07.06.1985
Neðri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6056 í B-deild Alþingistíðinda. (5512)

475. mál, ríkislögmaður

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur rætt þetta mál á nokkrum fundum og er meiri hl. sammála um að mæla með samþykki málsins eins og fram kemur í nál. á þskj. 959.

Ég vil aðeins segja varðandi þau sjónarmið, sem fram koma í nál. hv. 1. minni hl. fjh.- og viðskn., Guðmundar Einarssonar, að það er misskilningur að það hafi sömu verkan að reglur um ríkislögmann séu staðfestar með reglugerð og að bein lagaákvæði séu um þau atriði. Það er ljóst að hæstv. fjmrh., þótt mikill sé fyrir sér, getur ekki bundið aðra ráðh. með reglugerð sem hann setur, heldur er nauðsynlegt, ef ákvæðin um ríkislögmann eiga að gilda almennt um ríkisstj., að ákvæðin verði lögfest.

Ég vil gagnvart þeim tillögum sem hv. 3. þm. Reykv. flytur, brtt. hans á þskj. 975, aðeins segja það að auðvitað orkar tvímælis undir hvaða rn. embætti ríkislögmanns skuli heyra. Þetta er á ýmsa lund í ýmsum löndum. Ef ég man rétt heyrir embætti ríkislögmanns undir dómsmrh. í Noregi en hins vegar undir fjmrh. í Danmörku svo að þetta má hugsa sér með ýmsum hætti. Einnig er auðvitað hugsanlegt að þetta embætti sé undir forsrh. En eins og þetta frv. liggur fyrir er sem sagt gert ráð fyrir því að sá sami háttur verði á hafður og í Danmörku, að ríkislögmaður heyri undir fjmrh.

Varðandi síðari lið í hans tillögum, um að ríkislögmaður skuli skipaður til sex ára í senn, vil ég aðeins segja að ég tel nauðsynlegt að þetta mál verði tekið upp í heild, hvort rétt sé að taka upp þá skipan að embættismenn séu ráðnir til ákveðins árafjölda, og vil mega vænta þess að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir því að þau mál verði athuguð í heild á sumri komanda þannig að Alþingi geti tekið afstöðu til heildarlöggjafar um þau efni á því þingi sem kemur saman í haust.

Ég vil, herra forseti, mæla með því að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir frá Ed.