07.06.1985
Efri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6048 í B-deild Alþingistíðinda. (5489)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Kristín Ástgeirsdóttir:

Herra forseti. Þá hefur loksins litið dagsins ljós það frv. og þær tillögur sem fluttar eru af sumum þeim sem standa að ríkisstj. Við höfum heyrt að ekki eru allir jafnhrifnir af þeim tillögum sem þar eru á ferð. Þessar ráðstafanir eiga að skila 370 millj. sem auðvitað er allt of lítið en ber þó að fagna og ber að minnast þess að það er fyrst og fremst vegna þeirra miklu umræðna sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu um þessi mál og ekki síst vegna þess þrýstings sem stjórnarandstaðan hefur beitt á undanförnum vikum að þessar tillögur hafa litið dagsins ljós.

Þessar tillögur gera ráð fyrir því að leggja 1% söluskatt ofan á þann söluskatt sem fyrir er, en hann er nú þegar mjög hár. Í þessu felst að það er lagt gjald á alla, en í tillögum stjórnarandstöðunnar var bent á leiðir til að flytja fjármagn frá þeim sem betur mega sín inn í húsnæðiskerfið. Í tillögum stjórnarandstöðunnar var bent á að það dugar skammt að grípa nú til neyðarráðstafana þegar allt er komið í óefni. Það sem þarf að gera er auðvitað að móta heildarstefnu í húsnæðismálum og horfa til lengri tíma. Næstu aldamót hafa verið nefnd og það veit sá sem allt veit að það veitir ekki af að reyna að gera sér grein fyrir því hver þörfin verður á næstu 15 árum, hvernig á að byggja, hvers konar húsnæði er hagkvæmt og hverjir það eru sem þurfa á húsnæði að halda. Að mínum dómi hefur verið rekin hér kolröng stefna í húsnæðismálum og ég fagna því sérstaklega að félmrh. hefur ákveðið að skipa nefnd sem á að móta heildarstefnu til langs tíma og var vissulega tími til kominn.

En ég lýsi ábyrgð á hendur ríkisstj. og þeim flokkum sem að henni standa, þeim sem fyrir síðustu kosningar gáfu fólki fögur loforð um allt að 80% lán til húsnæðiskaupa og bygginga. Ég tel, að þar með hafi fjölda fólks verið fleygt út í kviksyndið þar sem fólk berst um á hæl og hnakka og reynir að bjarga sér sem best það getur. Ég tel að húsnæðismál og það að eiga kost á þaki yfir höfuðið séu mannréttindi, en eigi ekki að vera bitbein og ástæða til loforða sem síðan eru ekki efnd.

Með þeim tillögum sem hér eru á ferð er aðeins tekið á hluta vandans, þ. e. þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Ég verð að segja það sem mína skoðun að ég er ekkert viss um að það séu endilega húsbyggjendur og húskaupendur sem eiga við mestan vanda að stríða í þessu þjóðfélagi í húsnæðismálum þó að þeir hafi látið mest í sér heyra. Ég bendi á að t. d. þeir leigjendur sem hafa tekið sig saman, yfir 4 þús. talsins í húsnæðissamvinnufélaginu Búseta, námsmenn, aldraðir, öryrkjar, að ekki sé talað um einstæða foreldra, allt eru þetta hópar sem eru aðkrepptir í þjóðfélaginu, ekki síst í húsnæðismálum eins og kannanir hafa sýnt og sannað.

Með þessum orðum er ég alls ekki að gera lítið úr erfiðleikum þeirra sem eru að kaupa og byggja húsnæði, en hinir mega ekki gleymast. Ég minni á að þegar ég sat á þingi fyrr í vetur flutti ég till. um að gert yrði sérstakt átak í byggingu leiguhúsnæðis. Ég reikna með að sú till. sofi einhvers staðar vært í nefnd. Ég tel að hér á landi þurfi virkilega að breyta um stefnu og að í stað þeirrar einstefnu sem ráðið hefur ríkjum þurfi að gefa fólki kost á að velja um hvort það vill kaupa, hvort það vill leigja eða nota einhver önnur form. Ég bendi á að á Norðurlöndum hafa samvinnuhreyfingin og verkalýðshreyfingin í marga áratugi unnið að því að byggja upp húsnæðissamvinnukerfi og staðið fyrir byggingu tugþúsunda leiguréttaríbúða af ýmsum stærðum og gerðum, en hér á landi hafa menn einblínt á þá leið sem er dýrust, óhagkvæmust og erfiðust, bæði fyrir einstaklinga og þjóðfélagið, leið sem m. a. hefur gert Ísland að því vinnuþrælkunarþjóðfélagi sem við okkur blasir og hefur leitt til þess að fjáröflun til húsnæðismála er orðin meiri háttar vandamál. Hugsjónir um einkaeign og sjálfstæði eru eitt, en raunveruleiki er annað. Húsnæðisstefnan þarf að taka mið af þjóðfélaginu og samsetningu þess og hún á að stefna að því að uppfylla þær þarfir sem fyrir eru.

Herra forseti. Ég tel að með aðgerðum stjórnarandstöðunnar undanfarnar vikur hafi tekist að þoka máli þessu áleiðis og er það vel þó að skrefið sé hvergi nærri nógu stórt. Ég mun greiða atkv. gegn þeirri tillögu að hækka söluskattinn, en að öðru leyti mun ég ekki standa í vegi fyrir framgangi þessa máls.