07.06.1985
Efri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6045 í B-deild Alþingistíðinda. (5485)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. sem gjarnan hefði mátt vera til fyrr. Að vísu gengur það ekki eins langt og við í Alþfl. hefðum talið að gera ætti, en það er tvímælalaust til bóta.

Það kom til tals ráðgjafarþjónustan sem tekin hefur verið upp hjá Húsnæðisstofnun og ýmsum er tamt að hnýta í þá stofnun vegna þessa og menn segja að ráðgjafarþjónusta eigi í raun ekki að fara fram. Ég er alveg á öðru máli en þeir sem því halda fram. Ég held að ráðgjafarþjónustan hafi orðið að miklu gagni í því ástandi sem nú er — ástandi sem vissulega er orðið til vegna gerða ríkisstj. og þeirrar sem á undan henni var. Staðreyndir liggja fyrir um að nauð húsbyggjenda er mikil og þess vegna kemur þessi þjónusta að góðu gagni. Það var athyglisvert, sem félmrh. sagði hér áðan, að það hefðu 2000 manns sótt um lán í framhaldi af slíkri ráðgjöf og 1010 verið afgreidd.

Ég nota þetta tækifæri til að segja frá því að svona ráðgjafarþjónusta er orðin til suður í Keflavík fyrir Suðurnesin þar sem tekist hefur samvinna milli Húsnæðisstofnunar og verkalýðsfélaga á Suðurnesjum, í Keflavík, og allra bankanna og lífeyrissjóðsins þar. Við bindum miklar vonir við að það geti orðið húsbyggjendum að miklu gagni og ekki aðeins húsbyggjendum því að það er meiningin að ráðgjafarþjónustan verði víðtækari, gefi mönnum ráð þegar þeir ætla að leggja út í fjárfestingu, kaupa íbúð eða slíkt, geri mönnum grein fyrir því hvort menn geta staðið undir þeim fjárfestingum eða ekki. Ég held að sú ráðgjafarþjónusta sem tíðkast hér í Reykjavík ætti einnig að taka slíkt upp, enda væri það af því góða því að vart fara menn út í fjárfestingar án þess að hafa skoðað dæmið til fulls. Væri oft og tíðum mikil hjálp í því að viðkomandi séu varaðir við því að leggja út í ákveðnar fjárfestingar sem þeir fyrirsjáanlega ráða ekki við.

Það má deila endalaust um hverjum það ástand er að kenna sem er í húsnæðismálunum. Ég held að þeir sem þurfa að þola séu þó á einu máli um að stjórnarstefnan hafi valdið þessu og þau hroðalegu mistök sem urðu þegar lánskjaravísitala og kaupgjaldsvísitala voru teknar úr samhengi — mistök eins og forsrh. hefur orðað svo sem hafi valdið því að jafnvel þúsundir húsbyggjenda og húseigenda standa frammi fyrir gjaldþroti eða feikilegum greiðsluvandræðum.

Ég endurtek að ég tel að þetta frv. gangi í rétta átt. Það er þó ófullnægjandi og ég sætti mig ekki við þær skýringar, sem fram komu hjá hæstv. félmrh., að af tæknilegum ástæðum sé ekki hægt að hafa fleiri inni í þessu en opinbera sjóði og vildi gjarnan fá frekari skýringar á því af hverju er ekki hægt að lögbinda fleiri aðila til að ástunda greiðslujöfnun.