07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6037 í B-deild Alþingistíðinda. (5474)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þegar þetta frv. kom til 1. umr. urðu býsna snarpar umræður hér um olíufélögin, starfsemi þeirra, aðstöðu, innkaup, þjónustu og dreifingarkerfið. Menn voru þá sammála um að það þyrfti ýmsu að breyta til betri vegar frá því sem verið hefur og menn tóku kannske nokkuð stórt upp í sig í umræðunum. Það var talað um að bylta þessu kerfi. Síðan hefur þetta mál fengið ítarlega umfjöllun í nefnd, eins og hér hefur verið frá greint, og hafa ýmsir komið til viðræðna við nefndina um málið. Ég hafði ýmsar ábendingar og athugasemdir við málið að gera í nefndinni. Þær hafa verið teknar til greina að langmestu leyti og öllu leyti, að ég hygg. Það er aðeins eitt sem ég hafði og hef enn athugasemdir við, en geri engan ágreining um vegna þess að mér er ljóst að það er allerfitt að breyta því og slíkt gerist kannske ekki í snarhasti, og það er það ákvæði að menn megi ekki selja olíu eða bensín og sleppa sinni álagningu eða umboðsmannsþóknun og selja þannig á lægra verði. En þetta er kannske ekki stórt mál.

Ég hygg að þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. í nefnd og sú ágæta vinna sem hv. 3. þm. Vesturl. Valdimar Indriðason einkum í það lagði séu til bóta. Þetta er kannske ekki mjög stórt skref sem hér er verið að stíga, en það er þó a. m. k. skref og langtum stærra skref en stjfrv. hæstv. viðskrh. gerði ráð fyrir á sínum tíma vegna þess að það frv. gerði nánast ekki ráð fyrir neinum breytingum. Hér er þó verið að breyta kerfinu og ég held hiklaust að það sé verið að breyta því til bóta. Ég er líka sannfærður um að sú umræða sem átt hefur sér stað um olíufélögin og átti sér stað hér í þessari hv. deild um olíufélögin og þjónustu þeirra hefur haft nokkur áhrif. Það var t. d. gagnrýnt hér harkalega, og ég gerði það meðal annarra, að það skyldi nánast ekki vera hægt í höfuðborg Íslands að kaupa bensín eða olíu eftir kl. 21.15 að kvöldi þegar þjónustan í nágrannabyggðunum er allt önnur og meiri. Þessi umræða, að ég hygg, og blaðaskrif um málið hafa þó m. a. leitt til þess að tvö af olíufélögunum hafa sett upp bensínsjálfsala sem hafa tíðkast í mörg ár ef ekki áratugi í löndunum hér í kringum okkur. Loksins er þessi þjónusta þó komin og nú getur maður seint á kvöldin og á helgidögum séð langar biðraðir við þessa sjálfsala. Að vísu eru þeir þeim annmarka háðir að þeir taka ekki nema 100 kr. seðla, sem er nokkur galli, en því verður væntanlega bætt úr. Þessi félög þurfa auðvitað aðhald og gagnrýni og þar má ekkert slaka á. Þó að þau hafi stigið lítið skref til að bæta þjónustuna þarna þurfa þau að taka stórt stökk í þeim efnum ef þjónusta þeirra við viðskiptavinina á að vera viðunandi.

En þetta frv., eins og því hefur verið breytt í nefndinni, er tvímælalaust til bóta. Mín skoðun er sú að þetta sé fyrsta skrefið á langri ferð sem hafin er með þessu frv. Ég hefði að vísu kosið að það væri hægt að stíga stærri skref í þetta skipti, en það verður ekki allt fengið í einu. Ég sætti mig við það eftir atvikum og greiði því atkv. með þessu frv. eins og það liggur nú hér fyrir þótt vissulega hefði verið æskilegt að geta gengið svolítið lengra.