07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6065 í B-deild Alþingistíðinda. (5528)

Umræður utan dagskrár

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé vilji allra og var það þegar í gær að stilla máli okkar í hóf, þeirra sem áhuga hafa haft á því að ræða þessi mikilvægu mál hér. Það lá alveg ljóst fyrir hvers vegna ég fór fram á þessa utandagskrárumr. í gær, um það mál lék aldrei á nokkur vafi. Ætla ég ekki að eyða þeim knappa tíma sem skammtaður hefur verið í þessa umr. í að fjölyrða um það hvers vegna ég álít að mér hafi verið neitað um þessa umr. utan dagskrár í gær og hvers vegna hún er leyfð í dag.

En til að fyrirbyggja allan misskilning er nú svo komið að ég lagði fram ákveðnar skriflegar fsp. í gær til hæstv. menntmrh. þar sem fram kom svo ekki fari neitt á milli mála um hvað málið snýst og um hvað efnisleg spurning mín hljóðar. Ég er sem sagt að spyrja um það hvort og hvernig menntmrh. hyggst bregðast við því neyðarástandi sem skapast hefur í dagvistarmálum.

Það sem var að heyra sem aðalröksemd fyrir því að hæstv. menntmrh. þyrfti ekki að taka þátt í þessum utandagskrárumr. í gær, var sitt á hvað en þó aðallega þetta: Fóstrur væru ekki ríkisstarfsmenn. Þetta hefði hæstv. menntmrh. ekki átt að segja. Hjá ríkinu vinna nú fyrir það fyrsta margar fóstrur. Það er eitt hæsta prósentuhlutfall af fóstrum pr. deild og pr. heimili af öllum heimilum á landinu. Þar vinna fleiri fóstrur á deild en um getur annars staðar nema ef vera kynni hjá. Kópavogsbæ. En til þess að vera nákvæm þá vinna 33 fóstrur hjá ríkinu, á spítölunum.

Þá var röksemdin sú að ráðh. þyrfti ekki, að taka þetta mál upp vegna þess að ríkið væri ekki samningsaðili við fóstrur. En þó svo hefði ekki verið reyndin þá hefði verið full ástæða fyrir ríkisstj. að taka þá stefnu að ganga fram fyrir skjöldu og á undan með góðu fordæmi til að skapa góðar vinnuaðstæður á þessum stöðum og til að bægja þessu vandamáli frá. En þó svo hefði ekki verið, þó ríkið hefði ekki haft neinar fóstrur á sínum vegum, þá hefði samt sem áður verið næg ástæða til að fjalla um þetta mál hér og nú, sem sagt og þó svo hefði verið í gær.

Það verður að koma fram opinber stefna í dagvistarmálum hvort sem hún gildir um heimili sem alfarið eru rekin á vegum ríkis eða sveitarfélaga. Það verður að vera alveg ljóst að á meðan útgefin dagskipun hæstv. forsrh. hljóðar upp á það, að til þurfi að koma ráðstöfunartekjur beggja hjóna eða aðila í sambúð til þess að halda uppi heimilishaldi. án þess að hann geti um það hvernig einstætt foreldri eða einstætt fólk á að halda sér uppi, þá verða börnin úr þessum samböndum víst einhvers staðar að vera. eða hvað? En hvar? Hjá dagmæðrum kannske? Sá hængur er samt á þeirri ráðstöfun m. a. að þar kostar plássið fyrir barn u. þ. b. 6000 kr. Ef þetta fólk á t. d. tvö eða jafnvel þrjú börn fer að verða lítið eftir af ráðstöfunartekjunum sem nauðsynlegar eru skv. orðum hæstv. forsrh.

Að auki er um að ræða tvísköttun þeirra örfáu sem þess njóta að komast inn með börn sín á dagvistarheimili, ef fólk er jafnframt svo óheppið að vera gift. Þá eru hjónin í gegnum útsvar sitt búin að greiða fyrir uppbyggingu, rekstur og niðurgreiðslu til einstæðra foreldra og þurfa síðan að greiða hækkað gjald þegar til á að taka ef þeirra börn komast að.

Í öðru lagi taldi ráðh. það ekki vera tímabært að taka þetta mál til umr. vegna þess að þetta mál væri ekki nýtt. Ég taldi hins vegar því meiri ástæðu til að ræða þetta mál væri það ekki nýtt af nálinni — sem það er alls ekki, ég er henni sammála um það — vegna þess að þá þyrfti að knýja á um það að tekið væri á þessu máli. Það er þá kominn tími til þess að taka duglega til hendinni, bretta upp ermarnar, þar sem það er orðið að slíku vandamáli að dagvistarmál í landinu eru komin á slíka heljarþröm. Í þriðja lagi taldi ráðh. sig ekki geta tekið þetta til umr. vegna þess að henni hefði ekki gefist ráðrúm til þess að lesa NT áður en hún hefði farið til vinnu um morguninn. Auðvelt hefði nú verið í gær að gefa 15 mínútna frest á meðan hæstv. ráðh. gæfist ráðrúm til þess að lesa fréttina því að auðvitað hefur ráðh. haft það í hendi sér að svara til um hvaða stefnu hún ættaði að taka í þessum málum og hvaða till. hún hefur þar að lútandi.

