07.06.1985
Efri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6041 í B-deild Alþingistíðinda. (5481)

290. mál, ríkisendurskoðun

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa iðulega heyrst raddir hér í þinginu sem hafa talið að ríkisendurskoðun ætti að heyra undir Alþingi og reyndar verið flutt um það frv. Þetta er að ýmsu leyti eðlilegt. Alþingi ákveður fjárveitingar til hins opinbera og því eðlilegt að það hafi með endurskoðun á ráðstöfun hins opinbera á þeim fjármunum að gera. Þessi háttur mun vera víða á hafður erlendis og mér er tjáð að einmitt sums staðar hafi svipaðar breytingar verið gerðar og gert er ráð fyrir með þessu frv.

Frv. er í eðli sínu ekki margslungið. Fyrst og fremst er með því gert ráð fyrir, eins og ég sagði, að ríkisendurskoðun falli undir Alþingi. Í frv. eins og það var lagt fram var einnig gert ráð fyrir að ríkisendurskoðun væri til aðstoðar við fjvn. við gerð fjárlaga.

Í meðferð hv. fjh.- og viðskn. Nd. á frv. voru gerðar á því ýmsar breytingar og koma þær fram á þskj. 1125, þ. e. eins og frv. varð eftir 2. umr. í Nd. Við þessar breytingar hef ég ekkert að athuga nema eina. Það er breyting sem er að finna í 2. gr.

Gert var ráð fyrir því, eins og frv. var fyrst lagt fram, að stjórn ríkisendurskoðunar skyldi skipuð þeim þremur yfirskoðunarmönnum sem Sameinað þing kýs skv. 43. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta var við athugun nefndarinnar ekki talið rétt og reyndar gagnrýnt af ýmsum að ríkisendurskoðun væri undir stjórn og lögð áhersla á að ríkisendurskoðandi hefði sem allra mest sjálfsákvörðunarvald í sínum gerðum og yrði ekki skipað fyrir af öðrum. Ég held að þetta sé rétt.

Í 3. gr. sagði: „Stjórn ríkisendurskoðunar ræður forstöðumann stofnunarinnar til sex ára í senn. Nefnist hann ríkisendurskoðandi og skal vera löggiltur endurskoðandi.“

Þessu er einnig breytt og sameinað í 2. gr. eins og málið stendur nú:

„Forstöðumaður stofnunarinnar, sem nefnist ríkisendurskoðandi, er skipaður af forseta Íslands, eftir tilnefningu forseta Alþingis, til sex ára í senn.“

Eins og ég sagði er fellt niður ákvæðið um stjórn. Hér segir jafnframt, með leyfi forseta, eins og stendur nú:

„Ríkisendurskoðandi er starfsmaður Alþingis og ber ábyrgð gagnvart því. Forsetar Alþingis geta, að fengnu samþykki Sameinaðs þings, vikið ríkisendurskoðanda úr starfi.“

Þessi grein fær ekki staðist eins og stendur því að í 13. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 segir: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt“ — eða m. ö. o.: Forseti Sþ. hefur skv. stjórnarskránni ekki heimild til að biðja forseta lýðveldisins að skipa forstöðumann. Sömuleiðis fær það ekki staðist að manni sem skipaður er af forseta verði sagt upp störfum af forsetum Alþingis. Ég vil benda hv. nefnd á þetta þegar hún fær það til meðferðar. Ég hef látið lögfræðing skoða þetta atriði og með leyfi forseta vil ég lesa úr álitinu nokkur orð:

„Í þessari grein felst að sem framkvæmdavaldshafi verður forsetinn í gerðum sínum að styðjast við einhvern ráðherra og framkvæma hluti á hans ábyrgð. Upphafsákvæði 2. gr. fær því ekki staðist skv. grundvallarhugmyndum 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrígreiningu ríkisvaldsins.

Í þessu efni mætti hugsa sér tvenns konar skipan a. m. k.: a) Forstöðumaður stofnunarinnar, sem nefnist ríkisendurskoðandi, er skipaður af forseta Íslands eftir tilnefningu forsrh., en mætti þó vera að fengnum tillögum forseta Alþingis, eða b) Forstöðumaður stofnunarinnar, sem nefnist ríkisendurskoðandi, skal ráðinn af forsetum Alþingis.“

Ég fyrir mitt leyti tel síðari hlutinn eðlilegri og sé ekki ástæðu til þess að forsrh. tilnefni manninn. Ég vek athygli á því að svo er það með skrifstofustjóra Alþingis að forsetar Alþingis ráða hann.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta mál flein orð. Um það náðist samkomulag í Nd. og ég geri mér vonir um að svo geti líka orðið hér í hv. Ed. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.