07.06.1985
Efri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6042 í B-deild Alþingistíðinda. (5483)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til 1. um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, 480. máli Nd. Þetta frv. hefur fengið meðferð í Nd. og ein breyting var á því gerð í Nd., þ. e. ákvæði til bráðabirgða var breytt. Að öðru leyti er frv. óbreytt eins og Nd. gekk frá því.

Þetta frv. er, eins og það ber með sér, einn þáttur í þeirri viðleitni ríkisstj. að gera ráðstafanir til að létta greiðslubyrði fólks í sambandi við húsnæðismálin, þá erfiðleika sem þar hafa komið upp. Ég vil geta þess að það sem ríkisstj. hefur fyrst og fremst tekið til meðferðar í sambandi við þessi mál eru í fyrsta lagi viðbótarlán með ráðgjöf sem áætlað er að muni nema um 200 millj. kr. Sömuleiðis var í þeirri aðgerð gert samkomulag við banka og sparisjóði um að koma til móts við húsbyggjendur og verður e. t. v. hægt að lýsa því hér á eftir. Ég vil þá geta þess í sambandi við ráðgjafarþjónustuna, af því að það hefur ekki komið fram í hv. Ed., að skv. nýjustu upplýsingum sem komið hafa fram hafa rúmlega 2000 umsóknir um lán vegna greiðsluerfiðleika borist ráðgjafarþjónustunni og í dag höfðu um 1010 umsóknir verið afgreiddar til lántöku. Það sýnir umfang þessarar starfsemi, hvað hún er mikilvæg, og einnig að það er alveg ljóst að jafnvel hafa hærri fjárhæðir farið í fyrirgreiðslu hjá bönkum og sparisjóðum.

Ég skal, herra forseti, reyna í örstuttu máli að lýsa aðdragandanum að þessu frv. um greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Hann var sá að félmrh. lagði fram í ríkisstj. í janúar tillögur um að lánskjaravístala yrði tekin til endurskoðunar með tilliti til vaxandi greiðsluerfiðleika fólks vegna húsnæðislána. Í sambandi við það fól félmrh. sérstakri nefnd, sem hafði það verkefni að kanna fasteignamarkaðinn og fasteignaviðskipti, að gera tillögur til úrbóta á þessu sviði og gera tillögur um leiðir sem fælust aðallega í því að jafna greiðslubyrði af fasteignaveðlánum einstaklinga. Þessi nefnd skilaði ákveðnum tillögum eða drögum að frv. 22. febrúar og síðan var áfram unnið af sérfróðum mönnum, eins og kemur fram í grg. með þessu frv.,og útbúið frv. til l. um greiðslujöfnun fasteignaveðtána til einstaklinga. Þetta frv. var síðan lagt fyrir ríkisstj. 7. mars s. l. Í sambandi við viðræður ríkisstj. við Alþýðusamband Íslands, m. a. um húsnæðismál, var skipaður sérstakur samstarfshópur stjórnvalda og Alþýðusambandsins sem vann að ýmsum hugmyndum til lausnar á fjárhagsvanda húsbyggjenda og jafnframt að því að byggja upp frv. samkv. tillögum nefndarinnar. Þessu frv. var svo skilað til ríkisstj. og það er það frv. sem nú er til afgreiðslu á Alþingi.

Það má segja að með þessu frv. sé boðuð ný stefna í verðtryggingu húsnæðislána. Frv. byggir á svonefndri greiðslujöfnun fasteignaveðlána sem felst í því að endurgreiðslur húsnæðislána eru tengdar launabreytingum. Tilgangur frv. er þannig að fyrirbyggja að greiðslubyrði vegna húsnæðislána þyngist ef misgengi skapast milli hækkunar lánskjaravísitölu og hækkunar launa og/eða hækkunar raunvaxta.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að ræða mikið meira um þetta mál. Það hefði að vísu verið æskilegt, eins og fyrsta frv. gerði ráð fyrir, að þetta hefði náð til allra lánastofnana í landinu. Á því var ekki talinn tæknilegur möguleiki af ýmsum ástæðum, ekki síst þar sem eitt af grundvallaratriðum í þessu frv. er afturvirkni, eins og kemur fram í 4. gr., til 1. mars 1982. Það væri ekki hægt að setja lagaskyldu á aðrar peningastofnanir en aðeins á opinbera sjóði. Þess vegna byggir frv. fyrst og fremst á skyldu húsnæðissjóðanna, en heldur opnum möguleikum til samninga við aðra sjóði og peningastofnanir.

Það má geta þess hér, sem er mjög mikilvægt, að lífeyrissjóðirnir hafa samþykki að taka þessa aðferð upp í sambandi við lán úr lífeyrissjóðum. Það hefur gífurlega mikla þýðingu því að lífeyrissjóðirnir og húsnæðissjóðirnir lána gegnumsneytt 50–70% af öllum venjulegum útlánum til húsnæðislána í landinu.

Ég sé ekki að ástæða sé til að fara fleiri orðum um þetta. Það er samkomulag um að reyna að hraða þessu máli þannig að það verði lögfest fyrir þinglok. Ég treysti því að hv. Ed. geri það sem í hennar valdi stendur til að svo geti orðið. Þetta er þýðingarmikið mál fyrir fjöldann í landinu og ég reikna fastlega með því að frv. hafi mikið gildi þegar grannt er skoðað.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lokinni þessari umr. að mælast til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ed.