Eitt var það enn sem kom fram í máli hæstv. ráðh. í gær í þingskapaumr. sem gerði það að verkum að ekki ætti að taka þetta mál til umr. utan dagskrár þá. Þar bæri einungis að taka til umr. mál sem krefðust skjótrar úrlausnar. Hún taldi sem sagt ekki að þetta mál krefðist skjótrar úrlausnar. Ég er ansi hrædd um að það fólk sem að þessu máli stendur, foreldrar, börn, fóstrur og starfsfólk á dagvistarheimilum, sé hæstv. ráðh. langt því frá sammála. Það sem varð þess valdandi upphaflega að ég bað um þessa umr. er eins og fram hefur komið frétt sem var í dagblaðinu NT í gær undir svohljóðandi yfirskrift: „Viljum ekki fleiri dagvistarheimili við óbreytt ástand.“ Ég ræddi það í gær hverjir það skyldu hafa verið sem ekki vildu fleiri dagvistarheimili, hvort það hefðu verið einhverjir þeir sem vildu bara reka konur heim af vinnumarkaðinum og að foreldrar yrðu ekki lengur með börnin sín á slíkum stöðum og að hætt yrði rekstri dagvistarheimila alfarið.

Ég rakti það einnig að það voru samtök foreldra barna sem dveljast á dagvistarheimilum og fóstrur sem höfðu lagt þetta til og þetta var haft eftir þeim. Þessi niðurstaða fæst þegar ljóst er að ekki er hægt að manna þær dagvistarstofnanir sem fyrir hendi eru í dag, hvað þá heldur þegar nýjum er bætt við.

Það sem veldur þessum flótta fóstra og starfsfólks úr dagvistarkerfinu er, svo vitnað sé í NT, með leyfi forseta: „Það er vegna lágra launa og gífurlegs vinnuálags.“ Þetta kom fram að því er segir í frétt NT á blaðamannafundi Fóstrufélagsins og samtaka foreldra á dagvistarheimilum sem þau héldu í fyrradag. Afleiðing allra þeirra aðstæðna sem raktar eru í fréttinni er stórfelld hreyfing á starfsfólki dagvistarheimilanna, eða 62.8% á síðasta ári og þá er einungis talað um Reykjavík.

Ég ætla ekki að rekja nánar það sem ég rakti hér í gær um að ef lögunum væri framfylgt út í ystu æsar þá ættu það að vera fóstrur sem sinntu störfunum alfarið á dagvistarheimilunum og þá vantar um 250 fóstrur í stöður. Ef við segjum: „Lengi býr að fyrstu gerð“, getur það verið að í huga einhvers þurfi að setja spurningarmerki aftan við þetta máltæki? Ég held að svo hljóti að vera farið um okkur flest, að þess þurfi ekki. Flest, segi ég, vegna þess að það virðist leika einhver vafi á því í huga hæstv. ráðh. sem fer með yfirstjórn menntamála í landinu og þar með, með yfirstjórn dagvistarmála í landinu.

Þessi fullyrðing er sett hér fram vegna þess að þessi sami ráðh. gerði sér lítið fyrir að ræða þennan brýna vanda sem skapast hefur í dagvistarmálum í landinu og fer hraðbyri vaxandi. Dagvistarmál eru að komast á heljarþröm og er u. þ. b. að skapast neyðarástand á mörgum dagvistarheimilum. Ég vil kalla það neyðarástand þegar börnin, sem dveljast á dagvistarheimilum, þurfa að gangast undir það erfiða álag sem því fylgir að þurfa að kynnast náið allt að tíu til tólf uppalendum á ári.

Slík er hreyfing starfsfólks úr stöðum á dagvistarheimilum. Það þýðir lítið, eins og gert var í gær, að upphefja sjálfan sig með því að hrósa sér af því, eins og hæstv. menntmrh. gerði hér í gær, að nú hafi það í fyrsta sinn gerst í menntmrn. að komin sé fram starfsáætlun fyrir dagvistarstofnanir og unnið verði að því að kynna þessa áætlun á vegum rn. í allt sumar til þess að þeim starfsmönnum, sem við þessar stofnanir starfi, gefist kostur á að fjalla um þær og að fyrir geti legið ábendingar frá þeim sem þar starfa í haust.

