06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

89. mál, skattar af Mjólkursamsölunni

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tek ekki undir það með hv. 5. þm. Reykv. að ég sakni svo mjög hv. 4. landsk. þm., hvað þá að ég óski eftir því að hann færi að syngja hér fyrir okkur lög eftir Harry Belafonte, því að ég held að hann hefði ekki bætt umr. um þessi mál með sínu framlagi frekar en þeir Bandalagsmenn gera yfirleitt þegar þeir taka hér til máls. Því að hér er ekki um neitt gamanmál að ræða. Hér er um það að ræða að menn átti sig á því að mörg af þeim lögum sem nú gilda í landi voru eru sett um bændasamfélag. En þjóðfélagið hefur þróast langt frá því að vera bændasamfélag og er nú má segja iðnvætt nýtískuþjóðfélag. Lögin eru því að stórum hluta úrelt og því á mörgum sviðum erfitt að fara eftir þeim, eins og kom fram hjá prófessor Sigurði Líndal á fundum fjh.- og viðskn. Nd. fyrir nokkru.

Ég vil rekja nokkuð gang þessa máls. Ég byrja á því að vitna hér í samkomulag sem var gert í þessu máli á milli hæstv. landbrh. og fjmrh. Þar segir í fjórum liðum:

„Fjmrh. er reiðubúinn að standa að samkomulagi um gjaldtöku á kakómjólk, mangósopa og jóga á eftirfarandi grundvelli:

1. Innheimtu vörugjalds og söluskatts á umræddum vörum verði frestað með beitingu undanþáguheimildar laga.

2. Verð umræddra vara lækki verulega, a.m.k. um 20% frá útsöluverði.

3. Gengið verði úr skugga um vilja Alþingis varðandi þessa gjaldtöku og önnur atriði í verðlagningu landbúnaðarvara þegar á næsta hausti.

4. Verðmyndunarkerfi landbúnaðarins í heild verði tekið til rækilegrar rannsóknar og endurskoðunar á vegum ríkisstj. og niðurstöður kynntar Alþingi í haust.

Í framhaldi af þessu leggur fjmrh. til að málið verði afgreitt í ríkisstj. með eftirfarandi samþykki: Landbrh. hefur ákveðið að beita sér fyrir nákvæmri úttekt á verðmyndun landbúnaðarafurða sem fram fari á næstu mánuðum og verði kynnt Alþingi næsta haust.

Þar til þessari könnun er lokið og Alþingi hefur tekið afstöðu til hennar og hugsanlega nýrra tillagna um þessi mál mun fjmrh. nýta lagaheimildir til að undanþiggja kakómjólk, mangósopa og jóga vörugjaldi og söluskatti, enda beiti landbrh. sér fyrir því að þessar vörur lækki verulega í verði til almennings nú þegar.“

Eins og menn muna hófst sala á þessari vörutegund frá Mjólkursamsölunni aftur eftir að landbrh. hafði beitt sér fyrir því að prósentulækkun, sem nam svo til innheimtu söluskatts, eða 20%, hafði verið samþykkt af framleiðendum. Má segja að þar með hafi gjöld á þessari vörutegund verið innheimt á þann hátt að neytendur nutu þess, en skatturinn rann ekki beint í ríkissjóð, eins og hefðbundið er og lög gera ráð fyrir, meðan sú lagaheimild sem hv. 5. þm. Reykv. vitnaði hér til er könnuð og gengið úr skugga um það hvort þessi gömlu lög nái yfir þau gjöld sem lögð hafa verið á síðan lögin tóku gildi, þ.e. nýja skatta.

Þessi könnun er í gangi, og ég vildi leyfa mér að lesa hér upp svar. En fyrst vil ég geta þess að drög að frv. þessu voru reyndar kynnt í ríkisstj, s.l. vor og ég hef þegar ákveðið að leggja það fyrir ríkisstj. að nýju.

En til svars við öðrum og þriðja lið fsp. skal þess getið að s.l. vor var gerð bráðabirgðaathugun á verðmyndun blandaðra mjólkurvara í kjölfar áforma um að innheimta af vörum þessum vörugjald og söluskatt eins og lög sýnast standa til. Á grundvelli þessarar athugunar náðist samkomulag í ríkisstj. um að fresta gjaldtöku af þessum vörum þar til nánari athugun hefði farið fram á verðmyndunarkerfi mjólkurvara. Að henni er nú unnið en ekki er hægt að svo stöddu að greina frá því hvenær henni muni verða lokið. Þeir menn sem vinna að þessari athugun, sem nær til fleiri þátta en mjólkurvaranna sem hv. fyrirspyrjandi gerir hér að umræðuefni, heldur tekur til verðmyndunar á landbúnaðarvörum almennt, eru Guðmundur Sigþórsson úr landbrn. og Þorvaldur Búason fyrir hönd fjmrn.

Ég vona að ég hafi svarað fsp. fyrirspyrjanda í málinu.