06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

89. mál, skattar af Mjólkursamsölunni

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Það mál sem hér er til umr. tengist nokkuð hinu fyrra. Það er fsp. til hæstv. fjmrh. um innheimtu skatta af Mjólkursamsölunni og rannsókn á verðmyndun blandaðra mjólkurdrykkja. Þetta mál var ákaflega vinsælt í þingsölum á síðasta þingi, gekk þá undir nafninu „Mangó og Jógó“-málið og varð tilefni skrautlegra fyrirsagna í blöðum: „Vopnahlé í kókómjólkurdeilunni. Nefnd fjögurra ráðh. sett í að leysa málið“. Og geysilangur og ítarlegur leiðari í Morgunblaðinu 15. apríl: „Deilt um kakómjólk“. Reyndar var þetta eitt af stærri málum hæstv. ríkisstj. á s.l. vetri. Af því tilefni vil ég., með leyfi herra forseta, beina eftirtöldum fsp. til hæstv. ráðh.:

1. Er þess að vænta að fjmrh. leggi fram á Alþingi frv. til l. um breytingu á lögum frá 23. júní árið 1936, sem staðfest voru af Christian hinum X., af guðs náð konungi Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertoga í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg, um að Mjólkursamsalan í Reykjavík og Samband ísl. fiskframleiðenda skuli vera undanþegin útsvari og tekju- og eignarskatti, sbr. yfirlýsingu ráðh. á Alþingi 26. apríl s.l.?

2. Hefur fjmrh. framfylgt yfirlýsingu sinni á Alþingi frá 26. apríl s.l. um að hann telji sig „fyllilega einfæran um að annast innheimtu vörugjalds og söluskatts“ af Mjólkursamsölunni?

Og það má bæta við, þar sem ráðh. er einfær um þetta, hefur ekki svo verið gert þegar, hæstv. ráðh.? 3. Hvenær má vænta þess að fjmrh. kynni Alþingi niðurstöður nefndar sem falið var að „kanna nákvæmlega með hvaða hætti verðmyndun á kakómjólk, mangósopa og jóga á sér stað til þess að fá úr því skorið hvort verð á þessum vörum sé óeðlilega hátt“? Þessi fsp. er innan tilvitnunarmerkja og þar er vitnað í ummæli hæstv. ráðh. frá umr. á seinasta þingi orðrétt.

Herra forseti. Þessar fsp. eru til þess að fylgja eftir umr. utan dagskrár sem urðu á síðasta þingi. Þær urðu að frumkvæði þess sem hér stendur og snerust fyrst og fremst um það hvort hæstv. fjmrh. ætlaði að framfylgja lögum um skattheimtu af þessum fyrirtækjum eða hvers vegna svo væri komið að sett væri upp sérstök ráðherranefnd og sérfræðinganefnd til þess að semja innbyrðis um það hvort fyrirtækin skyldu áfram undanþegin lögum.

Hæstv. ráðh. svaraði mjög afdráttarlaust á þeirri tíð. Hann sagðist vera fullfær um að gera þetta. Hann sagðist ekki mundu hvika frá ákvörðun sinni. Og hann sagðist hafa skipað nefnd ráðgjafa sinna til að rannsaka verðmyndun í þessum bransa m.a., með vísan til þess að það var þá upplýst að Mjólkursamsalan í Reykjavík er eitt af þessum fyrirmyndarfyrirtækjum sem ekki þurfa einu sinni að leita bankalána á þessum erfiðu tímum til að standa undir stórbyggingum. musterum, sem þó er vitað að muni kosta hundruð milljóna króna. Kannske er skýring að nokkru fengin ef fyrirtækið er skattlaust að því er varðar útsvar. aðstöðugjald, vörugjald og söluskatt.

Ég vil aðeins minna á, herra forseti, að þetta mál var eitthvert stærsta mál samstarfsflokks hæstv. ráðh., þ.e. framsóknarmanna, á seinasta þingi. Og svo mikill varð undirgangurinn að það lá við að óbreyttir þm. héldu að um stjórnarslit væri að ræða. Þeir framsóknarmenn brugðu hart við og fluttu tvö mál, frv. til l. um að staðfesta það að þessi fyrirtæki skyldu undanþegin lögboðnum gjöldum og viðurkenndu þar með að lagabreytingu þyrfti til þess að þau greiddu ekki sína skatta.

Þetta var m.ö.o. stórt mál. Það varðar lög og rétt í landinu hvort fyrirtæki og framleiðendur skuli vera jafnir fyrir lögum. Það er grundvallaratriði í málinu. En í annan stað er hér auðvitað um að ræða fjárhagsmálefni sem varðar fjárhag ríkissjóðs.

Í þriðja lagi vakti þetta mál mikla kátínu í þingsölum. Ekki veitir nú af því. Það er ævinlega til bóta. Er þá ekki úr vegi að rifja upp hið undur hugljúfa ljóð, sem hv. 11. landsk. þm., Guðmundur Einarsson, fór með af þessu tilefni eftir Harry Belafonte, og leyfði sér að fara með það á íslensku: „Listen, my woman is calling to me“. Því miður saknaði ég þess þá að hv. þm., sem er fremur lagvís maður að sögn, skyldi ekki syngja þetta fyrir þingheimi og ég sakna þess ákaflega að hann skuli ekki vera hér á sínum stað til þess að bæta úr því.