07.06.1985
Neðri deild: 89. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6072 í B-deild Alþingistíðinda. (5530)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði hér einu sinni í þingræðu í vetur — ekki man ég nú af hvaða tilefni — að Framsfl. hefði með einhverju ákveðnu máli hlaupið 300 ár fram í tímann. Ég verð að segja að ég held að hæstv. menntmrh. ætti að taka tilhlaup og reyna að taka sams konar stökk. Ég hefði aldrei ímyndað mér að ég ætti eftir að heyra aðra eins ræðu hér í sölum Alþingis um dagvistarheimili eins og þau eru rekin í dag. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Hafi ráðh. haft áhyggjur af börnunum hér uppi á pöllum hefði þessi ræða getað verið styttri.

Hér er um það að ræða að dagvistarheimili landsins eru u. þ. b. að lokast vegna þess að ekki er hægt að halda þar starfsfólki. Við hér á Alþingi berum auðvitað fulla ábyrgð á þessum málum. Við höfum verið að afgreiða hér fjölmörg mál um ótal atriði sem til bóta eiga að verða í þjóðfélaginu og ekki síst að leysa alls kyns vanda sem upp er kominn. Við erum að fjalla hér um nýjar leiðir í atvinnumálum, við erum að fjalla um útflutning á íslensku hugviti og ég veit ekki hvað og hvað. En á sama tíma blasir nú við flótti allra sérmenntaðra manna úr þjónustu ríkisins á öllum sviðum, ekki síst frá skólunum og frá dagvistarheimilunum sem vitanlega er fyrsti vísir kennslu í landinu, vegna lélegra launa og afleitra vinnuskilyrða.

Að í Reykjavík einni saman skuli vanta 50 fóstrur til þess að ein fóstra sé á deild er auðvitað fjarri öllu lagi. Hæstv. ráðh. sagði hér áðan að það væri fullmikið í lagt að segja að hér væri neyðarástand. Ég þekki þess dæmi að eitt lítið barn hefur haft sem fóstrur, að vísu ekki sérmenntaðar fóstrur heldur barnfóstrur á dagheimili, 10 konur á einu ári. Það nær ekki nokkurri einustu átt að leggja slíkt á börnin.

Ráðh. talaði hér um dagvistarheimili sem félagslega aðstoð. Þetta segir hæstv. ráðh. í þjóðfélagi þar sem 80% foreldra, sem saman búa, vinna bæði úti. Í landinu eru um sex þúsund börn einstæðra mæðra eða einstæðra foreldra. Það er ekkert um það að ræða að börnin séu á heimilum sínum. Það hefur svo verið um hnútana búið að til þess að reka heimili þarf tvo einstaklinga vegna þess að launin eru svo lág. Ég hef áður talað um það hér á hinu háa Alþingi að með aukinni þátttöku beggja aðila á vinnumarkaðinum gerðist einfaldlega það að launin voru skorin niður um helming þannig að í staðinn fyrir að áður fyrr gat einn aðili unnið fyrir heimili verða tveir að gera það núna. Afkoma einstæðra foreldra hér á landi er engin afkoma. Það er því ekkert um það að ræða að börnin alist upp á heimilum sínum.

Hér áður fyrr náðu börn málþroska, sem er einhver mikilvægasta menntun sérhvers einstaklings, heima hjá sér, frá afa sínum og ömmu, af mömmu sinni sem var heima allan daginn og eldri systkinum. Ég verð að upplýsa hæstv. ráðh.: Þessi tíð er liðin, hæstv. ráðh. Ég átti svona heimili, ég geri ráð fyrir að ráðh. sjálfur hafi átt það líka, en svona heimili finnast varla lengur hjá íslenskum fjölskyldum. Við lifum í öðruvísi þjóðfélagi, í nýju þjóðfélagi, og við verðum að bregðast við því.

Í framhaldi af þessu skal ég upplýsa að barnakennarar landsins ganga ekkert að því gruflandi að málþroska íslenskra barna er orðið óhugnanlega ábótavant, en ein frumskylda dagvistarheimila landsins er að annast t. d. þennan þátt uppeldis.

Nú vill svo til, hæstv. ráðh., að þessi félagslega aðstoð, einkum við einstæða foreldra því að það eru ekki margir aðrir sem fá inni á dagvistarheimilum, er eins og allar tíu ára áætlanir, sem samþykktar hafa verið, kveða á um, þessi félagslega aðstoð svokölluð er einfaldlega bundin í lögum. Alþingi Íslendinga hefur mótað stefnu í þessum málum, t. d. með lögum um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn. Ráðh. las áðan 1. gr. þeirra laga með seinni breytingum.

