07.06.1985
Efri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6049 í B-deild Alþingistíðinda. (5490)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Hér eru til umræðu tvö tengd mál sem fjalla um aðgerðir vegna slyss, nokkurs konar umferðarslyss, sem átt hefur sér stað, og það er greinilegt að menn hafa mjög ólíka plástra á sér til að bregðast við og hjálpa bágstöddum úr þessu slysi. Ég verð að viðurkenna að mér eru þeir plástrar sem hér er boðið upp á ekki eins geðþekkir og margir aðrir.

Það er allt gott um það að segja að menn ætli að taka sér tak og móta nýja stefnu í húsnæðislánamálum, en á þessu stigi eru hinir slösuðu engu bættari þó að farið sé í skipulag nýrra vega þegar menn hafa orðið fyrir slysi vegna þess skiputags sem á þessum vegum er í dag.

Mönnum verður hér nokkuð tíðrætt um hver beri sök á því sem orðið er. Ég held að enginn einn geti þar borið hana almennilega af sér, jafnvel ekki þátttakendurnir, þ. e. hinir slösuðu, þar sem þeir sýndu kannske á tíðum nokkuð mikla oftrú á stjórnvöldum og sérstaklega á loforðum þeirra.

En hvað um það. Á árunum 1982–1983 eða öllu heldur árunum 1981–1983 fór af stað hægt og sígandi en svo með sívaxandi hraða verðbólga sem byrjaði raunverulega ekki að mælast í lánskjaravísitölu að neinu ráði fyrr en á árinu 1983. Þá kom til valda ríkisstjórn sem lækkaði hér laun og felldi gengi. Hennar aðgerðir mældust svo ekki fyrr en á síðasta ári, fyrr en á árinu 1984, og fólk hefur verið að líða fyrir þessar athafnir þessara tveggja seinustu ríkisstjórna.

Vel að merkja. Sú ríkisstj. sem situr núna bauð sig náttúrlega fram til betri verka þannig að hún getur mjög illa, tel ég, kennt síðustu ríkisstj. um hvað orðið er vegna þess að ég veit ekki betur — og þeir sem hana kusu vissu ekki betur — en hún ætlaði að gera betur en seinasta ríkisstjórn. (EgJ: Hún hefur gert það líka.) Hv. 11. landsk. þm. þykist vita um eitthvað sem þessi ríkisstj. hefur gert betur en sú fyrri. Hann getur væntanlega upplýst okkur um það síðar.

Það verður líka að viðurkenna að þegar talað er um ríkisstjórnir er átt við þær almennt — ekki endilega þá sem situr þessa stundina heldur ríkisvaldið almennt. Mistök þess eru einfaldlega með þeim hætti að syndir feðranna koma niður á börnunum. Ég vil endurtaka það sem ég sagði í upphafi: Mér finnast þær aðgerðir sem verið er að ræða um í frv. til l. á þskj. 1108 í alla staði mjög ógeðfelldar. Vandamál þess fólks sem hér um ræðir, þess afmarkaða hóps sem hér um ræðir, er orðið til vegna þess að það voru teknir af því peningar. Þeim var hreint og beint stolið. Við höfum gagnrýnt þá ríkisstj. sem nú situr. Ekki bara fyrir það hvað hún er dugleg að leggja skatta á fólk. Við höfum gagnrýnt hana hvað mest fyrir það hvað hún fer illa með fjármuni. Ég tel að betra hefði verið í þessu tilviki að leggja enn þá meiri áherslu á að þessi ríkisstj., með breyttri fjármálastjórn, með tilfærslum innan fjárlaga, fyndi fé til að kosta þær aðgerðir sem hér er verið að ræða um. Mér finnst hálft í hvoru að með því að ræða um það í alvöru að afla fjár til þessara verka með aukinni skattlagningu séum við að samþykkja og lögleiða þjófnað. Það er ríkisvaldið sem ber ábyrgð á stöðu þessa fólks. Það eru stjórnvöld sem bera ábyrgð á því. Fólkið sjálft lagði út í það sem það lagði út í í góðri trú um að aðstæður héldust óbreyttar og þegar það brást með tilkomu nýrra stjórnvalda trúði það því að því yrði samt gert kleift að kaupa eða eignast húsnæði með mannsæmandi hætti. Þetta hefur ekki gerst og núna er gerð tilraun til þess að bæta úr, en þá ekki með því að bæta fjármálastjórn í raun og veru heldur er einfaldlega skarað meira að þessari köku með stækkun hennar, með aukinni skattheimtu og síðan á að nota það fé til að hjálpa þessu fólki sem reyndar eins og venjulega er tekið úr þess eigin vasa. Þetta finnst mér vera að þeim hugmyndum sem hérna er verið um að ræða.

Áðan var hér verið að tala um greiðslujöfnunarfrv. og ég er sammála þeim sem það gagnrýndu áðan. Það gengur of skammt í því að skilgreina þann vanda sem hér um ræðir og það gengur og skammt í því að skuldbinda þá aðila, sem lána fé til þarfa þess fólks sem hér um ræðir, til að vera því innan handar og aðstoðar.

Svo er annað sem hér skyldi horfa á. Það er að þær aðgerðir sem við erum hér að ræða um, sú fjármögnun sem hér er rædd, eru fyrst og fremst fjármögnun á aðgerðum sem þegar eru að nokkru leyti um garð gengnar, aðgerðum sem fjármagnaðar voru af fé sem tekið var af nýbyggingarlánum Byggingarsjóðs ríkisins. Í raun og veru er bara verið að greiða það fé til baka þannig að hægt sé að standa undir nýbyggingarlánum með sama hætti eða nokkurn veginn þeim sama hætti og fyrirhugað var í upphafi við gerð fjárlaga. Á næsta ári er svo fyrirhuguð áframhaldandi tekjuöflun með sama hætti sem þá verður hið eiginlega umframframlag til þessara mála. Það er kannske líka gallinn við þessa aðgerð í heild að hún skilar sér ekki nógu hratt á þessu ári til þessa fólks þannig að það má horfa fram á að þrengingar þess verða þó nokkuð langar enn.