06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

89. mál, skattar af Mjólkursamsölunni

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta hv. 5. þm. Reykv. þegar hann segir að hér hafi verið samið um undanþágu fyrir viðkomandi fyrirtæki um niðurfellingu á sköttum. Það er alls ekki rétt. Það er ekki verið að semja við fyrirtæki um niðurfellingu á sköttum, heldur er málið í biðstöðu hvað ákvörðun snertir vegna þess að beðið er eftir réttri túlkun á lögunum. Og hér er ekki um sérstaka pólitíska fyrirgreiðslu að ræða. Það er hægt að hártoga allt og gera allt tortryggilegt. Hér er um að ræða skulum við segja sérstaka pólitíska fyrirgreiðslu með konungsákvörðun frá 1936, eins og hv. þm. vitnaði til í upphafi máls síns. Það er verið að vefengja þau lög sem þá voru sett af konungi og eiga alls ekki við þjóðfélagið eins og það er í dag. Lögin eru sett sérstaklega um þetta fyrirtæki og þess vegna rís deila um þau lög. Það er ekki fyrirtækið sem er að brjóta af sér.

Ég mundi ekki treysta því, þrátt fyrir það mat, sem er nú ekki mitt, að ég sé einfær um að framfylgja lögum í þessu landi, öllum lögum. Ég get framfylgt lögum sjálfur sem einstaklingur, en ég get ekki fengið alla aðra Íslendinga til að framfylgja lögum og brjóta þau ekki. Það er rangt mat. Mér þykir vænt um það álit sem þm. hefur á mér sem slíkum, en ég treysti mér ekki til að standa undir þessu hóli hans.

Ég vil undirstrika að þessi mál eru í rannsókn og rannsóknin nær lengra en yfir mjólkurafurðir eða þær níu tegundir af drykkjarvörum sem Mjólkursamsalan hefur sett á markaðinn. Þessi rannsókn nær yfir landbúnaðarafurðir almennt. Ég tel það stórt skref og mikilvægt að einmitt Framsfl., í góðu samstarfi við Sjálfstfl., lagði á það áherslu að þessi mál yrðu rannsökuð í heild sinni. — Hvenær rannsókninni lýkur? Ég vona að ekki sé langt í það. En hún varð viðameiri en upphaflega var gert ráð fyrir. Leita þarf upplýsinga víðs vegar að frá útlöndum og þar af leiðandi tefst hún eitthvað.

Herra forseti. Það er ákaflega erfitt að hafa sjónvarpsmenn galandi í kapp við ræðuna. Það er varla að ég fái lokið máli mínu. (Forseti: Ég hef óskað eftir því að þetta væri stöðvað, en það hefur ekki verið gert.)