Hið algjöra skilningsleysi ráðh. kemur fram í því að augu hennar hafa ekki opnast fyrir því um hvað þetta mál snýst, hver kjarni þessa máls er. Kjarni þessa máls er sá að ráðh. menntamála þarf að snúa sér að því með öllum þeim dug og kjarki, sem ég efast ekkert um að í henni býr, að koma fram stefnu í þessum málum opinberlega sem færir núverandi ástand til betri vegar þannig að hin opinbera stefna ráðh. í menntamálum fari ekkert á milli mála. Geri ráðh. það hins vegar ekki er hætt við að það verði engir starfskraftar, engar fóstrur eftir við störf á dagvistarheimilum í haust til að vinna eftir þessari ítarlegu og gagnmerku starfsáætlun sem ráðh. sagði eiga að verða til þess „að gera vinnuna á dagvistarstofnunum markvissa, til gæfu og aðstoðar þeim ungu borgurum sem á stofnunum eru og til þess að auðvelda starf þeirra sem við stofnanirnar vinna.“ Svo mörg voru þau orð.

Mig langar hér til að vitna í Þjóðviljann í gær, með leyfi forseta. Þar segir Arna Jónsdóttir fóstra þegar hún afhendir Davíð Oddssyni undirskriftarlista sem safnað hafði verið um það að styðja aðgerðir í þessum málum: „Ég trúi ekki öðru en að eitthvað verði gert í málum okkar. Ef ekkert verður gert þurfum við að taka afstöðu til þess hvort við neyðumst til að loka einhverjum deildum dagvistarheimilanna í haust. Það er engin lausn að byggja ný dagvistarheimili þegar ekki er hægt að manna þau sem fyrir eru.“

Það sem er eitt það alvarlegasta af öllu alvarlegu í sambandi við þessi mál og ég gat um hér í gær, er bein afleiðing af því hvernig á hefur verið haldið hingað til, þ. e. að nú er svo komið í fyrsta skipti í sögu þessa merka skóla, sem Fósturskóli Íslands er, að skortur er á umsækjendum og að framlengja hefur þurft umsóknarfrest. Það bendir ótvírætt til þess að fólki finnist það langt í frá fýsilegt að leggja á sig þriggja ára langt og strangt nám að loknu stúdentsprófi eða sambærilegri menntun til þess síðan að takast á hendur það starf sem, fyrir utan það að vera erfitt og að þar séu gerðar miklar kröfur ásamt því að álag nálgast það að vera ómannúðlegt, er með allægst launuðu störfum í þjóðfélaginu.

Sama máli gegnir um það framhaldsnám sem til margra ára hefur verið keppikefli fóstra að komið verði á fót við Fósturskóla Íslands. Nú er svo komið að eftir að umsóknarfrestur hefur verið framlengdur hafa enn þá ekki nægilega margar fóstrur sótt um til þess að hægt verði að halda því úti. Þetta framhaldsnám hefur verið baráttumál fóstra í áraraðir vegna þess að þær hafa hingað til þurft að sækja slíkt nám erlendis en slíkt nám er mjög nauðsynlegt til áframhaldandi þroska og starfseminni til góðs. Að fóstrur sækja ekki um þetta framhaldsnám nú, segir okkur það eitt að þær treysta sér ekki til þess að leggja út í langt og strangt nám kauplausar til þess eins að koma svo aftur til starfs sem eftir mikið álag, bæði í námi og starfi, gefur ekki meira í aðra hönd en raun ber vitni.

Ég vil vitna aftur í Þjóðviljann frá því í dag, með leyfi forseta, þar sem Guðrún Antonsdóttir fóstra segir þau sorglegu tíðindi sem því miður eru staðreynd: „Mín laun segja ekkert við framfærslu heimilisins, en ég hef „góða“ fyrirvinnu svo að ég get ekki kvartað.“ Það er mótsagnakennt á 20. öldinni að maður þurfi, ja, við getum orðað það þannig, að „tryggja“ sig ef maður hefur áhuga á að starfa við kvennastörf.

Herra forseti. Það er fróðlegt að reyna að leggja það niður fyrir sér hvers vegna er lögð á það áhersla, að því er virðist, að það mikilvæga starf, sem skiptir sköpum um hvernig framtíðarþjóðfélag okkar lítur út, er ekki metið að verðleikum og að sú stefna sé tekin af hálfu yfirvalda að ekki beri nema í orði að hlúa að yngstu kynslóð þessa lands. Það þýðir lítið að tala um að takast verði á við þá tækniöld sem við siglum hraðbyri inn í ef ekki verður tekist á við að hlúa að þessum þjóðfélagsþegnum svo að þeir verði færir um að búa og starfa í þessu framtíðarþjóðfélagi. Þess vegna segi ég að svarið hljóti að vera að þessi stefna yfirvalda sé allt saman hluti af einni samstæðri heild, hluti af aflögu við menntakerfið, sem kom skýrt í ljós í hinni svokölluðu kennaradeilu. Nú er þar komið að vinna það verk, sem reynast á og er í senn létt verk og löðurmannlegt, að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og byrja á börnum þessa lands, sumum hverjum ómálga, á ári æskunnar með því að yfirvöld heykjast á að taka strax á þeim vandamálum sem skapast hafa í dagvistarmálum.