Alþingi hefur líka samþykkt grunnskólalög. Í grunnskólann koma börnin jú beint af dagvistarheimilunum, eða ættu að gera, þó að allt of mörg börn verði að leita annarra leiða. Ég skal reyna sem unnt er að stytta mál mitt en ég hlýt að lesa 2. gr. grunnskólalaganna með leyfi forseta:

„Hlutverk grunnskólans er í samvinnu við heimilin að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á mannlegum kjörum og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og skyldum einstaklingsins við samfélagið. Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.“

Í lögum, um rekstur og byggingu dagvistarstofnana, segir í 18. gr., með leyfi forseta:

„Forstöðumaður dagvistarheimilis skal halda reglulega fundi með starfsliði um stjórn heimilisins og um velferð hvers einstaks barns. Skylt er rekstraraðila dagvistarheimilis að skipuleggja tengsl milli foreldra barnanna og dagvistarheimilis í því skyni að efla samstarf milli þessara aðila um velferð barnsins.“

Grunnskólalögin og lög um dagvistarheimili eru mjög í sama anda. Löggjafinn hefur mótað stefnu í þessum málum. Minna má á að í kjarasamningum fyrir nokkrum árum — nú man ég ekki hvenær það var, það skiptir ekki öllu máli — var samið um tíu ára áætlun um uppbyggingu dagvistarstofnana sem fullnægja skyldu þörfum u. þ. b. 75% íslenskra barna. Það þarf ekki að taka það fram að sú áætlun stenst engan veginn.

Fyrir nokkrum árum var gerð hér í Reykjavík tíu ára áætlun um uppbyggingu dagvistarstofnana. Sú áætlun er líka orðin langt á eftir áætlun. Þannig fer fyrir þessum málum, hvað sem um þau er samþykkt. Það er eftirtektarvert að barnsfeður hér á Alþingi eru greinilega velflestir í kaffi — (Gripið fram í: Nei, nei, nei.) Ég var að hugsa um það áðan að nú vill svo til að hv. alþm. eru frjósamt fólk. Ég mundi giska á (Gripið fram í: Af báðum kynjum.) — að þm. 60 mundu eiga sjálfir 150–180 börn. Það er myndarlegur hópur og ég þykist vita að fjölmörg þeirra hafi alist upp að verulegu leyti fyrstu árin á dagvistarstofnunum, allavega einhver verulegur hluti þeirra.

Það er undarlegt hvað menn gera sér litla grein fyrir hversu gífurlega þýðingarmikið starf er unnið á þessum stofnunum. Hér fyrir örfáum dögum ræddu menn innfjálgir og áhyggjufullir um aukna eða allavega háa tölu fóstureyðinga. Ég býst við að allir geti verið sammála um það að fóstureyðing sé neyðarráðstöfun hverrar manneskju. En hafa hv. alþm. góða samvisku varðandi það að þjóðfélagið sé þannig úr garði gert að litlu börnin séu velkomin, að þeim sé tryggð velferð? Ég er ansi hrædd um að það skorti mikið á það. Ég fæ ekki séð að það sé fýsilegur kostur t. d. fyrir foreldri, sem verður eitt um uppeldið, að ala barn, það er ekki aðlaðandi hugsun eins og sakir standa nú í þjóðfélaginu. (ÓÞÞ: Er búið að rannsaka þetta með frjósemina?) Ég get svarað því seinna, ég vil ekki eyða frekari tíma í það, hv. þm., það hefur reyndar verið gert.

Það væri hægt að ræða margt um þessi mál. Meðan fyrrv. borgarstjórn sat að völdum hér í Reykjavík þóttumst við leysa vanda þroskaheftra barna varðandi aðgang að dagvistarheimilum. Við gerðum það án þess að byggja nokkur aukahús þó að það sé nú einu sinni háttur Íslendinga að halda að öll mál leysist með því að byggja hús. Við fengum einfaldlega fleira starfsfólk inná dagvistarheimilin með styrk menntmrn. að sjálfsögðu og þáv. hæstv. menntmrh. Ingvars Gíslasonar.

Það er tómt mál að tala um að hæstv. menntmrh. hafi ekki neitt með þetta mál að gera vegna þess að þetta sé fyrst og fremst launamál. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðh. að við ættum hér að hafa alla ríkisstj. í stólum sínum því að það er ekki við hæstv. menntmrh. einan að sakast, það er aldeilis hárrétt. Allt ástand hér í þjóðfélaginu og allur aðbúnaður að opinberum starfsmönnum er orðinn á þann veg að ekki er annað sýnt en að opinber þjónusta, eins og heilsugæslukerfið, skólakerfið, dagvistarkerfið, leggist meira og minna út af ef svo heldur fram sem horfir. Ég held þess vegna að það væri ástæða til fyrir alla ríkisstj. að setjast niður og huga að því hvernig hún hyggst bregðast við þessum vanda.

Herra forseti. Mér er ljóst að það eru aðrir sem vilja komast að til að ræða þetta mál. Sem betur fer eru hér þó nokkrir þm. sem gera sér grein fyrir hvað hér er á ferðinni. En ég vænti þess að áður en þessari umr. lýkur geti hæstv. ráðh. veitt okkur einhver haldbærari svör en þau sem fram komu hér áðan því að það eru a. m. k. 20 ár síðan að menn hættu að tala um dagvistarheimili landsins sem einhvers konar geymslustaði þar sem börnum gæti verið hlýtt á daginn og þau fengju eitthvað að borða.