07.06.1985
Neðri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6058 í B-deild Alþingistíðinda. (5514)

475. mál, ríkislögmaður

Frsm. 2. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er frv. til 1. um nýja ríkisstofnun, frv. um ríkislögmann. Það er fimmta nýja ríkisstofnunin sem fjallað er um á fundum Nd. í dag. Það eru þrjár sem eru afkvæmi Framkvæmdastofnunar ríkisins, síðan er það ríkisendurskoðun sem er nú kannske komin til Ed. og svo er það ríkislögmaðurinn. Það er ástæða til að vekja sérstaka athygli á þessu, herra forseti.

Ég flyt við þetta frv. eina brtt. Hún er á þskj. 975 og er annars vegar um það að embætti ríkislögmanns heyri undir dómsmrh. og hins vegar að ríkislögmaður verði aðeins ráðinn til sex ára í senn. Þessi till. varðandi það að embætti ríkislögmanns væri sjálfstæð stofnun sem heyrði undir dómsmrh. var flutt á því stigi málsins þegar ég gerði mér vonir um að meiri hl. n. vildi að einhverju leyti koma til móts við þær almennu gagnrýnisraddir sem heyrst hafa vegna þessa frv. Það hefur nú komið á daginn að meiri hl. n. kýs að halda sig við óbreytt frv. Ég mun þess vegna, herra forseti, draga til baka fyrri málsgr. brtt. á þskj. 975 en held mig við síðari málsgreinina.

Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir því að ríkislögmaður fari með uppgjör bótakrafna sem beint er að ríkissjóði. Og í 3. gr. segir að ríkislögmaður geti falið hæstaréttar- eða héraðsdómslögmönnum utan embættisins meðferð einstakra mála að fengnu samþykki þeirrar ríkisstofnunar sem hlut á að máli.

Hér er í raun og veru haldið mjög sérkennilega á hlutunum. Við skulum ímynda okkur að það gerðist að menntmrh. teldi nauðsynlegt að fara í mál við iðnrh. vegna verksmiðjunnar við Mývatn. Skv. orðanna hljóðan í þessu frv. er gert ráð fyrir því að ríkislögmaður flytji málið fyrir báða ráðh., farið bæði með sókn og vörn í sama málinu. Það getur verið að einhverjir lögfræðingar hafi komið að því að semja þetta frv., getur verið að það séu menn sem hafi próf í lögum. En ég hygg þó að allir sanngjarnir menn hljóti að viðurkenna að hér er óeðlilega á hlutunum haldið. Fyrir liggur umsögn frá Lögmannafélagi Íslands þar sem bent er á hvað þetta er í rauninni fráleitt, að ætla ríkislögmanni og embætti hans að fara með sókn og vörn í sama málinu.

Í annan stað er í þessu undarlega frv. gert ráð fyrir því að ríkislögmaður ákveði hverjir fari með mál fyrir hönd einstakra ráðh. Það er verið að taka mál skv. þessu frv. að nokkru leyti af einstökum fagráðherrum og ríkislögmanni ættað að úrskurða hver fer með mál fyrir hönd fagráðuneyta. Þetta er auðvitað algjörlega fráleitt. Ég dreg í efa að ráðh. eins og hæstv. heilbrrh. og hæstv. félmrh., sem hér eru í salnum, hafi gert sér grein fyrir því að málarekstur sem hugsanlega er nauðsynlegt að standa í á vegum þeirra rn., við skulum segja þegar rn. væru varnaraðilar, sé fluttur yfir til ríkislögmannsins.

Ég hefði haldið og tel eðlilegt að það sé til eitthvað sem heitir ríkislögmaður, það sé sjálfsagður hlutur eins og verið hefur. En hins vegar að ætla þessum sama ríkislögmanni og embætti hans að fara með öll mál, eins og hér er gert ráð fyrir, bæði í sókn og vörn fyrir hönd ríkisins, það kemur ekki til mála. Ég er sannfærður um það, herra forseti, að þegar menn sjá hvað þetta frv. er vitlaust — ef það verður að lögum og það verður gerð tilraun til að framkvæma það í einstökum rn. — þá munu viðkomandi fagráðherrar ráða sína lögmenn eftir hendinni og eftir þörfum þá og þá og eftir því hvernig málin liggja fyrir.

Ég held þess vegna að það hefði verið rétt, herra forseti, að setja hér inn í 2. gr. ákvæði um það að ríkislögmaður fari með þessi mál að jafnaði en það sé ekki fortakslaust í öllum tilvikum. Ég vil inna eftir því: Væri frsm. meiri hl., hv. 2. þm. Norðurl. v., tilbúinn til þess að fallast á þá breytingu að hér væri talað um að ríkislögmaðurinn færi að jafnaði með mál en ekki í öllum tilfellum? Það getur ekki gengið upp.

Ég vil svo sérstaklega endurtaka það sem ég benti á hér áðan að þegar tveimur rn. lýstur saman, menntmrh., skulum við segja, þarf að stefna iðnrh. út af botninum í Mývatni eða eitthvað þvíumlíkt, á þá ríkislögmaðurinn að fara með málið báðum megin frá? Það er auðvitað rugl. Ég vona að hæstv. iðnrh. eða aðrir fagráðherrar sem hér eru noti tækifærið meðan málið er til meðferðar enn í þinginu, þetta vitlausa frv., til að segja sig frá þessum vinnubrögðum. Því að ég er alveg sannfærður um að þeir muni ekki hlýða svona fortakslausum ákvæðum, enda stenst það ekki.

Síðan er í 3. gr. þessa frv. — sem er mjög sérkennilegt og alveg óvenjulegt í löggjöf um eina stofnun eða embætti — tekið fram hversu margir sérfræðingar eiga að starfa við stofnunina. Það stendur: „Við embætti ríkislögmanns starfa auk hans allt að þrír lögfræðingar.“ Það er ákvörðunaratriði Alþingis hverju sinni við afgreiðslu fjárlaga hversu margir embættismenn starfa hjá hinum einstöku ríkisstofnunum. En hér er því slegið föstu að það skuli við þetta tiltekna embætti starfa þrír lögfræðingar. (Gripið fram í.) Það er verið að tala hér um að það sé tiltekinn fjöldi og auðvitað er venjan sú, hæstv. iðnrh., það getur verið einn. En venjan er sú að við fjárlagaafgreiðslu sé tekin afstaða til svona mála. Það er gert við fjárlagaafgreiðslu. Það stendur t. d. hvergi í lögum að í iðnrn. skuli starfa allt að svo og svo margir menn heldur er það ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Þess vegna tel ég að þetta lagaákvæði sé algjörlega óeðlilegt.

Ég vil hins vegar taka fram að ég sé ekkert á móti því að það séu til lög um starfssvið ríkislögmanns. Ég er þess vegna ekki sammála hv. 4. landsk. þm. í þeim efnum. En mér finnst þetta frv. eins og það lítur út tæknilega illa úr garði gert. Ég held að það væri heppilegt ef hv. þm. og hæstv. ráðh. gerðu sér grein fyrir því hvaða vitleysa er hér á ferðinni þannig að ráðh. fái tök á því að segja sig frá þessum endileysum áður en málið fer í gegnum þingið því að ég er sannfærður um að þetta stenst ekki neinn praxís eins og þetta er fest hér á blað. Menn munu neita að beygja sig undir þetta í einstökum rn.