06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

89. mál, skattar af Mjólkursamsölunni

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli hér einu sinni enn. Það er alveg ljóst að fyrirtæki eins og Mjólkursamsalan rekur sína starfsemi á þann hátt að hún á síst af öllu skilda undanþágu frá sköttum vegna þess að vörur frá henni til neytenda eru ósvífnislega dýrar. En það eiga þessi fyrirtæki sameiginlegt, Mjólkursamsalan og Osta- og smjörsalan, sem upphaflega áttu að rekast á félagslegum grundvelli, að hafa gerst kapítalískari en flest önnur og undan því svíður á flestum heimilum landsins. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt hvernig komið er fyrir verðlagi á landbúnaðarafurðum í þessu landi.

Ég vil leyfa mér að benda á að það er samhengi í öllum aðgerðum hæstv. fjmrh. í skattamálum. Þeim í þjóðfélaginu sem græða verulega, hafa arð af sínum fyrirtækjum, er yfirleitt hlíft við sköttum. Það nægir að nefna hér frétt í einu dagblaðanna í dag þar sem það skipafélag sem skilaði bestum arði á s.l. ári fær undanþágu frá aðflutningsgjöldum á krana, sem það hafði verið að kaupa, sem það hafði aldeilis full efni á að borga sín gjöld af. Það virðist hins vegar ekki vera stefna hæstv. fjmrh., sem eitt sinn taldi sig umfram allt bera fyrir brjósti hag hinna tekjulægstu í þjóðfélaginu, að létta neinu af þeim. Þessar ívilnanir og undanþágur eru miskunnarlaust teknar af fólkinu í landinu, sem svo er ekki hægt að greiða sómasamleg laun, og hellt út í verðlagið í allt of mikilli álagningu á brýnustu nauðsynjavörum.

Ég bendi á þetta því að hæstv. fjmrh. hefur verið að afnema skatta af öllum mögulegum aðilum nema þeim sem borga brúsann, hinum láglaunuðu skattgreiðendum. Hann hefur afnumið skatta af vaxtatekjum.

Vaxtaokrið blómstrar. Hann hefur hækkað frádrátt til skatts um 57% til eignamanna. Arðskattur fyrirtækja hefur lækkað um 23% o. s. frv. Í þessu er samhengi. Þannig mætti bókstaflega spyrja um hvert einasta þessara atriða og fá sömu svörin, að nú sé verið að kanna hvort eigi að breyta þessu eitthvað.

Mér þykir nú heldur lélegt svar ef hæstv. fjmrh. hefur ekki séð ástæðu til að breyta lögum vegna þess að Christian konungur X. setti þau einhvern tíma. (Gripið fram í.) Vissulega mun það hafa verið Christian konungur X. sem hæstv. fyrirspyrjandi gat um að hefði undirskrifað lögin og mörg lög hafa nú verið endurskoðuð á styttri tíma.