07.06.1985
Neðri deild: 88. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6061 í B-deild Alþingistíðinda. (5516)

475. mál, ríkislögmaður

Frsm. 2. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Mér fannst hv. 2. þm. Norðurl. e. vera að gera tilraun til að misskilja mig viljandi og mér fannst það hins vegar snjöll samlíking hjá honum þegar hann líkti þessu stjfrv. við hið sovéska kerfi. Ég hygg að fátt geti lýst þessari endaleysu betur þegar gerð er till. um það að sama embættið geti farið með sókn og vörn í sama málinu. Síðan segir hv. þm. og ég vek athygli á því: „Auðvitað hlýtur ríkislögmaður að verða við beiðni ráðh.“ Hann sagði: „beiðni ráðh. um það að aðrir flytji málið.“ Þvílík náð og miskunn að ríkislögmaður verði við beiðni ráðh. um að aðrir flytji málið. Undir hvern er ríkislögmaðurinn settur? Hann er settur undir fjmrh. og lýtur valdboði hans. Það stendur hér skýrum stöfum í þessum texta. Það er því fjmrh. sem ræður úrslitum um það hvaða lögmaður eða lögmenn það eru sem fara með málið í sókn eða vörn. Það er hann sem þarna ræður en ekki einstakir fagráðherrar vegna þess að að hinu leytinu til er ríkislögmaðurinn að troða sér inn á þeirra svið.

Mér er auðvitað sama þó að stjórnarmeirihlutinn vilji samþykkja þetta sovéska kerfi hér, hann um það. En ég er að reyna að benda mönnum á hvað þetta er vitlaust. Ef þeir vilja ana í gegn með þessa vitleysu þá verða þeir að hafa það. En það verður þá ekki sagt að þeim hafi ekki verið bent á hvers lags rugl þetta er hér við umr. í þinginu. Þeir vita hvað þeir gera þegar þeir samþykkja þessa endaleysu. Þess vegna verður ástæðulaust að fyrirgefa þeim þegar þeir fara að brjóta þessi lög sjálfir vegna þess að þeir geta ekki hlýtt þeim, þau eru óframkvæmanleg, þau eru svo vitlaus.

Ég harma það að hv. 2. þm. Norðurl. e. skuli ekki vilja koma til móts við þau sjónarmið sem hér eru flutt varðandi einstakar lagfæringar á þessu frv., sanngjarnar ábendingar. En ég tók eftir því sem hann sagði um 3. gr. frv., að honum fannst þetta gott ákvæði, þessi nýlunda að það skuli starfa allt að því þrír lögfræðingar við embætti ríkislögmanns. Er ekki rétt þá ef þm. vill vera sjálfum sér samkvæmur að hann flytji frumvarpsbandorm um það hvað eiga að vera margir embættismenn, lögfræðingar. viðskiptafræðingar. verkfræðingar, ritarar o. s. frv. við hvert einstakt embætti ríkisins? Það er ákaflega óvenjulegt að vera inni með ákvæði af þessu tagi og auðvitað á að strika það út. En af einhverjum ástæðum hefur stjórnarmeirihlutanum verið svo mikið niðri fyrir að koma þessu máli fram að hann hefur ekki viljað hlusta á sanngjörnustu leiðbeiningar.

Vita þm. hvernig á því stendur að stjórnarmeirihlutinn vill koma þessu máli í gegn? Vita þm. af hverju það er? Það er verið að auka við báknið. Ekki ætti íhaldið að hafa áhuga á því. Það er verið að auka hér við valdsvið fjmrh. Ekki ættu hinir ráðh. að hafa áhuga á því. Hvaða ástæða skyldi vera á bak við þetta? Eru einhver innanhúsvandamál í stjórnkerfinu sem liggja á bak við þetta? Það skyldi þó ekki vera að það sé verið að stofna hérna heilt embætti ríkislögmanns til þess að leysa innanbúðarvandamál í stjórnarráðinu. Það er hetjuskapur eða hitt þó heldur, en lýsir ákaflega vel úrræðaleysi ríkisstj. Þegar hana ber upp á sker með eitthvert vandamát þá er ekkí hægt að leysa það heldur er búið til nýtt embætti til þess að leysa vandamálið.

Þingið á auðvitað ekki að láta bjóða sér svona. Enda sést það á öllu að þetta frv. er fætt afturfótafæðingu frá ríkisstj., þetta er hið mesta rugl og ríkisstj. hefur verið bent á það.