07.06.1985
Neðri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6057 í B-deild Alþingistíðinda. (5513)

475. mál, ríkislögmaður

Frsm. 1. minni hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég ætla hérna að mæla fyrir nál. frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn. sem er undirritað af Guðmundi Einarssyni. Það hljóðar svo:

„Á síðari árum hefur orðíð sú þróun að löglærðir menn í fjmrn. hafa í vaxandi mæli flutt mál fyrir ríki og ríkisstofnanir. Þetta eru venjur sem hafa myndast í samræmi við ríkjandi tíðaranda en þurfa ekki að hafa frambúðargildi. Tilgangur frv. þessa er fyrst og fremst að staðfesta þann sið sem þannig hefur mótast, m. a. með setningu reglugerðar 6. mars 1984 sem kveður á um starfssvið „ríkislögmanns“. Skv. grg. virðist reyndar svo sem frv. sé flutt til staðfestingar á reglugerðinni.

Starfshættir stjórnarráðs og ríkisstofnana hljóta að vera í sífelldri endurskoðun og það er nauðsynlegt að tryggja olnbogarými fyrir tilraunir, breytingar og aðlögun í samræmi við þarfir og hugmyndir hvers tíma. Að mati undirritaðs er því rangt að binda í lög starfsskipulag á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir. Með þessari lagasetningu er verið að leggja grunn að útþenslu ríkiskerfisins og geirnegla starfshætti þess. Undirritaður leggur því til að frv. verði fellt.“

Hér kemur sem sagt fram afstaða mín til þessa máls. Ég held af ýmsum ástæðum að ég hafi hérna nokkuð til míns máls. Í fyrsta lagi vildi ég aðeins segja varðandi málsmeðferð að það snýr nokkuð undarlega við að vera nú í þeim sporum á Alþingi að fjalla um frv. sem flutt er til staðfestingar á reglugerð. Yfirleitt er þetta nú hina leiðina að settar eru reglugerðir í framhaldi af því að

Alþingi hefur sett lög. En hérna er sem sagt öðruvísi að þessu staðið.

Ég vil líka segja varðandi starfshætti að það er umhugsunarvert fyrir nefndir þingsins að þær skuli fjalla þannig um mál að fyrst er sett í rn. reglugerð og auglýst í Stjórnartíðindum um að ákveðnu starfi sé komið á fót. Hér er t. d. auglýst í Stjórnartíðindum 6. mars 1984 að forseti Íslands hafi hinn 6. mars skv. till. forsrh. staðfest svohljóðandi reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 96 31. des. 1969 um Stjórnarráð Íslands. Þar segir:

„1. gr. Við lið 1 í 5. gr. reglugerðarinnar bætist nýr tölul. er verði 15. tölul. og orðist svo:

15. Fyrirsvar vegna málsóknar á hendur ríkissjóði og ríkisstofnunum og málsóknar þessara aðila á hendur öðrum þar sem fjárkröfur eru gerðar eða úrslit máls geta að öðru leyti haft fjárhagslega þýðingu fyrir ríkissjóð. Verkefni skv. þessum tölul. skulu falin sérstökum ríkislögmanni.“

Síðan — ef ég er farinn að kunna á kerfið rétt — hefur væntanlega starfandi ríkislögmaður samið frv. til laga um ríkislögmann. Þetta er síðan lagt fram á Alþingi. Síðan mætir starfandi ríkislögmaður á fund hjá fjh.- og viðskn. þegar fjallað er um frv. um ríkislögmann, embætti sem hann þegar situr í og hefur væntanlega samið frv. um. (Gripið fram í: Og leggur til að það verði samþykkt.) — Og leggur væntanlega eindregið til að það verði samþykkt. Þetta voru athugasemdir sem ég vildi gera í sambandi við aðdraganda málsins.

Varðandi síðan málið sjálft, þ. e. að færa í lög á þann hátt sem ég hef hérna lýst starfsvenjur hvers tíma, það tel ég að sé mjög rangt. Hérna er um að ræða venju sem hefur myndast í gegnum tíðina. Það hefur sem sagt gerst að lögfræðingar á vegum fjmrn. hafa fjallað um kröfur og rekið mál eða varið mál fyrir hin ýmsu rn. Eins og segir í nál. er þetta venja sem skapast hefur en þarf alls ekki að hafa neitt frambúðargildi. Það getur vel verið að menn vilji hafa á þessu allt annan skikk innan fárra ára. Þess vegna finnst mér alrangt að negla þessa verkaskiptingu niður í lögum á þann hátt sem gert er hér.

Ég held raunar að töfin, sem hefur orðið á þessu máli, sá tími sem hefur liðið frá því að málið var afgreitt úr n., sem er væntanlega í kringum 21. maí, og þangað til núna þegar það er loks rætt, sé sönnun þess sem ég er að segja vegna þess að á þessum tíma hefur komið maður eftir mann úr rn. og bent á að þetta gangi ekki upp vegna þess að þetta rekist á við ýmsa hluti. Ég held að það sé af þessum ástæðum alrangt að festa þessa hluti á þennan hátt sem gert er hér, ekki síst miðað við þær breytingar sem eru nú að verða á starfsháttum, starfsvenjum og starfsaðferðum. Ég held að menn séu bara að búa sér til hindranir sem þeir eigi síðan sífellt eftir að rekast á æ ofan í æ á næstu árum. Þess vegna legg ég eindregið til að þetta frv. verði fellt.