóti hér að verða því að það er þó einu sinni svo að um það bil helmingurinn af olíuinnflutningnum er frjáls og það leikur ekki á tveim tungum að við höfum ekki náð hagstæðum innkaupum á þeim olíuvörum. Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði liggur það alveg fyrir og er staðfest af forstjórum olíufélaganna að það er enginn hvati hjá olíufélagi að fá hagstæð innkaup. Þó að einhver farmur væri á mjög hagstæðu verði er því jafnað út á milli olíufélaganna allra og síðan ákveða verðlagsyfirvöld hámarksverðið. Þess vegna er það enginn vafi að Íslendingar búa við óhagstæðustu innkaup í olíuvörum sem hugsast getur.

Að því er varðar innkaupin frá Ráðstjórnarríkjunum, þá er það einkennilegur háttur sem þar er á hafður svo að vægt sé að orði kveðið. Annars vegar ræður seljandinn því á hvaða degi hann setur síðasta dropann af olíunni um borð og verð alls farmsins er miðað við það og þá aftur miðað við svonefnt Rotterdam-verð en þar sveiflast einmitt olíuverðið frá degi til dags þannig að seljandinn getur sem sagt ráðið því að við borgum ætíð hæsta verðið sem á hverju tímabili er á Rotterdammarkaði. Hins vegar eru tvíhliða samningar um olíuviðskiptin gerðir áður en farið er að tala um nokkuð annað, þannig að viðsemjanda okkar er beinlínis fengið upp í hendurnar að ráða magni og jafnvel kjörum á þeim fiskafurðum sem við seljum í staðinn. Þetta tvennt er náttúrlega alveg óhafandi og við höfum vakið á þessu athygli í nefndinni.

En hitt er meginmálið að hafa þessa þrjá innkaupajöfnunarsjóði. Þá geta olíufélögin tekið upp og munu vafalaust taka upp viðskipti við sín gömlu sambönd erlendis. Ég hygg að forstjórar olíufélaganna, tveir þeirra a. m. k., kannske allir, hafi verið þeirrar skoðunar í viðræðum nefndarinnar við þá að þeir hlytu að geta náð eitthvað betri kjörum ef þeir hefðu þessi sambönd, þessi sterku félög erlendis sem vildu hjálpa hverju og einstöku af sínum dótturfélögum segi ég. Þó þau séu alíslensk eru þau a. m. k. gömul og gróin viðskiptasambönd. Enginn vafi leikur á því, að þó að það verði kannske ekki alveg fyrstu mánuðina muni til þess koma að samkeppni hefjist með olíuvörur.

Sama er að segja um breytinguna á flutningsjöfnunarsjóðnum. Þar tek ég undir það sem hv. frsm. sagði. En við skulum ekki líta á þetta sem lítið skref. Við skulum einmitt líta á þetta sem stórt skref, sem byrjunarskref til að brjóta niður kerfi sem óhafandi er. Það kostar alltaf dálitla baráttu að ráða við kerfið. Það getur tekið kannske nokkur ár og kannske áratug af því að kerfi stendur alltaf með kerfi, þar standa allir saman eins og við höfum reynslu af í þessari hv. deild. En það lætur undan um það er lýkur. Þegar almenningsálitið knýr á og þegar allir sjá í gegnum viðskiptamátana, þá hlýtur fólkið auðvitað að knýja á um úrbætur og frjálslyndi og frjálsræði í viðskiptaháttum sem mest, og það er vonandi að sú frjálsræðisalda sem unga kynslóðin ber með sér muni bylta því kerfi sem verið hefur t. d. í olíuinnflutningnum. Við skulum þess vegna fagna því að þessu frv. hefur verið dreift þannig að gagn er í því af því að það var nánast gagnslaust eins og það kom til nefndarinnar.

Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Valdimar Indriðasyni fyrir gífurlegt starf sem hann hefur innt af höndum fyrir okkur öll í nefndinni. Þetta starf hefur mætt langsamlega mest á honum og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka honum alveg sérstaklega. Og þetta er stórt skref en ekki lítið.